þriðjudagur, september 30

Minn er ekkert smá þreyttur í dag. Kom ekkert sérstaklega seint heim í gær en var búin að vera að intensíft svolítið lengi við að gera smá sniðugt sem ég segi ykkur kannski frá seinna :) Síðan er árlega kuldaskeiðið hafið í íbúiðnni okkar en það gerist á hverju ári að hitinn er ekki settur á fyrr en 1. október held ég (vona ég) en yfirleitt er hitinn farinn að nálgast frostmark úti löngu áður, sem veldur því náttúrulega að það verður skít kalt inni líka, það er varla að maður nái að hlaupa á klóið í náttfötunum án þess að kapp klæða sig almennilega.

mánudagur, september 29

Svona hálf skondið hvað þessi maður er ótrúlega geðveikur en samt hálf skerí. Vona virkilega að hann komist aldrei til valda.

fimmtudagur, september 25

Haldiði ekki að ég hafi fengið sýkingu í augað! Ekkert smá pirrandi. Búið að klæja í vinstra augað síðan á sunnudaginn en vaknaði í gær með eldrautt auga sem klæjaði ennþá meira í! Sem betur fer var heilsugæslan mín með neyðarmóttöku milli tíu og ellefu á daginn þannig að ég gat farið til að fá plástur á augað :) Þjáist svo sem ekkert svakalega en pirrandi að geta ekki verið með linsur því það er ekkert grín að spila biljard með gleraugu :( maður nær alltaf að kíkja yfir þau þegar maður miðar. Annars hef ég ekkert mikið að segja en þið megið alveg vorkenna mér samt :)

þriðjudagur, september 23

Búið að vera nóg að gera hjá mér í dag og síðustu daga. Auður frænka kom í heimsókn á sunnudagskvöldið þar sem hún millilenti hérna á leiðinni frá Eistlandi heim til Íslands og gisti bara eina nótt. Við fórum þá út að borða á sunnudagskvöldinu á mjög góðan stað við Stortorget og síðan fylgdi ég henni bara út á Central á mánudeginum. Það var mjög gott að fá hana í heimsókn, bara leiðinlegt að hún gat ekki verið lengur.

Eftir hádegi á mánudeginum vorum við öll í vinnunni send á fund þar sem við áttum að sitja saman í litlum hópum og ræða saman málin um það hvernig málum væri háttað hérna í vinnunni, hvað væri gott og hvað mætti betur fara og hvernig væri hægt að bæta málin, það var starfsmannaskrifstofan sem hélt utan um allt þetta. Alveg ótrúlega sænskt. Vorum reyndar öll frekar þunglynd á því að þurfa að fara á þetta, var eiginlega búið að segja okkur að það væri skildumæting en eftirá þá er eiginlega ekki hægt að segja að þessi tími hafi verið til einskis. Vona bara að þeir haldi eitthvað áfram með þetta því annars var tíminn eiginlega til einskis. Hitti síðan stelpurnar á poolstaðnum við Mariatorgið þar sem við æfðum okkur smá, ég var reyndar búin að vera svolítið lengi þegar þær komu þar sem ég var búin snemma á fundinum :)

Síðan átti tengdamamma afmæli í gær! Til hamingju með afmælið!! Ég settist bara ekkert fyrir framan tölvuna í gær þannig að afmæliskveðjan kemur deginum of seint ;)

Annars er búið að vera nóg að gera í vinnunni í dag, erum að reyna að finna út góða leið til að hreinsa sýnin okkar betur, viss hluti þeirra sem eru of skítug :þ erum búin að ræða okkur í marga hringi og reikna okkur í enn fleiri :) brjálað stuð

föstudagur, september 19

Úúúúú ef maður skrifar orðið biljard í google.com og leitar bara í íslenskum síðum þá af 21 linkum sem koma upp þá eru tveir á síðuna mína ;o) Annars fékk ég skemmtilega þraut senda með ímeil í dag:

