laugardagur, nóvember 17

Annars er ég búin að setja inn myndir hjá krökkunum og fullt af vídeói af Ásdísi.

Eiríkur er nú áhugasamur um margt, en það er fátt jafn spennandi og myndavélar, hvort sem það eru vídeómyndavélar eða venjulegar. Reyndar er fátt jafn skemmtilegt og að láta taka vídeómynd af sér dansa og sjá beint á skjánum á vélinni. Alltaf þegar á að reyna að taka mynd af honum eða systur hans þá heimtar hann vélina og fer að taka sjálfur myndir (thank god for digital cameras :) !) . Flestar myndirnar eru bara eitthvað út í bláinn, honum finnst t.d. gaman að fara inn í svefnherbergi þegar það er dimmt til að sjá flassið lýsa upp allt :) En sumar myndirnar eru af einhverju. Alla vega hér er ein af inniskónnum mínum :)


Hér er mynd af Ásdísi litlu sys

Hér er sjálfsmynd


Hérna tók hann mynd af mér

fimmtudagur, nóvember 1

Jæja, einni kúkableyju og smá brjóstamjólk seinna
Við Ásdís fórum nefnilega í klippingu í gær, ja það er, ég fór í klippingu og Ásdís fékk sér bjútíblund. Er búin að finna ágætis hárgreiðslukonu sem er óhrædd við að prófa nýtt og, sem er mjög óvenjulegt, klippa öðruvísi en sítt og lita ljóst :) Hins vegar er gallinn á henni að hún talar alveg rosalega mikið. Ég hef aldrei hitt aðra eins kjaftakvörn. Reyndar er hún þræl skemmtileg þannig að yfirleitt kemur það ekki að sök. En í gær þá talaði hún svo svakalega mikið að hún klippti mig allt allt of stutt. Ég sem var búin að reyna að safna til að breyta um hárgreiðslu. Svo sem ekkert hræðilegt, kann ágætlega við þessa klippingu. En í staðin fyrir að fara í þunglyndi þá fór ég bara heim og litaði hárið rautt :) Georg er ekki alveg sannfærður um ágæti litsins, en mér finnst ég ógó mikil pía :) Vonandi gengur það bara betur næst að breyta um hárgreiðslu.

Við Eiríkur fórum með strætó og lest í gær í bólusetningu. Við vorum búin að ræða þetta kvöldið áður og um morguninn að við ætluðum til læknisins sem ætlaði að stinga í lærið á honum og það yrði ekkert rosalega vont. Eiríkur var alveg sáttur við það og var voða spenntur að fara með strætó og lest, en það er eitt af uppáhalds verkefnunum hans :) Síðan komum við til læknisins og hann var voða þægur, sat í fanginu á mér og við drógum niður buxurnar. Hann kvartaði aðeins undan stungunni en fannst síðan vont að láta dæla lyfinu í lærið og fór aðeins að gráta og sagði svo "Eiki meiddi sig". Hann var meira að segja það móðgaður út í lækninn að hann vildi ekki fá hjá henni límmiða í verðlaun. En sem betur fer var stór traktor í biðstofunni sem hann gat hjólað á og það eyddi sorginni. Hann vildi meira að segja segja bless við lækninn þegar við fórum. Síðan var hann svo kátur á eftir að hann vildi ekki einu sinni ís í verðlaun :) þannig að við tókum bara lestina heim aftur. Sem betur fer hefur hann ekki sýnt nein viðbrögð gegn sprautunni, fékk ekki einu sinni hita. Ætli áhrifin hafi ekki bara hoppað yfir á Ásdísi því hún vaknaði með hita í morgun. Vona bara að það sé einhver hitatoppur og hún sé ekki að verða veik. Jæja, verð að sinna lítilli dömu sem er að kvarta undan kúkableyju.