þriðjudagur, apríl 24

Jeminn hvað ég er þokkalega búin á því í dag :) Enda kannski ekki skrítið. Um daginn keypti ég svona stóran prentara fyrir vinnuna til að prenta út veggspjöld, sem kom svo í síðustu viku. Ekki ódýr! Síðan á fimmtudaginn byrjaði ég að reyna að prenta út veggspjaldið mitt sem ég er að fara með á ráðstefnu í DAG! Eníveis, til að gera MJÖG langa sögu stutta, þá virkaði að sjálsögðu ekki prentarinn :) Eftir tveggja daga panik og endalaus samtöl við HP support (Hewlet Packard prentari) sem bæ ðe vei höfðu aldrei heyrt talað um vandamálið sem við vorum að berjast við, þá hafði ég samband við aðra stofnun hér á háskólasvæðinu og grét út að fá að prenta út veggspjaldið á þeirra prentara og að sjálfsögðu borga fyrir það. Reyndar þurfti ég ekki að gráta en það hljómar betur :) Síðan sendi ég líka veggspjaldið til HP svo þeir gætu reynt að prenta það út, ef það skyldi vera villa í sjálfu skjalinu. Eníveis, helgin líður með tilheyrandi svefnleysi vegna stress og pirrings og mánudagurinn rennur upp með þvílíkum hlaupum að reyna að klára allt sem ég þarf að klára því það fór svo langur tími í að berjast við prentarann. Ég hleyp upp á hina stofnunina og prenta út veggspjaldið þar, þar er ekkert vandamál. Síðan þegar ég kem til baka í vinnuna þá hafði HP hringt til baka og gefið smá tipps sem hafði næstum því virkað. Ég og tölvukallinn hér í vinnuni setjumst saman fyrir framan tölvuna og prentaran fína, höldumst í hendur og göngum í gegnum allt skref fyrir skref og krossum í þetta sem okkur var bent á á mörgum stöðum svo að það hafi örugglega verið gert. Og haldiði ekki að bévítans prentarinn virkar bara eins og honum sé borgað fyrir það! Týpískt, ég er þar af leiðandi með tvö eintök af veggspjaldinu mínu og þarf ekki að fara í megrun þar sem ég er örugglega búin að missa 5 kg út af stressi :) Þannig að nú verð ég að viðurkenna að ég er frekar löt í dag, búin að prenta út "hand-outs" og nafnspjöld og svoleiðis og allt tilbúið. Síðan flýg ég bara á eftir til Amsterdam og verð á ráðstefnu fram á föstudag og verð í afslöppun fram á laugardag :)

Annars eru stórmerkilegar fréttir af honum Eiríki. Hann er hættur með snuðið. Gerðist bara núna um helgina alveg allt í einu. Við vorum búin að taka okkur á þannig að hann var bara með snuðið á nóttunni og þegar hann sefur á daginn, en ekkert annars. Síðan bara á fimmtudagskvöldinu þá leggjum við hann inn og hann biður ekki um snuðið þannig að við athugum bara hvort hann sofni ekki bara. Og viti menn, ekkert vandamál. Gerist aftur á föstudagskvöldinu þannig að við létum hann líka ekkert fá snuðið þegar hann svaf á daginn um helgina. Og í gær þegar hann fór á leikskólann þá tók ég burt snuðið sem var þar og fóstrurnar sögðu að hann hefði ekki einu sinni minnst á snuðið þegar hann átti að fara að sofa. Þannig að nú eru öll snuð horfin (úr augsýn alla vega). Þvílíkur draumur. Enda draumabarn. Gott að losna við snuðið áður en næsta peð kemur.

Annars hafið það bara gott, set inn kannski myndir frá Amsterdam þegar ég kem til baka :)

sunnudagur, apríl 15

Eiríkur er alltaf þvílíkur töffari. Honum finnst rosalega gaman að tónlist og að syngja og biður oft um að það sé spiluð tónlist. Það er líka svaka sport að fá lánaðan iPodinn og hlusta á Billy Idol eða eitthvað álíka :) Sérstaklega þarna þar sem hann fékk tyggjó líka. Upprennandi töffari :)

Nú er sumarið annars komið, núna um helgina var í kringum 20 stiga hiti, sól og geggjað veður. Við fórum í pikknikk með Íslendingafélaginu um helgina í Hagagarðinn. Margt var um manninn og þar var líka Hilmir félagi. Voru fagnaðarfundir þar sem það var langt síðan síðast. Annars var farið í boltaleik, mokað í sandkassa og síðan tekin sér smá pása til að borða ís.

mánudagur, apríl 9

Gleðilega páska öll sömul. Maður er ekkert að standa sig í stykkinu varðandi bloggið. Það er búið að vera æðislegt páskaveður alla helgina, svolítið kallt, nema í dag, það snjóar :( Ég er bara niðri í vinnu í dag að reyna að gera póster fyrir ráðstefnu :( Hér fyrir ofan er mynd frá foreldrakaffi á leikskólanum hans Eika þar sem nokkrir foreldrar mættu eftir vinnu með kökur og sátu úti í góða veðrinu og spjölluðu og slöppuðu af. Það var rosalega gaman, gaman að hitta hina foreldrana. Vonandi verður þetta gert aftur.
Annars klikkuðu aðeins páskaplönin okkar, Björg og Helgi sem ætluðu að koma frestuðu komunni um þrjár vikur. Við vorum því bara í rólegheitunum heima, fórum í heimsóknir og borðuðum dýrindis önd (veit það er ekki lamb) í páskamatinn. Við fórum líka í heimsókn til Lísu (myndin hérna að ofan) sem er með Eika á leikskólanum og fengum kaffi og kökur. En Eiríkur er voða skotinn í Lísu, eltir hana út um allt þegar þau hittast úti á róló en samt rífast þau um allt dótið :) Enda köllum við hana kærustuna hans Eika :)