þriðjudagur, október 30

Nóg að gera

Já það er búið að vera allt á fullu hér á bænum, enginn tími til að blogga. Aðalfréttirnar eru náttúrulega frá dömunni á heimilinu sem velti sér í fyrsta skiptið frá maga yfir á bak á þriðjudaginn var, 10 vikna gömul. Ekkert smá dugleg. Við erum samt ekki búin að ná herlegheitunum á myndband, enda gerist þetta ekki í hvert skipti sem hún er sett á magan, oftast verður hún bara fúl og kvartar. Síðan á laugardaginn fórum við Eiríkur í heimsókn til Emelíu og Önnu Eirar að leika meðan Ásdís og Georg voru heima að slappa af. Ásdís er nefnilega orðin svo dugleg að drekka úr pela þannig að ég er farin að safna byrgðum af mjólk í frystinn. Voða þægilegt að geta skroppið aðeins frá eða verið ein með Eika. Ætlum kannski að skella okkur í sund með Lísu vinkonu hans fljótlega. Sunnudagurinn var nú hálf misheppnaður. Þá breyttist klukkan þannig að við erum komin á vetrartíma. Eiríkur ákvað samt að fara aðra leið en fjöldinn eins og svo oft áður og stillti sig inn á Moskvutíma, sem þýddi það að ég var dregin á fætur kl 4 (já fjögur um nótt!!!) til að gera graut handa eldhressum strumpi. Restin af deginum fór í það að reyna að safna upp smá svefni en seinnipartinn fórum við í stórglæsilegt pönnukökuboð hjá Beggu og Ingó. Þá gat Eiríkur líka hlaupið af sér smá orku með Hilmi félaga sínum og sofnaði örþreyttur um kvöldið. Greinilegt að dagurinn var frekar langur þar sem hann svaf síðan til hálf átta í gær :) En nú erum við alla vega komin á vetrartíma og aðeins 1 klst munur milli Svíþjóðar og Íslands. Á morgun ætlum við Eiki líka að vera aðeins ein, reyndar ekki eins skemmtilegt þar sem ég ætla með hann í bólusetningu :) En þá verður hann bólusettur gegn pneumokock (eða eitthvað svoleiðis). Er reyndar ekki búin að segja honum frá því en við ræðum þetta í kvöld. Efast um að hann verði hrifinn.

föstudagur, október 19

IgNobel heimasíðan: http://www.improbable.com/

Talandi um igNobel, þá fór ég aðeins að leita á netinu. Skilgreiningin á igNobel er víst vísindi sem fyrst fá mann til að hlægja og síðan til að hugsa. Eða rannsóknir sem ekki er hægt, og á ekki að endurtaka. Árið 2005 fóru eðlisfræðiverðlaunin til nokkurra Ástrala sem hafa látið þykka tjöru renna úr íláti frá 1929 og komist að því að það dettur 1 dropi uþb níunda hvert ár. Efnafræðiverðlaunin það ár fór til tveggja Ameríkana við háskólan í Minnesota sem gerðu tilraunir með það hvort menn syntu hraðar eða hægar í sírópi. Lækisfræðiverðlaunin fékk fyrirtæki sem framleiddi gervieistu fyrir hunda sem höfðu verið geldir og fengust í mismunandi stærðum og mýkt. Árið 2004 fengu Svíar líffræðiverðlaunin fyrir það að finna það út að síld virðist tala saman með því að prumpa og fengu þeir ekki birta greinina fyrr en 2003 þar sem rannsóknin hafði verið "hemligstämplad" (leyndarmál) í 10 ár. Þeir höfðu gert rannsóknina fyrir herinn þar sem þeir voru að rannsaka hljóð sem gerði kafbátaleit erfitt fyrir. Þá kom í ljós að þetta voru prumpandi síldartorfur. Það árið fékk Vatíkanið viðskiptarverðlaunin fyrir að hafa leigt fyrirbænir til Indlands, en þeir voru víst þeir einu sem ekki sendu fulltrúa til verðlaunarafhendingarinnar. Árið 2002 fékk enskur líffræðingur líffræðiverðlaunin fyrir rannsóknir á því hvernig strútar laðast að vinnumönnum í strútsræktargörðum á pörunartíma. Stærðfræðiverðlaunin fóru til Indlands fyrir nálgun á heildaryfirborðsflatarmáli indverska fílsins. Ótrúlegt hvað mönnum dettur í hug. Þessar upplýsingar fengust líka á DN en eflaust má finna tæmandi lista á google.

Slappur eftir flugið? Fáðu þér eina Viggu.

