föstudagur, nóvember 29

Kominn föstudagur!!
Og fyrsti í aðventu á sunnudaginn....verð víst að fara að taka upp jólaskrautið og kannski baka eins og eina eða tvær smákökusortir. Sé til hvað ég nenni....úff verð víst að kaupa líka síðustu jólagjafirnar sem eiga að fara heim þar sem mamma og pabbi koma á fimmtudaginn. Ferlega líður tíminn hratt. Jæja. Ég á að halda fyrirlestur á eftir sem mér tókst að undirbúa í gær. Reyndar ekkert stórt. Það eru einhverjir menntaskólakrakkar að koma í heimsókn á stofnunina og yfirmaðurinn verður með fyrirlestur fyrir hádegi og svo verðum við þrjú með fyrirlestra eftir hádegi, ég, Nick (breskru postdoc) og Eden (erythreiskur doktorant sem er að klára og er aðalsprautan í akrylamíðdæminu) þannig að erum allt útlendingar til að reyna að gera þetta meira spennandi fyrir krakkana. Eigum að tala um af hverju við erum í Svíþjóð og afhverju umhverfisefnafræði og hvað við værum að vinna með núna. Ef maður pælir í því þá erum við mjög alþjóðleg hérna á stofnuninni, ég frá Íslandi, Nick frá Bretlandi, Ronnie frá Skotlandi, Eden frá Eryþreu, Daniel frá Erythreu, Daiva frá Litháen, Karlis sem var að klára frá Lettlandi, Tattý frá Chile, María og Ioannis frá Grikklandi, Patricia frá Portúgal, Johanna frá Åland (Finnlandi), Sören frá Danmörku, og svo einhverjir Svíar :o) Reyndar verður að segjast að Portúgalinn, Grikkirnir og Chilebúinn eru eiginlega alin upp í Svíþjóð, Daninn kominn á eftirlaun þó hann sé hérna næstum því á hverjum degi, Finnland telst ekki til útlanda og Lettinn er eiginlega farinn :o)

fimmtudagur, nóvember 28

Öppdeit fyrir vikuna
Saumó á mánudaginn var mjög skemmtilegur, átti reyndar ekki stóla handa öllum en það bjargaðist, er að reyna að koma upp svona trendi að halda standandi kokteil í staðin fyrir saumó. jam ég komst ekki í kórinn....festist í vinnunni og kl 18 leit ég á klukkuna og þá var hálftími síðan kórinn byrjaði hmm þannig að ég fór bara heim. En í gær fór ég á Harry Potter!!! Mér fannst hún ekkert smá góð. Fór með Önnu fyrrverandi sambýlingi en tókst ekki að draga Georg með. Í kvöld er svo GCT partý, er svona alveg á mörkunum að nenna, sérstaklega þar sem ég næstum því svaf yfir mig, eiginlega svaf yfir mig en mætti bara hálftíma seinna í vinnuna en ég ætlaði, það var reyndar ekkert vesen þar sem það skiptir engu máli hvenær maður mætir svo lengi sem maður bara vinnur vinnuna sína.

mánudagur, nóvember 25

Helgin var nú fín....
Á föstudaginn var bjórkvöld/jólaglögg eftir vinnu þar sem boðið var upp á þýskt jólaglögg sem hét eitthvað voða sniðugt. Á eftir hitti ég Georg, Ron, Auði og Emelíu á kínverskum stað niðri í bæ þar sem var fengið sér að borða. Hinir krakkarnir voru búnir að spila pool í nokkra tíma en ég kom bara eftir á. Laugardagurinn var svo bara rólegur, gerði ekki neitt nema við leigðum spólu, Blade II, skít sæmó. Í gær voru svo hendur látnar standa fram úr ermum þar sem haldinn verður saumaklúbbur heima hjá mér í kvöld!!! Bakaði sacher tertu og gulrótarköku, gerði túnfiskssallat og þreif. Emelía ætlar svo að baka sína margfrægu kókosbolluköku og stelpa sem heitir Bryndís ætlar að koma með heitan rétt. Síðan verður bara geðveik stemmning. Á morgun er svo Halldóra búin að plata mig í að kíkja á æfingu hjá íslenskum kór, sem betur fer er söngkunnátta ekki skilyrði þannig að ég get ófeimin mætt. Á miðvikudaginn ætla ég svo að fara með Önnu fyrrverandi sambýlingi okkar á Harrý Potter!!! Spurning hvort hægt verði að draga Georg með. Brjálað að gera! Því að á fimmtudaginn verður veisla hjá GCT (gen og cell tox) þar sem verður tjúttað eitthvað frameftir! Held ég haldi mig svo bara heima á föstudagskvöldið.

