þriðjudagur, febrúar 22

Já nú er ég orðin ein í kotinu aftur. Georg skellti sér óvænt til Köben í morgun, pantaði miða í gær og hringdi í Hildi og Þórhall og heimtaði gistingu :) En hann verður víst í Köben í dag og fer yfir til Lundar á morgun og vonandi kemur hann heim annað kvöld. En hann er víst að fara að velja úr einhverja fiska í söfnum þar til að fá send hingað heim svo hann geti skoðað. Sjálfsagt mikið stuð.

Helgin var annars ljómandi blanda af afslöppun og dægrastyttingum. Á sunnudaginn fórum við Auður og Emelía á Salongen og tókum þátt í amatörkeppni í biljard. Við komumst allar áfram úr fyrsta útslætti (grúppukeppninni) en við Emelía komumst ekki lengra. Auður hetja hins vegar komst alla leið í undanúrslit og náði að vinna alla stóru hrikalegu strákana sem voru þarna :) Nei segi svona, þeir virkuðu nú svolítið skerí þegar við komum fyrst en síðan voru þetta allt yndælis grey þegar maður byrjaði að tala við þá.

Í gær var síðan fyrsti stjórnarfundur TRIQ, biljardklúbbsins okkar, þar sem ég verð víst ritari og Auður gjaldkeri :) Þau hin vita ekki hvað þau eru að kalla yfir sig, ólæsileg prótókoll þar sem ritarinn er ófær um að skrifa sænsku og bókhald í klessu þar sem gjaldkerinn er "lyckligt ovetande" [ísl: hamingjusamlega óvitandi], eins og maður segir á Sælumáli, um allar þær reglur og venjur sem hafðar eru í sænsku bókhaldi. Verður áhugavert. Þetta er bara svo dæmigerður munur á Svíum og Íslendingum, Svíar geta ekki en Íslendingar gera bara, vonast síðan eftir bestu útkomu, því það voru fleiri í stjórninni sem voru betur hæfir en undirritaður og landi hennar, t.d. full talandi og skrifandi á tungumálinu, en þeir bara kunnu ekki og gátu ekki og allt var eitthvað svo "jobbigt" [ísl: erfitt, mikil mæða]. Ætli það séu samt ekki aðeins aðrar áherslur í þessu félagi en forðum daga þegar ég var formaður Hvarfs. Það voru nú skemmtilegir dagar þar sem aðal áhyggjuefni stjórnarinnar (T-listinn) var í raun að plana djamm næstu helgar ;) eða svona hér um bil. Er enn á því að engin stjórn hvorki fyrr né síðar geti slegið óvissuferðina sem við (aðalega Soffía) sáum um. Fólk vissi ekki einu sinni hvar það hefði verið þegar það kom til baka ;) Ahhhh gamlar minningar, svona þær sem ekki týndust í ölæðinu :)

mánudagur, febrúar 21

Hrein snilld! Það er hægt að fá splunku nýja Lödu hérna í Svíþjóð :) Ný Lada Sport bara á rétt um miljón.

fimmtudagur, febrúar 17

Ég vildi bara óska Örnu og Karveli Uppsalabúum til hamingju með nýjasta fjölskyldumeðliminn sem lét óvænt sjá sig í gær, Arnar Smári Karvelson, eins og stúfurinn á að heita.

mánudagur, febrúar 14

Hér ræður Vetur konungur ríkjum en í gær byrjaði að snjóa þvílíkt og hefur haldið áfram í dag þannig að núna er líklega um 30 cm jafnfallinn snjór hérna, ekkert smá fínt. Hins vegar gerir það að verkum að öll Suður-Svíþjóð er aftur rafmagnslaus. Þeir voru rétt búnir að jafna sig og fá rafmagnið eftir að "fellibylurinn" Guðrún þeystist yfir landið þannig að skógurinn fauk um koll og allar rafmagnslínur slitnuðu en þeim er nær að vera með allar rafmagnslínur enn ofanjarðar. Virðist koma þeim á óvart á hverju ári að það komi vetur. Núna voru þeir reyndar farnir að tala um að það væri líklega best að grafa niður allar línur.

Annars var helgin rosalega fín. Við Georg fórum og pöntuðum okkur eitt stykki barnavagn :) Var miklu rólegri í þetta skiptið en það fyrra og völdum okkur Emmaljunga Cerox með burðarrúmi, voða fínn. Hann kemur þá 1. júní, en hér í Sæluríki er ekkert bara keypt út í búð, það er pantað og síðan kemur það 3 mánuðum seinna. Maður er heppinn að geta keypt mat út úr búð. Síðan fór ég á JoLo og þar var aðalfundur TRIQ biljardklúbbsins. Ég held áfram í strjórn og Auður verður með mér, þá er það bara að reka hina úr og gera klúbbinn al-íslenskan :) Síðan á eftir var klúbbmeistaramót þar sem Emelía sem fulltrúi Íslands vann 8-ball keppnina með glæsibrag og fékk viðurkenningarskírteini upp á það. Eftir það var borðað á staðnum og sötrað rauðvín þeir sem vildu og spjallað og haft næs. Ég reyndar var ekki partýdýrið á staðnum þannig að ég kom mér í strætó rúmlega ellefu.

