miðvikudagur, september 26

Jæja, loksins tókst mér að setja inn myndir hjá krökkunum :) Reyndar mér til afsökunar þá var Georg búinn að vera með myndavélina niðri í vinnu í viku og gleymdi alltaf að taka hana með heim, þannig að ég gat ekki hlaðið niður myndunum.

Allavega þá var helgin alveg meiriháttar. Á laugardeginum komu Arna og Karvel í heimsókn með strákana. Georg og Karvel voru síðan með strákana úti að leika meðan ég, Arna og Ásdís fórum í bæinn í prjónakaffi og hittum fullt af skemmtilegum íslenskum stelpum. Eftir það fórum við aðeins niður í bæ og röltum um og fengum okkur að borða á Pizza Hut. Geggjað gott þó þjónustan hafi verið með hægasta móti. Á sunnudeginum fór ég með Eirík og Ásdísi í Humelgården þar sem Íslendingafélagið var með barnahitting. Vorum þar í glampandi sól að leika, þ.e. Eiríkur lék sér á fullu meðan Ásdís svaf í vagninum og ég spjallaði við foreldrana. En á meðan var aumingjans Georg bara heima að taka til :) Eiríkur var meira að segja svo sniðugur að hann æfði sig í að pikka upp dömur :) Hjólaði um allt á þríhjóli með tengivagn aftaní þar sem Áslaug Edda vinkona hans stóð. Fannst báðum æðislegt að rúnta svona. Greinilega tilvonandi sjarmör og rúnt-töffari :) Fórum síðan heim um tólfleitið en Eiríkur náði ekki að halda sér vakandi alla leiðina heim og sofnaði í nýja fína vagninum. Vagninn er greinilega á mörkunum að vera of lítill þar sem hann þurfti að hafa hausinn skakkan til að komast fyrir. En hann var sáttur alla vega.

P.s. ef stafsetningin eða málfræðin er eitthvað skrítin þá er ég búin að vera að skrifa á ensku í allan dag og verandi týnd í brjóstaþoku þá er erfitt að skifta yfir. Come to think of it, ég ætti kannski að láta einhvern lesa yfir enska textann minn?!

sunnudagur, september 9

Héðan er barasta allt gott að frétta, við Ásdís erum í rólegheitunum heima og erum að fara að koma okkur í að drífa okkur út á kaffihús og bæjarrölt. Í síðust viku fórum við t.d. í brunch til Lóu sem er heima með hana Hildi Tinnu 5 mánaða og þangað kom líka Ann með hann Bjarka sinn sem er 6 dögum eldri en Ásdís. Var mjög gaman að sitja og spjalla, gefa brjóst og slappa af. Síðan fórum við beint á ungbarnaeftirlitið og þar var Ásdís mæld og viktuð. Hún er alla vega orðin rúm 4,2 kg og 53 cm og þyngist og stækkar eins og henni var borgað fyrir það. Búin að þyngjast um hálft kíló á tæpum tvem vikum. Hjúkkan var svo ánægð með hana og greinilegt að maður er rólegri með annað barn þannig að hún sagði að við þyrftum ekkert að vera að mæta fyrr en eftir mánuð þegar Ásdís fer í fyrstu læknisheimsóknina.

En það er greinilegt að Ásdís er farin að þjást af SCS, eða second child syndrome. Það er enganvegin teknar eins margar myndir af henni eins og af Eika. Ég er samt að reyna að vera dugleg að taka myndir af henni þegar við erum hérna heima einar. Eiríkur er nefnilega svolítið erfiður með þetta, honum finnst rosalega gaman að láta taka myndir af sér, síðan vill hann sjálfur taka myndir af öðrum og þetta verður alltaf næstum tveggja tíma prógram að taka myndir hægri og vinstri. Þannig að myndarvélin er því miður oft bara falin þegar hann er heima eða vakandi ;) En ég skal setja inn fleiri myndir fljótlega.

Annars er allt rosalega gott að frétta af Eiríki. Hann er hress og kátur og held ég löngu búinn að gleyma að Ásdís hafi einu sinni ekki verið til. En síðan er hann orðinn rosalega duglegur að telja, kann að telja upp að fjórum og líka búinn að læra alla litina. Er voðalega stoltur þegar við sitjum inni í herbergi að kubba og síðan er hann spurður um alla litina og svarar rétt. Enda hrósað í hástert. Kann meira að segja liti eins og appelsínugulur, fjólublár, brúnn og bleikur. Honum finnst líka voðalega gaman að syngja litalagið (gulur, rauður, grænn og blár.....) og syngur það í tíma og ótíma. Merkilega, þá skilur maður meira að segja hvaða lag hann er að syngja ;)

Eníveis, eins og vera bera af smábarnaforeldrum þá eru bara birtar hér fréttir af börnunum, kúkableyjum og leikskólamálum ;) Partýfréttirnar koma seinna

ses och hörs