fimmtudagur, febrúar 27

Blátt vatn!
Alltaf lærir maður eitthvað nýtt. Vissuð þið að vatn er blár vökvi en ekki glær! :o) Samkvæmt kennslubókinni minni sem ég var að lesa á þriðjudagskvöldinu þá er vatn blátt. Þetta er skýrt þannig að vatn reyndar hleypir í gengum sig allt ljós á sýnilega sviðinu og er þess vegna "glært" en hins vegar hleypir það í gegnum sig mun meira af bláu ljósi en rauðu, þ.e. gleypir meira rautt ljós. þ.a. vatn er blátt en ekki litlaust. Hins vegar eru fullt af ögnum og efnum í náttúrulegum vötnum s.s. stöðuvötnum og sjó sem valda því að vatnið er einhvern vegin öðruvísi á litinn.

Fór svo í saumó í gærkvöldi sem var haldinn í Frösunda í Solna en við Halldóra snýktum far hjá Ólöfu þannig að við þurftum ekki að taka strætó. Fengum ekkert smá góðan mat og kökur, marensköku með alvöru púpursykri, en það er ekki til alvöru púðursykur hérna í Svíaríki, heldur bara svona brúnn þurr sykur. Mér er reyndar alveg sama, sakna hans ekki mikið þar sem ég nota bara púðursykur út á súrmjólk og til að gera sjónvarpsköku, hef ekki hætt mér út í púðursykurmarensinn, enda aldrei nennt að baka marenskökur þó mér finnist þær alltaf mjög mjög góðar þegar ég smakka þær. Virðist bara vera svo mikið vesen að gera þær að ég nenni ekki að læra það.

þriðjudagur, febrúar 25

Poolbeibs!
Ég og Emelía og Auður fórum á námskeiðið í pool í gær. Þetta er víst bara byrjendanámskeið og við vissum að við færum bara í það að sprengja í gær og maður vissi ekki alveg við hverju maður ætti að búast, en ómægod! þetta var ekkert smá gaman! Lærðum það að það er til þrennskonar biljard: pool, snoker og eitthvað g.... sem ég náði aldrei hvað hét. Pool skiptist síðan í 3 leiki: 8-ball, 9-ball og 14:1, en 8-ball er kannski það sem flestir þekkja, annar spilarinn er með heil litaðar kúlur en hinn með röndóttar og svarta kúlan fer ofan í síðast. En við hins vegar lærðum alveg fullt af reglum sem maður hafði ekki hugmynd um, t.d. verður maður að segja hvaða kúlu maður ætlar að skjóta ofan í hvaða vasa! Við sem héldum að það væri bara svarta kúlan sem maður ætti að gera svoleiðis við. 9-ball þá spilar maður bara með fyrstu 9 kúlurnar og sá sem kemur kúlu nr 9 ofan í vasann vinnur + fullt af reglum, maður verður alltaf að hitta fyrst í kúluna með lægsta númerið o.s.fr. 14:1 er síðan allt öðruvísi, maður spilar upp á stig og kennarinn sagði okkur að stundum gæti sá leikur haldið áfram endalaust því þegar ein kúla er eftir þá eru hinar teknar upp aftur og raðað, en sá sem er fyrstur að fá ákveðin stig vinnur en metið í heiminum var að hitta 658 eða eitthvað svoleiðis kúlur í röð án þess að klikka!!!!!!! Og allir þessir leikir erum með mismunandi sprengitækni, maður vill sprengja sem minnst í 14:1 en sem mest í 8-ball og 9-ball. En það besta var eiginlega að þar sem við vorum heimskir útlendingar sem kunnum ENGA sænsku þá fengum við spes einkakennara sem þýddi allt yfir á ensku og fengum miklu meiri kennslu í reglum og tækni. Stundum borgar það sig að vera vitlaus! Þá er það bara að reyna að draga Georg í pool fljótlega svo maður geti æft sig í reglunum og að sprengja þar sem stelpurnar eru víst að flýja land til kóngsins köben í nokkra daga!

