fimmtudagur, mars 31


Hér er ég ásamt Hagrid og Harry Potter gerðum úr Legó kubbum en þá félaga fundum við í Harrod's. Posted by Hello


Hér erum við á lítilli sveitarkrá að frá okkur hádegismat. Ljómandi matur þrátt fyrir orðsporið sem fer af enskum mat. Posted by Hello


Jæja, set inn nokkrar myndir frá Englandi. Þetta er kapellan (N.B. kapella!) sem er hjá skólanum hennar Yrju frænku. Þetta er víst stærsta kapella í heimi :) Posted by Hello

Ohhhh London var æðisleg, eða meira England. Fórum bara einn dag inn í sjálfa borgina þar sem við settumst á svona sight-seen rútu sem brunaði með okkur um allan bæ en röltum síðan aðeins á eftir og fórum m.a. í Harrod's :) en þar var ekkert verslað, enda hefðu kortin okkar líklega fengið taugaáfall bara við það að vera tekin upp í svona búð. Reyndar lýg ég því, við keyptum okkur kaffi :D eitthvað spes blend sem líklega al Fayed hefur sjálfur mixað og brennt. Hina dagana vorum við meira í afslöppun, tókum stutta bíltúra um landið í kring en Þór frændi býr rétt fyrir utan Gatwick. Kíktum á heimavistaskólan sem Yrja frænka er í, en hún er 14 ára, og það var eins og að koma inn í Harry Pottermynd, gömul hús og hálfgerður svona kastalafílingur. Hefði alveg viljað vera í svona skóla ;) Restin fór í afslöppun og að borða góðan mat. Fengum meira að segja að smakka haggish! sem var barasta allt í lagi, var smá svona lifrarkæfu keymur af því. Hittum líka Freyju og Bent og Ýr og Hlöðver rétt aðeins. Alveg ljómandi ferð og vona að við komumst aftur einhverntíman í heimsókn til þeirra.

mánudagur, mars 21

Ég, Auður og Emelía fórum á tónleika með Emilíönu Torrini á föstudaginn var á stað sem heitir Nalen en þetta voru nokkurskonar útgáfutónleikar fyrir nýja diskinn hennar hérna í Stokkhólmi. Mjög skemmtilegt og góð lögin hjá henni, það er alveg spurning að sjá hvort maður finni ekki bara diskinn hennar hérna í einhverri plötubúðinni. Fór síðan bara beint heim eftir tónleikana sem voru búnir kannski eitthvað um ellefu leitið, maður er eitthvað þreyttur ;) Annars var helgin með rólegasta móti, kíkti aðeins niður í bæ á laugardaginn í góðaveðrinu en svaf fram á hádegi í gær og tók síðan aðeins til. Í kvöld verður annars pakkað þar sem við hjónin erum að fara til London á morgun víííí verður gaman! Ég býst ekki við að blogga mikið fyrr en við komum heim á mánudaginn þannig að ég bið ykkur bara vel að lifa þangað til.

fimmtudagur, mars 17

Ég stóð á haus í gær :) Er nefnilega búin að vera í jóga fyrir ört vaxandi konur á miðvikudagskvöldum og var þriðji tíminn í gær og erum við aðeins byrjaðar að komast í avanseraðar æfingar og jógakennarinn var að segja okkur að ef barnið er búið að skorða sig þá er oft mikill þrýstingur niður í grindina og klofið að auðveldasta leiðin að aðeins létta á þrýstingnum og hvíla grindina er að standa á haus ;) Þetta var nú ótrúlega auðvelt (enn sem komið er) enda er ég ekkert með sérlega stóra bumbu enn, síðan var ég alltaf að standa á haus þegar ég var yngri og er ágæt í því. Hins vegar er þetta örugglega verra ef maður hefur aldrei áður staðið á haus áður. Síðan er ótrúlegt hvað maður er enn liðugur ef maður bara slappar af og einbeitir sér að líkamanum. Síðan í lok hvers tíma er afslöppun þar sem maður liggur á bakinu (eða hliðinni) með kodda undir hnjánum og kennarinn hjálpar manni að slappa af og þá sofna ég alltaf :) ekkert smá þægilegt. Mæli eindregið með þessu.

þriðjudagur, mars 15

Ohh hér er alveg yndislegt veður, glampandi sól, nokkrar mínusgráður og snjór yfir öllu. Synd að þurfa að vera inni í allan dag. Annars fór ég með vinnunni á erythreanskan stað á föstudaginn en Daniel sem er að vinna með mér er frá Erythreu. Ef þið vitið hvernig eþíópískur matur er þá er þetta svipað. Stórar pönnukökur sem maður setur mismunandi kássur og kjötrétti á og borðar með puttunum. Hrikalega var þetta gott en þetta er næstum eins og að borða steina, ekkert svona að sitja og borða í klukkutíma eða svo, maður rétt náði að klára af disknum (varla þó) og síðan varð maður að liggja eins og skata í eins og tvo tíma eftir, þetta er svo þungt í maga. Síðan fórum ég, Auður og Emelía til Evu pool kennara á laugardaginn þar sem var upphitunarpartý fyrir afmælið hennar í næsta mánuði :) Mjög skemmtilegt en ég var ekkert að standa mig og fór heim um hálf tólf leitið. Enda þýddi ekkert annað en að vakna snemma á sunnudeginum og taka til því Georg var búinn að bjóða vinnunni sinni, bara fiskhópnum samt, heim í mat. Grilluðum lax í ofninum og ég gerði vatnsdeigsbollur í eftirrétt sem rann ljúflega niður í mannskapinn, enda eru vatnsdeigsbollur ekkert smá góðar. Síðan erum við farin að telja niður dagana þangað til við kíkjum til London að hitta Þór, Jan og Yrju. Verður gaman að komast aðeins til útlanda.