fimmtudagur, nóvember 21

Ég hélt að ég væri léleg í landafræði....
en núna sé ég að ég hef ekkert til að skammast mín, þó ég viti ekki alveg nákvæmlega hvar allar sýslurnar eru heima :o) Ókey, það er kannski fyrirgefanlegt að geta ekki bent blindandi á Íran, kannski hægt að afsaka það með því bara að vera heimskur, en þegar það kemur fram að aðeins 9 af 10 geta bent á sitt eigið land á korti!!!!!!!!!!! Kræst! 10% bandarískra ungmenna hafa ekki hugmynd um hvar í heiminum þau eru!!!! Ætli þau viti að jörðin sé hnöttótt?

Engar harðsperrur
Ég vogaði mér í bodypump síðasta þriðjudag en ákvað að taka því aðeins rólegra en síðast. Eins gott því núna er ég bara næstum því með engar harðsperrur og lífið miklu betra. Í gær í hádeginu fór ég að spila badmington við Halldóru. Ég reyndar vann ekki en málið er ekki að vinna, bara vera með.....eða eitthvað. Það var reyndar mjög gaman, maður verður að gera þetta oftar.

þriðjudagur, nóvember 19

Vikan byrjuð aftur....
Hmm.... mikið að gera.....ekkert spennó.....jú ég fór í kaffi til Emelíu og Auðar á sunnudagskvöldið og var meira að segja það heppin að fá pizzu og bjór. Ekki slæmt kaffi það.

sunnudagur, nóvember 17

Gott að hafa helgi
Það var ekkert smá gott að það kom helgi. Sjálf gerði ég ekki neitt í gær, kíkti aðeins í bæinn en náði ekki að gera helminginn sem ég ætlaði að gera, var annars bara í afslöppun hérna heima meðan Georg lærði undir próf. Hvað er annars með þennan jeppa sem er verið að leita að heima, var honum stolið eða hvað?? Annars ætla ég að fara að baka pönnsur.

fimmtudagur, nóvember 14

Haðrsperrur til jóla
Það er ekkert jólalegt lengur, það rigndi í nótt og allur snjór er farinn. Hins vegar fór ég í Body pump á þriðjudaginn í fyrsta skipti í langan tíma og ég er ekki búin að vera svo dugleg að æfa yfir höfuð undanfarið. Á þriðjudagskvöldið var ég byrjuð að fá harðsperrur og í gær var ég með þokkalega miklar harðsperrur, en ekkert miðað við hvað ég er með í dag!!! Ég meira að segja vaknaði nokkrum sinnum í nótt þegar ég var að hreifa mig vegna sársauka! Ætli ég verði ekki bara með harðsperrur til jóla.

þriðjudagur, nóvember 12

já það kom enginn snjóstormur í nótt....
hann á víst að koma seinna í dag. Hérna er enn heiðskýrt og fallegt veður en um 10 stiga frost. Ég á eftir að kaupa mér húfu þannig að ég held að ég hafi týnt eyrunum mínum á leiðinni í vinnuna í dag.

mánudagur, nóvember 11

Hmmmm....
kannski eins gott að drífa sig heim áður en snjóstormurinn kemur.....

its beginníng tú lúk alot læk krisssmassss.....
Komin smá snjódrífa hérna hjá okkur og ég fór í gær að versla nokkrar jólagjafir.....komin þokkalega í jólaskap. Kannski ágætt að nefna það að ég er ekki venjulega svona snemma í því að versla jólagjafir en það kemur nú oft fyrir að ég komist í jólaskap frekar snemma, sem er svo náttúrulega löngu liðið hjá þegar jólin koma. En það er svona þegar maður býr í útlandinu þá verður maður að senda pakkana heim eða fá í heimsókn ættingja sem geta tekið með pakka heim og þá verður maður að vera snemma í því. Síðan er spáð snjóstormi í nótt... úúúúúú ég hlakka til, sérstaklega þar sem ég þarf ekki að reiða mig á stöpular tunnelbana lestarferðir í morgunsárið......verður líklega enn jólalegra á morgun.