Proof that the same side of our brain cannot do 2 different things at once...
While sitting at your desk make clockwise circles with your right foot.
While doing this, draw the number "6" in the air with your right hand.
Your foot will change direction.

hehe ég alla vega klikkaði á þessu

fimmtudagur, september 18

Er að sofna.......... kræst, held það verði bara farið heim eftir, kannski leigt spóla eða eitthvað svoleiðis. Nenni ekki einu sinni að fara að æfa eða neitt svoleiðis. Maður má vera latur stundum. Reyndar bíður smá haugur af óhreinu leirtaui heima síðan ég eldaði þennan fína indverska rétt um daginn (sem er bæ þe vei búinn að endast mér í þrjár máltíðir :) ) þannig að ætli maður byrji ekki á því að ráðast á uppvaskið.

miðvikudagur, september 17

Úff, komst að því í gær að það er ekkert sérlega sniðugt að spila biljard þegar maður er búinn að taka massa æfingu fyrir biceps og triceps! Kjuðinn virkaði eitthvað furðulega þungur :) Annars er ég með harðsperrur í dag, alltaf jafn gaman, sérstaklega þar sem maður veit að þær verða tvisvar sinnum verri á morgun ;) Það er allt í lagi, fer bara aftur að æfa á eftir og þá verð ég líka komin með harðsperrur í restina af kroppinum til að verða eins, þá er komið jafnvægi.

Annars skín sólin úti og það er frekar hlýtt, upp undir 20 gráðurnar, það er samt orðið skít kalt á morgnana, þannig að maður fer yfirleitt kapp klæddur í vinnuna og er síðan að stikna allan daginn. Ég er reyndar búin að læra á kerfið, fer bara í nógu margar peysur sem maður klæðir síðan af sér eina af annarri eftir því sem það verður hlýrra þegar líður á daginn. Hehehe maður er nú ekki alveg eins vitlaus og maður lítur út fyrir að vera, sem er kannski líka alveg eins gott, annars væri ég líklega í slæmum málum. Held að það sé yfirleitt betra að vera klárari en maður lítur út fyrir að vera en að vera heimskari en maður lítur út fyrir að vera, því þá getur maður alltaf komið fólki á óvart, sama hversu vitlaus eða klár maður virðist vera :) Maður ætti kannski að reyna að stíla meira inn á ljósku lúkkið.

þriðjudagur, september 16

Er búin að vera að reyna að skipurleggja hvernig ég ætla að haga næstu þrem árum hérna í vinnunni, frekar þungt :) Er samt fínt með Greifana í eyrunum (er nefnilega komin með svo fína tölvu jeiiiii), samt hálf vandræðalegt að þegar maður er að syngja með frystikistulaginu að þá fara herbergisfélagarnir að gera grín að manni ;) meira að segja þó maður syngi í hljóði.

Annars var helgin róleg, fórum á laugardagskvöldinu til Emelíu og Auðar í grill þar sem þær voru líka með gesti að heiman, þau fóru reyndar í bæinn síðan um nóttina en við Georg ákváðum bara að trítla okkur heim á leið. Sáum reyndar engar leðurblökur á leiðinni í þetta skiptið. Hvernig er það, fara leðurblökur í dvala á veturna? Geri ekki ráð fyrir því að þær séu far(fugla)mýs?!?

mánudagur, september 15

Auður Magnúsdóttir ofurgella og biljardsnillingur og sambúi minn hérna í sósíaldýrðinni á afmæli í dag, orðin 26 ára! Til hamingju skvís!

