þriðjudagur, júlí 24

Um helgina vorum við aftur með afmælisveislu fyrir Eirík, en hann varð tveggja ára þann 28. júní en þá vorum við á Íslandi og við héldum eina veislu þar. Hins vegar höfum við ekki komið okkur í það fyrr að halda veislu hérna úti vegna anna, en betra er seint en aldrei. Setti inn þær fáu myndir sem voru teknar af herlegheitunum á síðuna hjá "afmælisbarninu". En það var mjög gaman, reyndar komust engir Svíar þannig að þetta var bara Íslendingapartý, svo sem ekkert verra ;) Þannig að við gerðum svo sem ekkert annað en að taka til og baka fyrir afmælið og síðan halda uppá.

Í dag er svo sem líka merkisdagur þar sem undirrituð á líka afmæli og hefur þá verið heil 29 ár hér á jörð. Gerði mér svo sem ekki mikinn dagamun, plataði tvær úr vinnunni niður í bæ í hádeginu þar sem við fengum okkur djúsí hamborgara. Hildur sys spurði mig áðan hvort ég ætlaði ekki eitthvað niður í bæ eða út í kvöld til að halda upp á herlegheitin. Ég þakkaði nú bara pent fyrir mig, fólk á svona gamals aldri heldur sem minnst upp á afmælin ;) hahaha nei segi svona. Er bara ekki alveg í ástandi fyrir eitthvað útistand. Enda síðasta vikan mín í vinnunni í dag, svo er ég formlega komin í fæðingarorlof :) Ætli ég stingi nú ekki inn nefinu aðeins inn í vinnuna í næstu viku og eitthvað áfram þar til krílið lætur sjá sig. Eiríkur kom alveg á settum degi, þannig að ég miða bara við það :) Ég er þó ekki eins slæm og ein sem ég var að frétta af sem er búin að skipurleggja licenciat vörnina (nokkurskonar master) tveim vikum fyrir settan dag. Þarf kannski ekki að taka það fram að þetta er hennar fyrsta barn, sem útskýrir bjartsýnina ;) En það var svo sem búið að segja henni að barnið kæmi þennan dag og engin ástæða að gera ráð fyrir neinu öðru, hún líka búin að taka daginn frá í almanakinu. En alla vega, sí jú leiter, alígeiter

kv
Hrönn

föstudagur, júlí 20

Jæja, vorum í bústað alla síðustu viku með Beggu, Ingó og Hilmi og Elísu rétt hjá Eskilstuna, sem er ca klukkutíma akstur frá Stokkhólmi. Það var alveg meiriháttar. Strákarnir skemmtu sér daginn út og inn við að prakkarast og Elísa var rosalega dugleg að hafa stjórn á þeim, þannig að fullorðna fólkið gat í raun slappað ágætlega af. Veðrið var alveg ágætt, fengum nokkra góða sólardaga en tvo rigningardaga. Við gerðum ýmislegt skemmtilegt eins og að fara í jarðaberjatýnslu, Parken Zoo þar sem þessi mynd var tekin og margt annað. Bústaðurinn, sem var reyndar gamalt einbýlishús, var meiriháttar, nóg pláss og stór garður. Ég setti alla vega allar (slatta) af myndum inn á síðuna hans Eiríks þar sem þið getið skoðað.

síja

laugardagur, júlí 7

Voðalega líður langur tími alltaf milli blogga hér :) Við vorum alla vega að koma til baka til Svíþjóðar eftir að hafa verið á klakanum í mánuð. Það var rosalega gott. Gaman að hitta fólk og Eiríkur naut þess í tætlur að vera (meira) miðpunktur alheimsins og fá allra athygli. Er búin að setja inn tvö ný myndaalbúm á síðuna hjá guttanum þannig að þið getið skoðað þar. Alla vega, á morgun stingum við af í bústað í viku þannig að ég læt kannski heyra í mér eftir það.

Síjúleiter