miðvikudagur, október 29

Hann Georg minn á afmæli í dag :) Ég gaf honum ekkert smá fína rafmagnsrakvél í afmælisgjöf í gær :) þannig að núna er hann alltaf nýrakaður og fínn, hann er nú alltaf fínn en núna er hann líka nýrakaður :)

þriðjudagur, október 28

Efnafræðihetjurnar
Á biljardnámskeiðinu í gær ánöfnuðum við fína heimatilbúna biljardboltanum okkar Triq, en það er klúbburinn sem heldur námskeiðið okkar, við mikla hrifningu viðstaddra :o) Við vorum engar smá hetjur að hafa búið þetta til, krökkunum fannst meira að segja ekkert smá spennandi að stinga nefinu ofan í rörið sem við geymdum boltann í og fá smá ediksýrusjokk :o) Ekkert smá geðveikir.

föstudagur, október 24

Úff hvað það er erfitt að vera í svona "nenni ekki neinu" skapi :) Annars er búið að vera nóg að gera, fórum í saumaklúbb í gær og ég, Emelía og Auður ætluðum að vera samfó. Hittumst niðri á brautarpallinum fyrir neðanjarðarlestina hérna hjá háskólanum en saumaklúbburinn var bara á næstu stoppistöð. Síðan heyrast bara skilaboð í hátalarakerfinu þar sem segir að lögreglan lokaði þeirri lestarstöð sem við ætluðum út á og engar lestir myndu stoppa þar :( smá pirr þannig að þegar við vorum allar mættar þá hlupum við upp úr neðanjarðarlestinni og ætluðum að ná strætó en rétt náðum að sjá í rassgatið á strætónum (enn meira pirr) og næsti strætó kom ekki fyrr en eftir hálftíma. En þar sem við erum ungar og hressar þá ákváðum við bara að labba, tók ekki nema 15-20 mín og við viltumst ekkert á leiðinni. Fengum gott að borða í góðum félagsskap þannig að það bjargaði alveg kvöldinu.

Annars höfðum við fengið smá heimaverkefni á biljardnámskeiðinu og það var að finna út úr hverju biljardkúlur eru gerðar því þau vildu meina að kúlurnar væru gerðar úr efni sem heitir fenól! og við vorum ekki alveg tilbúnar að bekena það. Þannig að daginn eftir dreif Emelía sig á netið og fann lýsingu á plastinu sem boltarnir eru gerðir úr og meira að segja uppskrift hvernig á að búa það til en þetta er fenól-formaldehýð pólimera. Þar sem þetta var nú ekki beint flókin uppskrift með einföldum efnum þá ákváðum við að vera ofurnördar og prófa að búa til smá klessu. Emelía yfirofurnörd og ég aðstoðarofurnörd hittumst á labbinu hennar Emelíu og byrjuðum að sulla. Málið er að maður býr til lausn af ediksýru, formaldehýði og fenóli og síðan bætir maður rólega HCl útí, en maður átti víst að nota 20 g fenól en við vorum bara með 2 g sem var kannski bara eins gott því við fengum vænustu klessu út úr þessu, og meira að segja bleika! Prófuðum síðan líka anisol, m- og p-kresol en eitthvað var árangurinn mismunandi úr þeim tilraunum. En núna getum við farið með bleiku kúluna á kúrsinn núna á mánudaginn og gefið þeim heimatilbúinn biljardbolta :) reyndar ennþá soldið mikil ediksýrulykt af honum en maður náttúrulega bara fórnar sér fyrir sportið. Fyrir þá sem vilja prófa að búa til eigin biljardbolta þá má finna uppskriftina hérna þá er uppskriftin fyrir bakelite á bls 5.

