fimmtudagur, janúar 27

Blogger eitthvað búinn að vera stífur þannig að ég hef ekki nennt að eiga við hann. Annars bara lítið að frétta héðan. Þórhallur kemur í dag í þriggja daga heimsókn og fer á laugardaginn. Þetta er víst mest vinna en ég vona að við getum gert eitthvað skemmtilegt, fengið okkur eitthvað gott að borða og eitthvað svoleiðis meðan hann er hérna. Takk fyrir allar kveðjurnar á kommentinu í færslunni fyrir neðan :o)

mánudagur, janúar 24


Fórum í dag í skoðun til að sjá krílið. Hérna er mynd af því alla vega. Ekki frá því að það líkist mér ;) Annars var mér seinkað um 4 daga og er því sett 27. júní Posted by Hello

mánudagur, janúar 17

Úff loksins komin ný vika, en síðasta vika var gjörsamlega vika helvítis, en það var allt að gerast þá og mikið stress í gangi. Litli neminn minn er að klára þannig að ég þurfti að lesa yfir verkefnið hennar, hún átti síðan að vera með fyrirlestur sem ég las yfir og aðstoðaði og hjálpaði að undirbúa, síðan var Kaj herbergisfélaginn minn að verja ritgerðina sína á föstudaginn og lennti undirbúningurinn mikið á mér. Ég og ein í viðbót skrifuðum sænskan texta við lag sem var sungið og bjuggum til myndasjóv með því, síðan þurfti að versla í snittur og gera snittur og fullt fullt í viðbót. Merkilegt, síðan þegar við vorum að reyna að klambra saman textanum og vorum alveg orðnar þurrausnar af hugmyndum þá ákváðum við að trufla aðra og athuga hvort einhver gæti ekki hjálpað okkur og þá fengum við alltaf svarið: "nei guð, ég get ekki hjálpað, ég er svo léleg/ur í að semja texta!" Nei af því að við erum náttúrulega sérfræðingar í því og þar fyrir utan er ég ekki einu sinni með sænskuna sem móðurmál! Hálfvitar!

Á laugardaginn skruppum við hjónin aðeins í bæinn í smá leiðangur, sérstaklega þar sem eitthvað eru fötin mín að hlaupa óvenjuhratt í þvotti akkúrat núna :) en ég fann mér eina síða peysu sem nær yfir magann og síðan ákvað ég nú að maður yrði nú að fá sér smekkbuxur ;o) þannig að það var splæst í einar svoleiðis. Síðan þarf ég reyndar að fara aftur, langar í einhverjar buxur til viðbótar og síðan fleiri boli og peysur.

Kaj var síðan með veisluna sína á laugardagskvöldinu og okkur hjónunum var báðum boðið. Veislan var fín með góðum skemmtiatriðum og náttúrulega frábæru lagi sem var sungið af vinnufélögunum með myndasjóv undir. Ég var í fína þrönga jólakjólnum mínum þannig að maginn gat aðeins verið út í loftið. Annars held ég að þessi bumba sé eitthvað feimin. Er eitthvað lítið að láta sjá sig.

Hvað er þetta annars með símasnúrur?!?! Af hverju snýst alltaf upp á þær þannig að þær enda í einum hnút þannig að þegar maður ætlar að rykkja upp tólinu þegar einhver hringir þá fær maður alltaf allan símann í andlitið! Ekkert smá óþægilegt. Ég hef reyndar Kaj herbergisfélaga grunaðan, held að hann sé að snúa upp á snúruna svona þegar honum leiðist. Sé hvernig þetta verður þegar hann hættir, en hann verður víst bara hérna út janúar og litli neminn líka að hætta þannig að ég verð bara ein í herberginu. Þvílíkur lúxus :o) Get haft hurðina lokaða og spurning bara um að fara að spila tónlist hátt, bara íslenska tónlist, Sálina og Greifana í bland :o) En eins og staðan er í dag þá lítur út fyrir að ég verði ein í herbergi alveg þangað til Karin, hinn herbergisfélaginn, komi úr barnseignarleifi í maí :o) Þeim hérna væri nú trúandi til að troða einhverjum öðrum litlum nema hérna inn, en ég held ekki að við verðum með neinn nema núna þessa önn. Ég bara lifi í voninni.

Jæja, maraþon færsla

þriðjudagur, janúar 11

Gaman að pæla oft. Ég hef oft lent í umræðum um að þar sem meðganga sé 40 vikur þá sé svo skrítið að tala um 9 mánuði þar sem þetta séu náttúrulega 10 mánuðir. Ég ákvað að reikna þetta nákvæmlega. Í árinu eru 365 dagar ef frá er talið hlaupaár og síðan 12 mánuðir. Meðalmánuður er því 365/12 = 30.42 dagar (en ekki 28 sem eru 4 vikur) sem eru rúmar fjórar vikur. Þessar 40 vikur sem meðgangan er reiknuð er talið frá fyrsta degi síðustu blæðinga en egglos í 28 daga tíðarhringi er að meðaltali á degi 14 þannig að af þessum 40 vikum er maður í raun "ófrískur" bara í 38 vikur! 38 vikur x 7 dagar/viku = 266 dagar þannig að meðgangan í mánuðum talið er í raun 266 dagar / 30.42 dagar/mánuði = 8.74 mánuðir! Ef maður telur allar 40 vikurnar þá eru það 9.20 mánuðir. Hér með tel ég því sannað að það sé rétt að tala um 9 mánaða meðgöngu :) eða segir maður þá ekki bara Q.E.D.

mánudagur, janúar 10

Inni á bókasafni hjá okkur hangir úr loftinu jólatré á hvolfi! Ég er mikið að velta því fyrir mér hvort þetta eigi að vera jólaskraut eða hvort þetta sé eins og anti-Kriststáknið kross á hvolfi. Þetta væri þá andjólaskraut.

föstudagur, janúar 7

Jæja þá er maður kominn heim í sæluna, komum á þriðjudaginn þannig að ég fór í vinnu á miðvikudaginn en síðan var gærdagurinn frí :) ekkert smá þægilegt og síðan vinna í dag og síðan bara aftur frí. Ég var samt alveg komin inn í frífílinginn þannig að það var hálf erfitt að byrja aftur, hefði alveg verið til í að vera í fríi lengur. En svona er þetta, það gerist víst ekkert ef maður gerir það ekki sjálfur :)