Sunnudagurinn einkenndist af afslöppun og þægilegheitum en síðan plötuðum við Auði og Emelíu á La Habana, kúbanskan stað með geggjað góðum mat.

þriðjudagur, febrúar 8

Díblud í nebinu

Er heima í dag og var líka heima í gær :( Byrjaði á að fá höfuðverk á laugardaginn sem leiddist yfir í geðveikan hósta og hálsbólgu á sunnudaginn og í gær, en núna er hóstinn örlítið betri en er orðin svo svakalega tept í nefinu að hálfa væri nóg :( Er að verða búin með heila eldhúsrúllu. Ætla að kíkja í vinnuna á morgun, nenni ekki að vera einn dag enn heima, enda enginn hérna til að vorkenna mér.

Annars komu Auður og Emelía í heimsókn á laugardaginn og ég bakaði þessar fínu vatnsdeigsbollur með súkkulaði, sultu og rjóma. Ekkert smá gott. Ekkert smá stolt af mér að hafa getað þetta :) Lítið annað var gert um helgina sökum heilsuleysis.

miðvikudagur, febrúar 2

Þórhallur kíkti í heimsókn fyrir helgi en hann kom á fimmtudeginum og fór aftur á laugardeginum til baka. Það var gaman að fá kappann í heimsókn, fórum á föstudeginum og keyptum dýrindis kjöt í matinn og slógum upp veislu þar sem Þóra kom og síðan Bjössi aðeins seinna. Ógó gott. Þakka bara fyrir skemmtilega heimsókn.

Á laugardaginn þá gerðum við hjónin fyrstu athlögu að barnavagnakaupum og ó mæ god! Ef þið hafið átt í vandræðum með að kaupa hús, bíl, hljómflutningsgræjur, eða bara what ever þá held ég að það sé ekkert miðað við að kaupa barnavagn! Maður getur valið milli triljón gerða sem allar eru smá mismunandi og innan allra gerðana eru ólíkar týpur, classic, cross country, cerix og svo framvegis og framvegis. Síðan er náttúrulega foreldranojan aðeins farin að gera vart við sig þannig að maður vill náttúrulega kaupa það allra öruggasta með loftdekkjum og árekstrarpúðum svo að lilta krílið skaði sig ekki þó maður reki sig aðeins utan í einhver horn eða svo ólíklega vilji til að það hrapi hlutir af himnum ofan á vagninn. Aumingja sölumaðurinn í búðinni lennti síðan aldeilis í því þar sem ég hafði náttúrulega engann annan til að yfirheyra og flytja þessar áhyggjur yfir en ég reyndi að fá út úr honum öryggismun á Duo og Combi og hver væri munurinn á Brio og Emmaljunga og svo mætti lengi telja. Að lokum sagði hann bara "Jesús er kærleikur og þetta er allt sama dótið" og reyndi síðan að lauma sér í burtu án þess að ég sæi. Mér finnst að það ættu bara að vera lærðir sálfræðingar og prestar sem hefðu leifi til að selja barnavagna til að róa taugar óreyndra tilvonandi foreldra. Ég held við ætlum að reyna að gera tilraun tvö næstu helgi. Verður spennandi.

Á sunnudaginn þurfti ég fyrst að vinna en svo kíkti ég aðeins í bæinn og hitti stelpu sem er á bumbu msn spjallinu en hún er víst tímabundið í Västerås sem er hérna vestan við stórborgina. Við byrjuðum á því að fá okkur pizzu á Pizza Hut en síðan enntumst við einn hring um gamla bæinn svo settumst við bara inn á kaffihús og úðuðum í okkur semlur (sænskar bolludagsbollur). Var ekkert smá gaman og fékk útrás fyrir uppsafnaða ungbarna og óléttuumræðu :)

Á mánudaginn fór ég síðan til ljósunnar aftur í skoðun, en það var gert voða lítið annað en ég fékk að hlusta á hjartsláttinn :) ekkert smá krúttlegt, mældist víst 150 slög á mín sem er víst eðlilegt. Man ekki hvort þetta á að vera stelpulegt eða strákalegt en mér er eiginlega alveg sama.

Ég skal síðan aðeins róa mig í bumbutali og spinna í staðin upp sögur um fyllerí og djamm til að hafa þetta blogg eitthvað meira djúsí.