mánudagur, febrúar 24

Hvað er klukkan??
Okkur Auði finnst það ógeðslega sniðugt að þegar einhver spyr hvað klukkan sé að svara "skíttu á puttan" svona eins og maður gerði þegar maður var sex ára. Emelíu og Georg finnst þetta hins vegar ekki eins fyndið. Gallinn er náttúrulega sá hins vegar að ég get ekki sagt þetta í vinnunni því þetta er ekkert fyndið á sænsku og þeir myndu aldrei fatta þennan einkahúmor. En núna bjargast það allt. Er búin að segja tveim vinkonum mínum hérna í vinnunni frá þessu vandamáli mínu og núna get ég þó alla vega sagt "bajsa på fingret" næst þegar þær spyrja hvað klukkan sé og allir hlægja. Allir aðilar sáttir!

Sólin skýn í heiði
Hérna í Stokkhólmi skýn sólin sínu blíðasta ennþá og þá léttist lundin á svíanum. Helgin var með fínasta móti, fórum í mat til Emils og Oraniu á laugardaginn og fengum muzaka sem er víst grískur þjóðarréttur en Orania er grísk. Var síðan bara setið og sötrað rauðvín í rólegheitunum. Á sunnudaginn lá síðan leið okkar suður á boginn, í Fruängen í mat til Emelíu og Auðar þar sem við fengum stórkostlegan kjúklingarétt a la American Style, mjög gott, með beikoni og osti og herlegheitum, sátum þar líka fram eftir kvöldi (á sænskum mælikvarða) og spjölluðum og höfðum það næs. Síðan verður tekið á því á pool námskeiðinu í kvöld en við ætlum að hittast á skrifstofunni minni korter yfir fimm og taka saman strætó niður á Odenplan og massa þetta námskeið, enda erum við allar snillingar í pool (mismiklir snillingar reyndar en snillingar engu að síður).

fimmtudagur, febrúar 20

Andleysi og umsóknarfrestur.
Almennt andleysi hefur ríkt á þessum bæ undanfarna daga, kannski aðalega vegna þess að dagurinn er bara: vakna-fara í vinnu-koma heim og sofna fyrir framan sjónvarpið. Ekki mjög viðburðaríkt en nú skal tekið á, fara í göngutúr í hádeginu í þessu blíðskaparveðri sem er hérna í borginni. Annars hef ég bara verið að fylla í umsókn fyrir ferðastyrk, senda inn sérverkefnið mitt í eitthvað mat og svona fram eftir götunum. Síðan er bara verið að vinna í þessum blessuðu sýnum þar sem fer að styttast í dedlæninn á niðurstöðunum. Gaman að því.

miðvikudagur, febrúar 19

Verður maður þá núna að segja að maður sé að gúgla í staðin fyrir að blogga??

mánudagur, febrúar 17

Slátur og pönnsur
Robert og Gabriella komu í heimsókn til okkar á laugardagskvöldið í mat en þau eru ungverskt par sem búa í næstu blokk. Boðið var upp á slátur og virtist það svo sem renna vel niður. Þau sögðu að það væri svo sem til álíka hlutur í Ungverjalandi þannig að þetta er svo sem ekkert glæ nýtt fyrir þeim og ég held reyndar að þetta sé til í lang flestum Evrópulöndum í einhverri mynd. Ungverjar nota reyndar svín í sína pulsu í staðin fyrir lamb. Bakaði síðan pönnsur til að hafa í eftirrétt og var með sultu, rjóma og ís til að setja á ásamt venjulega sykrinum, en pönnsur og ís er hrein snilld sem maður var ekki með sérstaklega oft heima en er mjög venjulegt hér í Svíþjóð. Róbert sagði mér að í Ungverjalandi blandaði maður saman kotasælu, sýrðum rjóma, hnétum og rúsínum og einhverju meira og setti ofan á pönnsurnar sem þeir baka. Annars hafði laugardagurinn farið í það að þrífa alla íbúðina og ég meira að segja þurrkaði af öllu saman! Ekki vanþörf á! Sunnudagurinn fór framan af bara í afslöppun og göngutúr en um þrjú komu Agnes og Jesica í heimsókn en þær eru með Georgi í kúrsinum og eru þau að gera eitthvað verkefni saman. Ég tók þá bara fram kennslubókina mína og fór að lesa. Síðan bakaði Georg brauðbollur og ég bakaði pönnsur úr afganginum af deginu frá því deginum áður en það rann allt ljúflega niður í okkur og stelpurnar.