föstudagur, nóvember 8

Vika dauðans
Já þá er vika dauðans loksins búin, ég er búin að magngreina öll sýnin úr kúrsinum og krakkarnir fengu niðurstöðurnar í morgun ásamt skýringum á jöfnum og hvernig þau eiga að reikna út styrkinn í sýnunum. Fyrir hádegi var ég svo á fundi á ITM sem er hérna rétt hjá með Sören (gamla leiðbeinandanum mínum úr sérverkefninu) og tveim öðrum til að ræða um grein sem við erum að skrifa í sameiningu en eftir hádegi vorum ég og Britta að taka til á labbinu eftir kúrsinn. Þetta er búin að vera lögn vika og mér finnst engan vegin vera föstudagur. Um helgina verður svo tekið til, þýtt og verslað jólagjafir og eitthvað. Georg er annars búinn að bjóða einhverjum Stefáni heim og frúnni hans í mat á laugardaginn en það er einhver Íslendingur sem er að lesa hérna sem skiptinemi en er að taka masterinn í líffræði heima. Næsta vika verður víst ekkert rólegri býst ég við, verð samt á labbinu eins mikið og ég get en á þriðjudaginn verður síðasti dagurinn með krökkunum úr kúrsinum og þá förum við í gegnum niðurstöðurnar frá þeim og fáum til baka skýrslur þannig að ætli mánudagurinn fari ekki mikið í það að þau komi í heimsókn og fái aðstoð. Jæja, ætli ég verði svo mikið á labbinu svona ef ég fer að velta hlutunum svo mikið fyrir mér.

miðvikudagur, nóvember 6

Verklegt
Já það lifðu allir af seinni hlutann af verklegu í gær, annars gekk tíminn ótrúlega vel miðað við byrjunarvandræðin daginn áður en það komu upp smá hnökrar hér og þar og nokkrir voru reyndar okkur að kenna, ég hef aldrei kennt þetta labb áður og stelpan sem kenndi með mér hefur kennt þetta einu sinni áður fyrir nokkrum árum þannig að við vorum búnar að treysta á leiðbeiningar frá öðrum sem hafa séð um þetta labb. En þetta kennir okkur að treysta engum!! Fengum þær leiðbeiningar að úrhluta visst magn af selsspiki og þegar átti að fara að hreinsa sýnið með því að eyðileggja spikið með brennisteinssýru þá var svo mikið spik að magn leysis og sýru voru ekki nægilega mikið og við fengum ekkert tveggjafasa system, varð bara ein ógeðsleg tjara sem sat pikk föst í tilraunarglasinu. Ef maður hugsar eftir á þá hefði maður getað sagt sér að við vorum með óþarflega mikið magn af spiki en það er auðvelt að vera vitur eftirá :o) Í dag er ég búin að vera að magngreina prófin, reyndar ekki hálfnuð því að gasgreinirinn er að stríða okkur og við verðum að keyra allt handvirkt (geggjað stup) en flest sýnin líta mjög vel út!! Sum eru reyndar þannig að blank sýnið er með meiri styrk en mikið menguð sýni (grunsamlegt) en svona verður það þegar fólk ruglar saman tilraunarglösunum og blandar sýnunum í blankinn og öfugt. Gaman að því bara. Annars voru þau mjög dugleg í heildina litið og það var í raun mjög gaman að kenna. Samt ágætt að þetta sé næstum því búið, því þetta tekur mjög mikin tíma og orku. Á föstudaginn fá þau svo niðurstöðurnar og hafa til þriðjudags að gera skýrslu og þá kynnum við mismunandi niðurstöður, svo er það bara að fara yfir skýrslur!

