miðvikudagur, apríl 28

Úff ég var alveg búin í gær, Rasmus sem er strákur á zoologi kom í heimsókn kl 8:30 með menntaskólabekk sem hann er að kenna og ég var með þriggja tíma fyrirlestur um gasgreini og magngreiningu og við gengum um stofnunina og skoðuðum og ég sýndi þeim gasgreini og annað sniðugt. Sá reyndar að einn sofnaði í fyrirlestrinum en held að það sé ekki óvanalegt. Varð lítið úr restinni af deginum þar sem síðan var fyrirlestur eftir hádegi og síðan settist ég á smá spjall með prófessornum mínum. En í dag koma mamma og pabbi í heimsókn jeiiiii Veit ekki hvað við gerum sniðugt.

föstudagur, apríl 23

Jæja þá er ég komin heim frá Prag. Var komin heim um miðnætti í gær þannig að ég er ekki frá því að ég sé smá eftir mig, en þar sem við vildum ferðast ódýrt þá flugum við með KLM í gegnum Amsterdam þannig að ferðalagið lengdist aðeins. Ráðstefnan gekk vel, bæði ég og Tatí vorum með okkar póstra á mánudeginum þannig að maður gat slappað meira af restina af ráðstefnunni og notið hennar. Minn interaktívi póster gekk ágætlega en það virkaði þannig að allir póstrarnir voru hengdir upp og síðan hélt aðalhöfundur hvers pósters um 5 mín kynningu á innihaldi og niðurstöðum. Sniðugt kerfi og síðan gátu hlustendur spurt spurninga eftir kynninguna og síðan við pósterinn. Var frekar stressuð en fékk slatta af spurningum sem ég gat svarað þannig að ég geri ráð fyrir að þetta hafi gengið vel. Skrópuðum síðan á þriðjudeginum þar sem okkur fannst fyrirlestrarnir ekkert vera neitt fyrir okkur og fengum meira að segja stuðning prófesorsins okkar í skrópinu þar sem hann ætlaði að skrópa líka. Fórum bara niður í bæ og kíktum í búðir, fann reyndar ekkert rosalega mikið að versla en skoðuðum mikið og fórum í sægtsín þar sem var siglt á báti og gengið um gyðingahverfið, kíktum síðan á klukkuna á aðaltorginu og Karlsbrúnna og svoleiðis. Hittum síðan Áka prófessor og hann bauð okkur á þennan fína ítalska stað (svona af því við vorum í Tékklandi) sem var með geggjað góðan mat. Annars var bara verið að fara á fyrirlestra, spjalla og annað, farið út að borða og sósíaliserað. Hótelið okkar var reyndar geggjað flott þó að rúmin hefðu verið frekar hörð, líklega ekki verið mikill munur á að sofa á gólfinu eða á dýnuni, en það var sundlaug á hótelinu með heitapotti sem var að sjálfsögðu prófuð. Síðan fundum við lítinn "kaupmann á horninu" rétt hjá hótelinu þar sem við keyptum okkur nokkra bjóra til að taka með heim og við hliðina á var áfengisverslun þar sem ég keypti tékkneskt rauðvín og tékkneskan vodka og borgaði uþb 600 íslenskar fyrir herlegheitin. Ekki slæmt. Ætla annars að taka því rólega um helgina og njóta þess að vera komin heim.

föstudagur, apríl 16

Þessi vika hefur liðið frekar hratt sem er svo sem ágætt. Annars var ein hérna í vinnunni að verja ritgerðina síðna í gær og verður síðan með veislu í kvöld sem ég er víst að fara í. Er svona alveg á mörkunum að nenna þar sem ég á eftir að pakka og taka mig til og svoleiðis fyrir tékklandsferðina á sunnudaginn, er að pæla í að fara bara fljótlega eftir matinn og fara snemma að sofa. Fór á miðvikudaginn niður á JoLo annars til að spila við Önnu-Karin. Byrjuðum á að taka einn 14-1 leik sem hún vann 30-14 :( enda var ég að spila alveg hræðilega illa. Tókum síðan nokkra 9-ball leiki þar sem hún vann fyrsta leikinn en síðan vann ég eins og fimm leiki í röð :) geggjuð hetja :) tókum síðan einn 14-1 til viðbótar sem ég reyndar tapaði aftur :( 30-17 eða eitthvað svoleiðis. Var reyndar mjög skemmtilegt. Annars var ég að gera svolítið geggjað í gær :) keypti mér snjóbretti :) svona í tilefni þess að sumarið er komið hehehe Þau eru bara á svo svakalega góðu verði svona í lok tímabilsins. Búðirnar voru meira að segja búnar að taka allar skíðavörur og setja inn á lager en maðurinn sem afgreiddi mig var svo góður að hann fór á bak við og náði í handa mér. Fékk ágætis bretti með bindingum og skóm á hálfvirði :) Þá er bara að bíða eftir að snjórinn komi aftur :) Er reyndar ekki frá því að það hafi verið horft örlítið á mig í tunnelbananum á leiðinni heim, sérstaklega þar sem það var 18 stiga hiti og sól og ég að burðast með snjóbretti heim. En ég gaf þeim bara illt auga og ímyndaði mér að ég væri bara á leiðinni til norðurhjara veraldar á skíði, hvað ætli þau viti um það :)