Las það um daginn í DN að í tilefni nóbelsverðlaunanna þá eru náttúrulega alltaf gefin igNobel, nokkurskonar antiNobel, til þeirra sem eru að stunda frekar "tilgangslaus" vísindi. Ekki það að það sé til tilgangslaus vísindi, en sumir eru kannski að skoða skondnari hluti en aðrir. T.d. sú sem fékk efnafræðiverðlaunin var að skoða leiðir til að vinna vanillu úr kúamykju. Sú sem fékk verðlaunin í bókmenntum var að rannsaka notkun á orðinu"the" og þá aðalega vandræðum sem greinirinn veldur í röðum orða í stafrófsröð. Hvort það voru líffræðiverðilaunin eða í lyfjafræði, þá var það maður sem fékk verðlaunin vegna þess að hann hafði sýnt fram á að það væri hægt að lækna flugþreytu hjá hömstrum með að gefa þeim viagra! Gott fyrir hamstra sem fljúga mikið. Kannski ekkert skrítið að þeir verði hressir þar sem þeir hugsa líklega um eitthvað allt annað en flugþreytu þegar það er búið er að dæla í þá viagra. Þá veit maður það næst þegar maður þarf að fljúga. Ætli maður geti fengið skrifað upp á þetta hjá lækni, eins og sjóveikistöflur.

miðvikudagur, október 17

Við Ásdís, eða Ástadís eins og Eiríkur kallar hana, kíktum aðeins í bæinn í gær því við þurftum að fara á ungbarnaeftirlitið í tveggja mánaðar eftirlit. Hún er orðin heil 5140 grömm og 56.5 cm löng, s.s. bara stór og fín stelpa. Meira að segja aðeins yfir meðaltalinu. Reyndar var bróðir hennar rúmum 1300 gr þyngir á sama aldri og 1.5 cm lengri, en hann var soddan klumpur. Við hittum líka lækni sem kíkti á hana og hlustaði og lýsti því yfir að hún væri bara rosalega fín og dugleg. Er farin að lyfta sér vel upp þegar hún liggur á maganum og maður nær góðu sambandi við hana. Eitthvað var læknirinn að hafa áhyggjur yfir því að Ásdís getur tekið upp á því einstaka sinnum að sofa jafnvel í 7 tíma í strekk á næturnar og sefur rosalega vel í vagninum úti á daginn. Ef hún myndi ekki þyngjast þar til í næstu skoðun áttum við að fara að vekja hana á nóttinni. En þar sem okkur ljónunum er eðlislægt að vita alltaf best, plús það að barnið er greinilega að þyngjast vel ef hún er yfir meðaltali þá hlusta ég nú bara ekki á svona rugl :) Enda hafði hún þyngst um tæpt kíló frá því hún var skoðuð síðast. Þannig að við ætlum að sofa á okkar græna eyra og láta okkur líða vel. Reyndar vaknar hún líka alveg sjálf flestar nætur :)

miðvikudagur, október 10



Og svona fyrst að ég er "in the blogg zone" þá set ég inn eina mynd af fallegustu börnum í heimi :)



Ekki nóg með það að vera hæfileikarík hárgreiðsludama, þá er ég alveg hrillilega klár í handavinnu (hemm eða eitthvað). Alla vega þá til að æfa mig í að hekla, þá tókst mér að bögla saman þessu fína teppi sem ég ætla að nota til að setja fyrir opið á vagninum hjá Ásdísi. Er það ekki alveg svakalega flott? Er búin að vera ógó dugleg í handavinnunni, pjóna tvo risa trefla og svo hekla þetta. En þetta er alla vega þriðji hluturinn sem ég hekla á æfinni, en kemur alltaf jafn skemmtilegt á óvart hvað það er gaman og auðvelt að hekla. Alla vega, mæli með því.



Undur og stórmerki gerðust um helgina. Ég fékk leifi hjá förður Eiríks að klippa lokkinn hans. Hann var nefnilega með einn langan lokk efst á kollinum og allt annað hár frekar þunnt og stutt. Bæði var lokkurinn nærri því kominn niður í augu og síðan var þetta alveg hræðilegt að sjá. Ef það var rok þá stóð lokkurinn út í loftið eins og á gömlu köllunum sem greiða yfir skallann :) Alla vega, nú átti lokkurinn að fjúka. Eiríkur var settur í stólinn og dísæt nammijógúrt sett fyrir framan hann. Og þá var hann bara sáttur þegar honum var sagt að nú ætti að klippa hárið. Síðan þegar ég nálgaðist með skærin og fór að stússast í hárinu á honum þá brá nú öðru við og þvílíkt panik leystist út. Ég meira að segja klippti smá af mínu hári til að sýna að þetta væri nú allt í lagi en það skipti engu. Síðan leyst honum heldur ekkert á hárið þegar það lá á borðinu. Þetta var alla vega alveg hræðilegt en drengurinn lítur miklu betur út núna :) Síðan er líka að fara að koma ljósmyndari á leikskólann þannig að maður verður að vera fínn ;) Smá myndasería. Á fyrstu myndinni er hann bara ánægður með "ísinn" eða jógúrtið. Síðan uppgvötar hann hvað ég er að gera og þá er "all hell loose" ;)