mánudagur, október 20

Helgin var ekkert smá skemmtileg! Eftir mikla afslöppun á laugardaginn hitti ég nokkra úr vinnunni við Bagarmossen um hálf sjöleitið þar sem Daniel vinnufélagi okkar skýrði son sinn, Zion, þann daginn, en okkur var boðið í veisluna um kvöldið. Daniel og sambýliskona hans eru frá Erythreu og þar tíðkast það að maður heldur brjálaða veislu við hvert tækifæri, þá sérstaklega við stórviðburði sem skýrn og svoleiðis. Þetta er í annað skiptið sem ég fer í erythreíska veislu og þessi var alls ekki síðri en sú fyrri en það er sjaldan sem maður lendir í jafn skemmtilegum veislum eins og þessar eru. Við vorum alveg með fyrstu gestum en það er víst venjan í Erythreu að maður mætir bara þegar manni henntar. Fengum mjög góðan mat sem voru svona þykkar og stórar pönnukökur sem maður setti á mismunandi hluti, pottrétti, sallat og annað og síðan notaði maður aðra pönnuköku til að dýfa í en maður borðaði með puttunum. Síðan var líka boðið upp á heimatilbúið vín, tvær sortir, ein tegund sem var gerð úr hunangi, sætt og gott, en álíka sterkt og viskí og var jafnvel smá tannkremsbragð af, hin tegundin var gerð úr deginu sem pönnukökurnar voru gerðar úr, bætt í smá vatn og geri og síðan látið gerjast, veit ekki alveg hverju það líktist en ekki var það gott alla vega, álíka sterkt og léttvín. Síðan þegar flestir voru komnir og búnir að fá sér aðeins í gogginn þá var borðunum rutt frá og dansinn byrjaði. Við vorum náttúrulega með smá reynslu í erythreískum dansi frá síðustu veislu þannig að maður var aðeins skárri en verstu byrjendur og fólk kom meira að segja til okkar og sagði að við værum mjög dugleg :) Það er bara einhver svona axlarhreyfing sem við erum ekki alveg búin að ná tökunum á, en þá er bara að æfa sig. Þetta var alla vega mjög skemmtileg upplifun, gaman að sjá aðra siði og venjur.

Á sunnudaginn hitti ég síðan Ronnie á Odenplan en við vorum búin að ákveða að taka þátt í amatörkeppni á Stockholms biljardsalong þar sem spilaður er leikurinn 5-9. Mér leið bara vel þar sem ég drakk frekar lítið af heimabrugginu og bara tvo þrjá bjóra kvöldið áður en Ronnie hins vegar þurfti að fá sér þrjá bjóra fyrir keppnina bara til að stöðva titringinn í höndunum :) Það samt virtist ekki hafa haft áhrif þar sem hann komst áfram upp úr riðlakeppninni en ekki ég, ég tapaði tveim leikjum en vann einn :( samt var ég í fínu keppnissokkunum mínum sem stelpurnar gáfu mér. Það gengur bara betur næst ;)

fimmtudagur, október 16

Ó mæ god þvílíkur dagur, var í kúrsinum milli 9 og 11 að tala um það hvernig maður leitar að rafrænum bókum á netinu og síðan frá 13-15 þar sem við hlustuðum á meira eða minna sama fyrirlestur og í gær um copyright og einkaleifi, ótrúlega líflegur og skemmtilegur fyrirlestur eða þannig, kl 15 var síðan dósent fyrirlestur þar sem maður að nafni Ian Cousine er að verða dósent og þurfti að halda fyrirlestur um sitt rannsóknarefni, gallinn er bara að þann fyrirlestur er ég búin að heyra að minnsta kosti fimm sinnum áður :( um fugacitet sem er alveg ógeðslega leiðinlegt efni, meira að segja svo leiðinlegt að ég nenni ekki einu sinni að útskýra hvað það er. Ég náði meira að segja að sofna á þeim fyrirlestri sem er alveg magnað því ég get varla sofnað á bókasafni þar sem maður getur þó lagt sig fram á borðið, og mér hefur bara einu sinni á ævinni tekist að sofna í bíó, ergo ég get ekki sofið í fyrirlestrum! Kannski tókst mér að sofna þar sem ég var komin með dúndrandi hausverk og sjóntruflanir. En núna er ég búin að fá alla vega tvær gerðir af verkjatöflum og náttúrulega dotta aðeins og ég er bara næstum eins og ný manneskja, bara með smá seiðing í hausnum.