fimmtudagur, september 11

Þetta er þokkalega búin að vera þreytt vika! Var að kenna verklegt á mánudaginn og síðan átti ekki að vera verklegt fyrr en í dag en á þriðjudaginn var þá var bankað hjá okkur og stóðu ekki bara nemendurnir okkar fyrir utan og heimtuðu að komast í verklegt! Það hafði semsagt verið gerð breyting á skipulaginu og gleymst að láta okkur vita!! Við Kaj fengum þvílíkt panik, ég var ekki einu sinni búin að borða hádegismat eða neitt! En meðan Kaj fór mjög rólega í gegnum æfinguna þá hljóp ég á milli, fékk mér að borða, reddaði sýnum og fixaði leysa. Kræst. En þetta gekk allt vel að lokum og reyndar ágætt að vera búin með þetta. Síðan þar sem krakkarnir voru frekar langt fram á kvöldið og allir dauðþreyttir þá ætlaði ég aðeins að sofa út á miðvikudaginn, en á leiðinni út úr vinnunni þá náði prófessorinn minn í hnakkadrambið á mér og spurði hvort ég gæti ekki komið á fund kl 8 morguninn eftir :o) þannig að ég ákvað bara að sofa aðeins út í morgun í staðin :o)

Annars alveg hrikalegt að heyra þetta með utanríkismálaráðherra Svía, Önnu Lindh. Einn best liðni stjórnmálamaðurinn hérna í Svíþjóð. Sjálf hef ég stundum mætt henni einmitt í NK þar sem hún var stungin og ofsalega hugguleg kona. Það eru allir slegnir hérna og erum búin að vera að fylgjast með fjölmiðlafundum frá þinginu. Ferlegt alveg hreint.

Einn ljós punktur á deginum var samt að ég var að tengja nýju gömlu tölvuna sem ég var að fá :) Tveggja gígabæta diskurinn minn sem var u.þ.b. 99.9% fullur er orðinn að 20 Gb diski, allt orðið miklu hraðvirkara og komin með Win 2000 í stað 98 :) Eintóm hamingja. Nýja tölvan er meira að segja svo hraðvirk að ég get hlustað samtímis á geisladiska í henni og unnið á henni, sem var ekki hægt í gömlu tölvunni :) En núna ætla ég að fara að koma mér í biljard í smá stund

síjú leiter alígeiter

mánudagur, september 8

Vísindanörd
Föstudagurinn var frekar þreyttur, var að kenna verklegt eftir hádegi og var ekki búin fyrr en um sex leitið, fór bara heim og við pöntuðum pizzu og ákvað síðan að sofna í sófanum yfir einhverri dellunni. Alveg ótrúlegt hvað það er miklu betra að sofna fyrir framan sjónvarpið en í rúminu sínu :) Samt alveg frábær dagur, sérstaklega þar sem ég fékk nafnið mitt á fyrstu vísindagreinina mína!! Engin smá gella! en fyrir þá sem hafa áhuga þá heitir hún A Quantitative Lipid Extraction Method for Residue Analysis of Fish Involving Nonhalogenated Solvents eftir S.Jensen et al. :) og kom út í tímaritinu Journal of Agricultural and Food Chemistry. One down, three to go!

Við Georg kíktum síðan í bæinn á laugardeginum í blíðskapar veðri, um 20°C sem er alveg fullkomið hitastig hérna í Svíþjóð, aðeins svöl golan, bara rétt til að kæla manni. Hittum síðan Emelíu og Auði í bænum og við stelpurnar fórum á Max sem er hamborgarastaður og er úti í rassgati, í Solna! Kræst, það var bara búið að segja okkur að þessir hamborgarar væru það sem kæmist næst Stælnum hérna í Svíþjóð. Mér finnst nú heldur djúpt í árina tekið að líkja þeim saman við Stælinn en þeir voru nú samt mjög góðir, samt ekki frí áfylling af gosi :( líka svolítið langt að fara. Fórum síðan aðeins í pool þar sem Georg kom og hitti okkur aftur ásamt Ron þar sem tekið var smá 8-ball mót, ha mér tókst að vinna alla nema Auði! ekkert smá klár.