föstudagur, febrúar 14

Pizza og biljard
Ég, Auður og Emelía hittumst í gærkvöldi á skrifstofunni minni og fórum svo niður á central og inn á Pizza Hut og fengum okkur að borða. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég hef ekki farið á Pizza Hut hérna í Svíþjóð áður og verð ég að segja að pizzurnar hjá þeim eru sko ekki síðri en heima (kannski ekki skrítið, ætli þær séu ekki eins í öllum heiminum). Tókum síðan lestina upp á Odenplan og fórum í biljard á JoLo biljardstaðinum margfræga og drukkum smá öl. Ég held að ég hafi bara unnið einn leik af mörgum enda ekki með tærnar þar sem stelpurnar eru með hælana og vann ég bara því Auður hitti ekki á svörtu kúluna síðast. Ætlaði reyndar að taka þennan svaka snóker á Emelíu og var búin að loka hvítu kúluna inni og hún þurfti að snerta svörtu til að tapa ekki og haldiði ekki að henni hafi tekist það!! Anskotans heppni!! Nei, ég verð að fara að drífa mig á námskeið til að geta verið viðræðuhæf í þessum málum.

þriðjudagur, febrúar 11

Fyrirlestur
Úfffff var að enda við að halda fyrirlestur um byrjunarniðurstöðurnar mínar áðan, mætti haugur af fólki alveg þannig að sem betur fer gekk þetta ágætlega en ég er samt ekki alveg nógu ánægð þar sem niðurstöðurnar mínar eru ekki nógu góðar, verð að komast á massann til að fá betri niðurstöður, er nefnilega eitthvað efni sem kemur nákvæmlega samtímis þannig að ég fæ einn topp fyrir tvö efni :þ vell vell vona bara að ég fæ tíma á massann fljótlega en ég get sem betur fer byrjað að draga út fituna á raunverulegu sýnunum mínum þannig að ég sit ekki alveg verkefnalaus. Fékk hins vegar brandara frá Kötlu systur til að hressa upp á tilveruna:

Ég var glaður. Kærastan mín og ég vorum búin að vera saman í meira en ár, svo að við ákváðum að gifta okkur.Foreldrar okkar hjálpuðu okkur á allan
hátt, vinir mínir hvöttu mig, og kærastan mín var hreinn draumur!

Það var bara eitt sem truflaði mig, svoldið mikið, reyndar, og það var komandi tengdarmóðir mín. Hún var gáfuð kona, falleg og kynæsandi, sem
stundum daðraði við mig, frekar augljóslega líka, og lét mér líða óþægilega.

Einn dag, hringdi hún í mig og spurði mig hvort ég gæti komið yfir, til að undirbúa matarboð. Svo ég fór. Hún var alein, og þegar ég kom, hvíslaði
hún að mér að bráðum yrði ég giftur, og hún hafði tilfinningar fyrir mér, sem hún gæti ekki yfirbugað. Svo að áður en ég myndi giftast og skuldbinda
líf mitt til dóttur hennar, vildi hún njóta ástar með mér bara einu sinni.

Hvað átti ég að segja? Ég var í algjöru áfalli, og gat ekki sagt orð. Svo sagðist hún bíða í hjónarúminu og ef ég væri til í þetta, ætti ég bara að
koma á eftir henni. Ég horfði á þessa yndislegu konu þegar við löbbuðum upp stigann. Ég stóð þar í smástund, og svo snéri ég mér við og hljóp að
útidyrunum... Ég opnaði þær, og labbaði úr húsinu. Maðurinn hennar stóð þar, með tár í augunum, faðmaði mig og sagði að þau væru öll glöð og
fegin, "Þú hefur staðist litlu þrekraunina okkar. Við gætum ekki beðið um betri eiginmann fyrir dóttir okkar."