Annars keypti ég mér þennan fína ferðageislaspilara í gær í Clas Ohlson (nokkurnskonar byko) sem er líka með útvarpi og ekkert smá flottur á tæplega 500 SEK. Ekkert smá ánægð með hann, get hlustað á tónlist þegar ég rölti mér í vinnuna á morgnana.

miðvikudagur, október 15

Er í stuttum kúrsi akkúrat núna um hvernig maður á að nýta sér alla þessa triljón gagnabanka og leitarprógröm sem háskólinn hefur keypt sér aðgang að. Verður bara þessa viku, en finnst svo sem að það mætti troða þessu öllu á tvo daga eða eitthvað svoleiðis. Var núna milli eitt og tvö þar sem einhver kona gekk örugglega í gegnum hvern einn og einasta gagnabanka og sýndi okkur en allir voru náttúrulega nokkurnvegin eins þannig að ég missti aðeins einbeitinguna af og til. Í einum af þessum veiku augnarblikum þá varð mér á að kíkja á póstinn minn og eitt bréf frá Emelíu þar sem hún var að senda einhvern brandarann áfram, en það vildi ekki betur til en svo að ég var nærri því búin að skella upp úr þarna í miðjum tölvutímanum yfir grautfúlum gagnabönkum :) Með því að halda bæði fyrir munn og nef tókst mér að kæfa hláturinn en var svona smá flissandi það sem eftir var af tímanum ;) Ekki sniðugt. Kennir manni að vera ekki að skoða póstinn sinn svona í miðjum tíma. Annars var brandarinn eftirfarandi:

Eitt kvöldið var mér boðið út. Og sko BARA með stelpunum. Ég sagði manninum mínum að ég yrði komin heim um miðnættið. "Ég lofa því!" Jæja, tíminn leið og það var mikið drukkið af kampavíni. Um 3 leytið um nóttina var ég orðin pöddufull, og ég ákvað að drífa mig heim. Um leið og ég gekk inn fyrir dyrnar byrjaði Gauksklukkan okkar að slá (gala), og galaði 3 "kú-kú". Þegar ég heyrði það þá reiknaði ég með að hann myndi vakna, svo að ég "kú-kú-aði" (galaði) 9 sinnum til viðbótar. Ég var ótrúlega stolt af sjálfri mér að komið með þessa snilldarhugmynd, (alveg á perunni), til þess að sleppa við nöldur næsta dag. Daginn eftir spurði maðurinn mig hvenær ég hafi komið heim, og ég sagði honum að ég hafi komið klukkan 12, eins og samið var um. Hann virtist vera sáttur við það, og ég hugsaði: "Hjúkk, ég komst upp með þetta" En þá sagði hann, "Við þurfum að fá okkur nýja klukku". Þegar ég spurði hann hvers vegna, sagði hann: "Sko, í gærkvöldi galaði klukkan þrisvar, sagði síðan, "SJITT", galaði fjórum sinnum til viðbótar, ræskti sig, galaði aftur þrisvar, flissaði, galaði tvisvar sinnum enn, og datt síðan um köttinn og PRUMPAÐI..........