laugardagur, mars 12


Pabbi kom með fínu stafrænu myndavélina sem ég keypti gegnum Amazon þegar hann kom síðustu helgin þannig að nú getur maður sko farið að skella inn myndum fyrir alvöru og ákvað að skella einni bumbumynd svona til að byrja með. Þessi var tekin síðustu helgi á 24. viku.  Posted by Hello

mánudagur, mars 7

Kominn mánudagur og hákarlahelgin mikla búin. Fór og hitti pabba á centralnum og á leiðinni heim komum við í Saluhallen og keyptum dýrindis dádýrssteik sem rann ótrúlega ljúft niður. Á föstudaginn vorum við með smá ráðstefnu hérna þar sem við kölluðum saman ýmsa sérfræðinga í hákarlamálum hvaðan af úr heiminum. Þar sem ég er meiri svona áhugamanneskja um þetta verkefni hélt ég bara stuttan inngangsfyrirlestur um norðurheimskautið sem gekk ágætlega en þetta var allan daginn og mjög áhugavert. Eftir fundinn var að sjálfsögðu boðið upp á hákarl og brennsa að íslenskum sið sem féll þátttakendum og öðrum hlustendum misvel í geð. Held reyndar að flestum hafi þótt brennsinn góður og fengu sér oftar en einu sinni og jafnvel oftar en tvisvar. Síðan um kvöldið fórum við á veitingarstað sem heitir Clas på hörnet eða Kláus á horninu og þar voru kræsingarnar sko ekki af verri endanum, kavíar (reyndar ekki Kalles kaviar) í forrétt, hreindýrslundir í aðalrétt og creme brulé (eitthvað svoleiðis) í eftirrétt. Laugardagurinn var tekinn snemma þar sem ráðstefnan hélt áfram í formi fundar þar sem rætt var um niðurstöður og hvert skildi haldið í framtíðinni og hvað þarf að gera og allt það en eftir fundinn fórum við Anna og pabbi ásamt hr. og frú Fisk (skemmtilegt nafn á manni sem er með hákarlamaníu) á Náttúrufræðisafnið og hittum Georg þar sem hann gædaði okkur um allt. Komum síðan heim til að aðeins slappa af og skipta um föt því að um kvöldið var hist í lítilli óperu á Drottninggötunni sem heitir Regina og fengum þar saman kvöldverð og óperusýningu, mjög sniðugt. Sáum Brúðkaup Figarós sem reyndar var búið að þýða yfir á sænsku sem varð til þess að maður virkilega skildi hvað þau voru að segja. Þetta var hin mesta skemmtun en ég hef aldrei farið á óperu áður en kem örugglega til með að gera það aftur. Ekki frá því að krílið hafi líka skemmt sér þar sem það var á fullu nærri allan tímann. Sunnudagurinn var líka tekinn frekar snemma þar sem pabbi fór aftur til Íslands en ég varð ekki til fleirri afreka en að fylgja honum á centralinn og koma aðeins við í búiðinni að versla. Í morgun var ekki auðvelt heldur að vakna og ég er búin að vera rosalega dugleg að "vinna" í tölvunni og ljósrita og gera svona hluti sem ekki krefjast mikillar heilavirkni. Ekki frá því að litla dýrið sé eitthvað að stela orku frá mér. En það er allt í lagi, fer bara snemma að sofa og mæti hress á morgun og tek labbið með trompi. Annars þakka ég bara pabba rosalega vel fyrir heimsóknina og alla hlutina sem hann gat töfrað upp úr töskunni sinni.

þriðjudagur, mars 1

Í gær og í dag er búið að vera blíðskaparveður, glampandi sól en svolítið kalt, enda snjór yfir öllu. Helgin var tekin með afslöppun í fimmta gír, Georg reyndar lá í einhverri pest en ég hef enga aðra afsökun en bara leti. Hættum okkur aðeins út í göngutúr á sunnudaginn í brjálaðri snjókomu en logni og röltum um skóginn og litum við á kaffihúsinu í skóginum og fengum okkur heitt súkkulaði og kökusneið. Annars fer þessi vika líklega að mestu leiti í undirbúning föstudagsins en þá verðum við með ráðstefnu hérna, The Greenland shark meating, en þar verður íslenski hákarlinn í aðalhlutverki. Verður mjög spennandi. Annars opið öllum sem vilja mæta, byrjar kl 10 í Magnéli salnum, fyrir þá sem eru/verða í Stokkhólmi. Ég á að halda almennan fyrirlestur um norður heimskauta svæðið, aðstæður og umhverfi og ég held að fyrirlesturinn sé nokkuð tilbúinn sem betur fer. Pabbi verður líka með fyrirlestur um líffræði hákarlsins en hann kemur núna á fimmtudaginn og verður hjá okkur fram á sunnudag.