"Velkominn í fjölskylduna."

Hvað má læra af þessu?:

Jú, geymdu alltaf smokkana í bílnum!

mánudagur, febrúar 10

Undur og stórmerki!!!
Undur og stórmerki hafa gerst!!! Auður frænka er bara byrjuð að blogga aftur!! Frábært og velkomin til baka!!

Veisla um helgina
Fór í veisluna hennar Edenar á föstudagskvöldið. Það var ótrúlega spennandi, en Eden er frá Erythreu í Afríku. Fyrir þá sem kannski ekki vita hvar Erythrea er þá er hún á norðausturhluta Afríku og var upphaflega hluti af Eþíópíu en fékk sjálfstæði ´94. Til að byrja með byrjaði veislan næstum einum og hálfum tíma of seint en það er víst mjög týpískt þar sem Erythrear eru alltaf of seinir að þeirra sögn. Síðan var boðið upp á ekta Erythreanskan mat sem er þannig að maður fær sér fyrst ofvaxna og þykka pönnuköku útflatta á disk og aðra upprúllaða ofaná og síðan setur maður á steikt kjöt og steikt grænmeti og sósur af ýmsu tagi og sallat og síðan notar maður fingrana og upprúlluðu pönnukökuna til að taka upp matinn og dýfa honum í sósurnar og borða. Síðan þegar maður er búinn með upprúlluðu pönnsuna þá rúllar maður hinni pönnukökunni upp með restunum af matnum og borðar þannig. Mjög gott en ógeðslega sterkt!! Síðan undir borðhaldinu voru ræður og ýmis skemmtiatriði sem aðalega við á stofnuninni höfðum undirbúið því það er alveg sér sænskt fyrirbæri að það verða alltaf að vera skemmtiatriði og leikir svo manni leiðist ekki. Síðan var spiluð tónlist, vestræn og erythreisk á víxl og við lærðum hvernig maður á að dansa erythreiskan dans, en þá standa allir í hring og hringurinn hreyfist hægt rangsælis og maður vippar aðeins öxlum báðum í einu og á víxt og dúar í hnjánum. Við vorum náttúrulega alveg hrikalega léleg í þessu en erythrearnir voru mjög klárir. Síðan byrjaði kannski eitt par að færa sig inn í hringinn og dansaði saman og hristu axlirnar saman og jafnvel beygðu sig í hnjánum en þá voru þau mjög klár en þeir allra bestu setja víst fullt glas á höfuðið og dansa þannig án þess að það hellist úr því!! Síðan hrópar maður svona "lalalalalalalalalala" af og til (svona eins og maður hefur heyrt í arabískum veislum). Ótrúlega gaman og skemmtilegt að fá að prófa eitthvað nýtt. Laugardagurinn fór síðan bara í afslöppun og leti en í gær var bara verið að læra og svoleiðis, ætlaði að reyna að draga Emelíu og Auði í pool en þegar ég hringdi kl 18 þá voru þær að vakna grút þunnar eftir eitthvað djamm á laugardeginum þanngi að þær voru eitthvað stífar.

föstudagur, febrúar 7

Brjálað stress
Hérna í vinnunni eru allir að truflast úr stressi, erum nefnilega að undirbúa vörnina hennar Edenar sem byrjar eftir 15 mín og er búist við mörgum. Lapptoppinn sem á að notast við situr líka fastur í umferð einhvers staðar á leiðinni hingað.....ekki til að minnka á stressið. Síðan verður veisla í kvöld.