þriðjudagur, apríl 13

Jæja páskahelgin búin, hefði alveg getað verið í fríi eins og nokkra daga til viðbótar en gott að þetta sé bara fjagra daga vika frammundan. Páskarnir fóru nú mest í afslöppun, tiltekt og lestur bóka. Við, Auður og Emelía, fórum í pool partý (ekki sundlaugarveislu heldur biljard) á laugardaginn en Eva einn kennarinn okkar varð þrítug og hélt upp á afmælið sitt. Við keyptum handa henni tvær bækur í einni eftir Einar Má Guðmundsson á sænsku til að vera svaka menningarlegar og virtist það valla vel í kramið, kannski var hún bara svo kurteis að hún þorði ekki að hneykslast. Hún reyndar náði að imponera okkur þokkalega þegar við höfðum sagt henni að þetta væri einn af fremstu rithöfundum Íslands en þá spurði hún hvort það væri ekki Laxness sem væri okkar fremsti höfundur :) Annars var partýið skemmtilegt, við stelpurnar vorum sem fyrr hrókar alls fagnaðar en þó töluvert rólegri en síðast en vorum aftur síðastar úr partýinu :) Náðum að draga Tony, annan biljardexpert, með okkur niður í bæ og gerðum tilraun að komast inn á einn stað en þar sem klukkan var hálf þrjú og staðurinn lokaði þrjú þá voru þeir hættir að hleypa inn :( Hleyptu víst ekkert inn eftir tvö þó staðurinn væri nærrum því tómur. Hallærislegt. Þannig að við fórum bara heim eftir það og ég fékk að lúlla aftur hjá stelpunum.

Var geggjað hress daginn eftir, vil bara taka það fram.

Fórum síðan bara í pool í gær á kúrsinn okkar og spilaði síðan við Fax eftirá, vann ekki :(

Dagurinn í dag er bara búinn að fara í fyrirlestra og verð líka í fyrirlestrum eftir hádegi og leiðindi þannig að manni verður líklega ekki mikið úr verki. En gaman að því.

miðvikudagur, apríl 7

Þá er síðasti vinnudagurinn fyrir páska að verða búinn. Er búin að vera svaka dugleg að klára pósterinn minn fyrir ráðstefnuna, sendi hann í prentun eftir helgi og er líka búin að gera stutta powerpoint kynningu á pósternum. Veit reyndar ekki hvort ég á að vera með pp eða glærur eða bara að tala þannig að ég verð með allt tilbúið. Verst er að ég veit ekki alveg hversu lengi ég má tala. Alveg furðulega erfitt að búa til stutta kynningu rúmar 5 mín eða svo. Framundan er reyndar bara slökun, þrítugsafmæli á laugardaginn og meiri slökun og kem ekki til baka til vinnu fyrr en á þriðjudaginn jeiiii!

Gleðilega páska annars öll sömul!!

mánudagur, apríl 5

Ú je bara þriggja daga vika framundan og síðan fimm daga frí. Næs. Fórum á laugardaginn til Fruängen í grill hjá stelpunum, fyrsta grill ársins. Geggjað gott þar sem við Georg grilluðum okkur marineraða svínalund og stelpurnar kjúklingabringur og síðan franskar og meðlæti með. Það var bara búið að vera svo gott veður alla síðustu viku, sól en frekar svalt að grillþráin var bara orðin ómótstæðileg. Reyndar kom smá svipur á svíana þegar ég sagði þeim að við ætluðum að grilla, en þeir hafa líklega bara hugsað mér sér "skrítnir íslendingar, samkvæmt dagatalinu þá er opinber grilltíð ekkert byrjuð" því svíar geta ekki gert neitt nema yfirvaldið gefi þeim opinberlega leifi og Göran Person forsetisráðherra var ekki búinn að koma í sjónvarpið og segja að þeir mættu byrja að grilla. Hann gerir það líklega núna strax eftir páska.

Spurning annars hvað við gerum um páskana, ekkert búin að pæla í því, væri til í að fara í stutt "uflykt" eða svona stuttar vettfangsferðir, kannski á kaffihús í Sigtuna eða eitthvað svoleiðis. Spurning hvort ég geti dregið Georg með mér í það. Annars er ég núna að rembast eins og rjúpan við staurinn að reyna að klára pósterinn minn sem ég á að fara með á ráðstefnu þann 18. apríl í Prag. Á bara erfiðasta hlutann eftir, að skrifa niðurstöður og umræðu. Finnst einhvern vegin auðveldara að skrifa inngang. Málið er reyndar að ég á víst að vera með "interactive poster" þannig að ég á að vera með einhverja kynningu áður en veit ekkert meir. Þokkaleg íslensk stemmning á þessu þarna hjá þeim í Tékklandi, allt gert á síðustu stundu.

fimmtudagur, apríl 1

Alveg merkilegt hvað maður dreymir skringilega snemma á morgnanna, sérstaklega ef maður vaknar og sofnar aftur. Georg fór alla vega á fætur um fimm leitið til að taka strætó og bát út á Askö með kúrsinum sínum og verða í eina nótt. Mér reyndar til smá gremju tók ég eftir því í morgun að hann tók tannkremið með sér án þess að kaupa nýtt handa mér. Ég var því að fara ótannburstuð í vinnuna en sem betur fer er ég með tannbursta og tannkrem hér.