mánudagur, nóvember 4

Helgin og vikan.
Já helgin var mjög fín. Við Georg, Auður og Emelía lögðum land undir fót og drifum okkur til Uppsala snemma á laugardagsmorgni til að hitta Snævar, Sigrúnu, Örnu og Karvel sem þar búa. Það var mjög skemmtilegt en ég eiginlega nenni ekki alveg núna að skrifa alla ferðasöguna en hana má lesa hjá Auði og Emelíu :o) Ég veit að ég er ógeðslega löt en ég var að enda við að kenna verklegt núna sem gekk bæði upp og niður, með fullri virðingu fyrir blessuðum nemendunum þá voru þau mjög dugleg en misvön við að labba. Þeim tókst að setja vitlausan leysi í vitlaus tilraunarglös og ýmislegt en það eru náttúrulega bara hlutir sem gerast í hvert skipti. Það má líka segja þeim til varnar að það voru þó nokkrir sem höfðu varla neitt labbað með efnafræði eða það var langt síðan sem þeir stóðu á labbi, enda er þetta grunnkúrs. Vorum reyndar bara til fimm með seinustu nemendurna og ég var svo sem búin að undirbúa mig andlega undir það að vera til hálf sjö þannig að það er alltaf kostur. Keyrðum reyndar tvær ólíkar tilraunir og nemendunum var skipt í tvo hópa og ég reyndar var með hópinn sem var með tilraunina sem var meira streigt forvard þannig að þeir voru búnir fyrr en þá fór ég yfir og hjálpaði stelpunni sem ég var að kenna með með hinn hópinn. En þetta gekk allt vel þannig lagað. Meiri hætta á morgun því þá þurfa þau að hreinsa sýnin sín m.a. með brennisteins sýru og þá er víst fastur liður eins og venjulega að einhver setur sýruna of hratt í og sýnið gýs upp úr, brjáluð stemmning. En núna er ég allavega alveg búin, bæði andlega og líkamlega þannig að ég nenni eiginlega ekki að fara að æfa og ætla bara að drífa mig heim, leggjast í heitt bað og ná verklegu lyktinni úr mér. Lykta nefnilega svolítið eins og selsspik en það var meðal þess sem krakkarnir áttu að úrhluta. Framhald á morgun ef ég lifi daginn af ;o)

föstudagur, nóvember 1

Samviskulaus
Í dag gat ég með góðri samvisku farið heim á hádegi því að Svíar eru frekar harðir á því að maður fái nú örugglega alla rauða daga í almanakinu, og ef rauðir dagar lenda á laugardegi eins og á morgun þá er föstudagurinn á undan hálfur dagur. Ennþá sniðugara finnst mér þegar rauði dagurinn lendir á fimmtudegi því þá komast þeir náttúrulega í helgarfíling á fimmtudeginum og þá tekur því nú eiginlega ekki að mæta í vinnu fyrir einn dag (föstudaginn) þannig að þá er í raun bara frí á föstudeginum líka. Ótrúlega sniðugt. Ég veit reyndar ekki hvað gerist þegar rauði dagurinn kemur upp á sunnudegi, á eftir að finna það út.

verklegt
Ég á víst að kenna verklegt í næstu viku, mánudag og þriðjudag þannig að þessa daga sem ég hef verið hér í þessari viku hafa farið í það að undirbúa labbið. Þetta verður örugglega geggjað stuð. Hins vegar er haldið miklu meira í hendina á nemendum hérna en heima, gengið í byrjun í gegnum það sem þeir eiga að gera í tímanum og svo eftir tilraunina er farið í gegnum allar jöfnur og hvernig þeir eiga að reikna út úr niðurstöðunum og bla bla bla.... Annars breyttist ég í gervi-Harald núna áðan (fyrir þá sem ekki vita þá er Haraldur tækjavörður og glermeistari efnafræðiskorar HÍ) en ég fékk nokkra metra af glerstöfum áðan sem ég þurfti að skera niður og bræða endana á. Svo sem ekki mikið mál en maður varð nú eiginlega að setja upp Haraldssvipinn svona bara í tilefni aðstæðna. Á morgun förum við svo til Uppsala með Auði og Emelíu og ætlum að heimsækja Snævar, Sigrúnu og Örnu sem búa þar en þau voru öll í lífefnafræði á svipuðum tíma sem ég var í efnafræði.