Auður og Emelía komu í heimsókn í gærkvöldi með rauðvín og osta mmmmmmm ekkert smá gott og sátum langt fram eftir kvöldi (á sænskum mælikvarða) og spjölluðum og höfðum næs. Takk fyrir það

þriðjudagur, febrúar 4

DUGLEGGGGGGGG!!!!!
Ég og Patricia sem vinnur með mér vorum ekkert smá duglegar í dag. Fengum bílinn lánaðan hjá Åke yfirmanninum okkar og fórum í IKEA. Verðum nefnilega með útskrift á deildinni á föstudaginn og þar sem við erum komin með svo fínt húsnæði þá er alveg upplagt að halda útskriftarveislurnar þar, þá þarf maður ekki að leigja sal eða diska og svoleiðis. Þá þurftum við alla vega að fara að kaupa allt heila klabbið. Keyptum 75 diska og 75 smádiska og 40 rauðvínglös (var til eitthvað) og 60 vatnsglös, 35 hnífapör (var eitthvað til líka) plús snaga í sturtuklefana okkar og hringi fyrir sturtuhengið, tvo spegla 140x40 cm og tvo stóra palla til að setja fötin sín á og svo eitthvað af skálum og drasli. Åke á frekar stóran bíl en hann var samt eiginlega of lítill fyrir allt þetta drasl. Jú og svo keyptum við ristavél!! var mikið búin að sakna þess að hafa ekki ristavél í vinnunni. Síðan þegar við komum til baka þurftum við að færa til húsgögn í eldhúsinu til að koma inn brjálæðislega þungum skápi fyrir allt þetta drasl, skrúfuðum saman pallana, hengdum upp sturtuhengin, hentum í uppþvottavél bara broti af öllu dótinu og settum risa sjónvarp upp á nýþunga skápinn (fengum reyndar strák til að hjálpa okkur aðeins með skápinn og sjónvarpið). Púff....er eiginlega alveg búin núna! Speglarnir verða hengdir upp á morgun þegar við erum búnar að fá borvél. Keypti síðan áðan brauð, ost og marmelaði til að taka með í vinnuna....mmmmm ristað brauð með osti og marmelaði......

sunnudagur, febrúar 2

Sunnudagur til svefns
Náði að sofa í 12 tíma í nótt, enda var ég frekar þreytt í gær. Það þýðir samt ekki að ég hafi sofið fram eftir öllu því ég sofnaði um níu í gærkvöldi og vaknaði um níuleitið í morgun, lá samt uppi í rúmi til tíu-hálf ellefu. Fórum nefnilega til Uppsala á föstudaginn og vorum komin þangað rétt fyrir sjö, en við vorum á leið í partý til Sigrúnar og Snævars þar sem Sigrún var að halda upp á 25 ára afmælið sitt!! Alveg geðveikt partý, þrautseigjustu svíarnir héldu meira að segja út til 3 eða eitthvað svoleiðis. Þangað komu líka Arna og Karvel en því miður komust ekki Auður og Emelía þar sem þær voru með gesti akkúrat þessa helgi því miður. Síðan var bara drukkið og borðað snilldar góðan mat sem Sigrún og Arna höfðu búið til, ekkert smá flottar snittur og beikonrúllur og annað góðgæti, fæ vatn í munnin þó ég hafi verið að gúffa í mig beikonborgara hérna á skrifstofunni því ég vorkenndi svo sjálfri mér að þurfa að fara í vinnuna á sunnudegi. Enívei, eftir partýið fengum við að gista hjá Sigrúnu og Snævari og þá var sko ekki farið á fætur fyrr en upp úr 12. Fengum okkur morgunmat og kaffi en svo kom Karvel að sækja vinnubílinn sem þau hefðu komið á og þá fórum við öll í meira kaffi til Örnu og Karvels til að sjá nýju íbúðina þeirra sem er orðin alveg ógeðslega flott! Síðan eftir að hafa borðað bakkelsi, drukkið kók og kjaftað var okkur skutlað á brautarstöðina um hálf fimm leitið og náðum lestinni 20 mín í fimm í bæinn aftur. Vissuð þið það að miðinn frá Stokkhólmi til Uppsala er ódýrari en miðinn frá Uppsala til Stokkhólms, merkilegt alveg hreint! Bíðum annars núna bara spennt eftir að vera boðið aftur í partý í sveitinni þar sem sá orðrómur er á kreiki að við meigum búast við vissu innflutningspartýi!! Vona að bæði við og Emelía og Auður komumst því þá er ódýrara fyrir okkur að leigja bíl!