Sunnudagurinn fór bara í afslöppun og tiltekt en grilluðum síðan úti með Róbert og Gabríellu í góða veðrinu. Síðan er víst aftur verklegt eftir hádegi þannig að ætli það sé ekki best að fara og fá sér eitthvað í svanginn svo maður geti verið hress og kátur í allan dag :)

fimmtudagur, september 4

Í dag og í gær er ég búin að vera að undirbúa verklegt sem ég verð með á föstudaginn og í næstu viku, kaupa leysa og blanda lausnir. Þægilegt við kerfið hérna að í þessum kúrsum sem við erum með (alla vega þeim sem ég kenni) þá er ekki svo svakalega mikið verklegt. Í þessum kúrsi sem er núna þá eru tvær æfingar og þrír hópar sem gera báðar æfingarnar þannig að maður tekur bara smá törn og síðan er maður búinn að kenna verklegt, ekki eins og heima þar sem maður er að vasast í þessu alla önnina. Þarf reyndar líka að kenna smá verklegt í öðrum kúrsi sem er í nóvember eða eitthvað svoleiðis en það er seinni tíma vandamál. Síðan er það bara að taka lokaslurkinn í því að taka til eftir ferðalagið okkar, reyndar búin að taka upp úr töskunni sem ég gerði daginn eftir að ég kom heim, varla seinna vænna þar sem Georg fer með skólanum út úr bænum á mánudaginn og verður alla vikuna (lesist brjálað partý alla vikuna hehe nei djók). Ætli ég fari ekki bara snemma að sofa alla næstu viku þar sem maður verður frekar þreyttur eftir kennsluna.

miðvikudagur, september 3

Er ennþá frekar sjúskuð eftir ferðalagið, kannski vegna þess að ég náði engan vegin að sofna í gærkvöldi, líklega stressuð yfir því að geta ekki sofnað og verða þreytt í dag :) Er svona hægt og rólega að starta heilanum eftir langt sumarfrí, var að tala við eina í vinnunni í gær sem er nokkurnvegin með mér í verkefni sem var mikið að spyrja mig út úr hvað ég væri búin að gera í verkefninu og hvernig hefði gengið og niðurstöður og annað en held að það eina sem ég gat komið með var "hmmmm", "ja....", "man það nú ekki", "ég skal tékka á því" og eitthvað svoleiðis :)

Íslandsdvölin var hins vegar alveg mergjuð! Fór á djammið, hitti vinina, fjöldskylduna og fór tvisvar á hestbak, matarboð með efnafræðiliðinu þar sem var á borðstólnum hrefna og nautafile, geggjað gott, fleiri matarboð, m.a. uppi í Hafnarfirði þar sem var glæsilegt læri á borðstólum. Síðan komu þrjár sænskar úr vinnunni síðustu helgi og ég var eitthvað að gæda með þær, fórum á Gullfoss, Geysi og á Þingvelli og síðan á hestbak í Laxnesi í Mosfellsdal. Tíminn leið bara svo hratt að hálfa væri nóg, hefði alveg getað hugsað mér að vera alla vega einn mánuð til viðbótar! Reyndar ágætt að komast í hversdagsleikann aftur en hinu mátti alveg venjast :)

þriðjudagur, september 2

Jæja þá er maður kominn aftur í sósíalsæluna. Ferðin var reyndar löng og leiðinleg þar sem ég millilenti í London á leiðinni. Var ekki komin heim fyrr en um hálf þrjúleitið í nótt og ákvað því aðeins að hvíla mig og mætti eftir hádegi í vinnuna í dag :) Það var ósköp gott að sofa út, held ég fari bara líka snemma í háttinn í kvöld. Hérna er u.þ.b. 10 stiga hiti eða eitthvað svoleiðis, voðalega notarlegt í raun og veru, sól og fínt veður. Segi ykkur annars meira hvað ég hef verið að gera heima seinna, ætla að reyna að koma einhverju í verk í dag.