þriðjudagur, október 14

Horfði á myndina "28 days" um helgina sem er svona bresk zombie mynd, fjallar um strák sem vaknar upp úr dái og þá hefur þvílíkur vírus herjað á allt Bretland og þeir sem sýkjast breytast í árásargjarna zombía sem ráðast á heilbrigða fólkið og næstum allt Bretland er mannlaust. Nokkuð góð mynd og alls ekki neitt í líkingu við hollívúd myndirnar. Þetta er ekki einu sinni hryllingsmynd, meira svona spennumynd, mæli alveg með henni. Enívei, mér verður oft hugsað til þess þegar ég er að horfa á svona myndir með annað hvort zombíum eða sýktu fólki sem ræðst á heilbrigt fólk og svona, af hverju ráðast bara zombíarnir á heilbrigða fólkið?? Maður hefði haldið að þeir myndu líka alveg ráðast á hina zombíana og drepa þá eða eitthvað svoleiðis. Svo var það líka þannig í myndinni 28 days að sýkta fólkið hætti strax að ráðast á heilbrigða fólkið um leið og heilbrigða fólkið hafði sýkst (tók bara 20 sek fyrir sýkinguna að koma fram)!! Af hverju héldu þeir ekki áfram? Þetta eru kannski ekki svona myndir þar sem maður á að pæla mjög djúpt í.

föstudagur, október 10

Sá á blogginu hjá Soffíu að nú ætti að vera hægt að titla meistara Finnboga opinberlega meistara þar sem hann ætlar að halda meistarafyrirlesturinn sinn núna í hádeginu, eitthvað varðandi útreikningar á vetni í magnesíummálmi og magnesíumhydríði. Gangi þér bara vel Finnbogi!!

fimmtudagur, október 9

Fundarhöld
Við í analyshópnum héldum fund í gær, fórum heim til mín um fjögurleitið og sátum og ræddum ýmiss málefni sem ræða þurfti. Síðan rúmlega sex settum við punkt og elduðum okkur fiskisúpu og sötruðum vín. Var ekkert smá næs. Flestir fóru heim um hálf tíuleitið en ein sem býr rétt hjá mér var aðeins lengur og hjálpaði mér að vaska upp og síðan sátum við bara á spjallinu og kláruðum vínið sem eftir var. Verð að viðurkenna að maður er ekki alveg með sprækasta móti í dag, en það er allt í lagi.

miðvikudagur, október 8

Ekkert nýtt að gerast hér, bara búin að vera að vinna á fullu.

sunnudagur, október 5

Saga súrströmmingarinnar
Það kom upp spurning hérna á athugasemdarkerfinu þar sem var verið að spyrja hvað surströmming væri. Bein þýðing á orðinu er súrsíld. Þetta er sem sagt síld sem á að vera söltuð en það gerðist víst einhverntíman hérna frostaveturinn mikla fyrir mörgum árum að ekki var til nægilegt salt en það var látið vaða engu að síður og slatti af síld söltuð. Síðan kom upp úr dúrnum þegar síldartunnurnar voru opnaðar og átti að fara að gæða sér á saltsíldinni að þetta hafði engan vegin verið nóg salt og öll síldin var þránuð og úldin. Þar sem mikil fátægt ríkti þá var nú eiginlega ekki hægt að henda þessum mat og hann því étinn. Fólk hefur líklega vanist réttinum eftir að hafa étið fleiri kíló af þessu þar sem þessi hefð hefur haldist lifandi gegnum árin. Í stuttu máli þá er þetta úldin síld með salti! Eftir að fiskurinn hefur verið í tunnu er hann pakkaður í niðursöðudósir og það er ekki álitið að fiskurinn sé tilbúinn til matar fyrr en niðursuðudósin er orðin hnöttótt af þrýstingi inni í henni. Síðan þegar hún er opnuð þá spítist þránunarvökvinn út um allt. Bæ þe vei, það er stranglega bannað með lögum að taka með svona dós í flugvél því það hefur komið fyrir að við einhverjar þrýstingssveiflur í flugvélinni að dósir hafa sprungið og þá lyktar öll vélin eins og rotnun og útikamar til samans. Bragðið er í raun bara salt bragð með smá þráa keim sem eftirbragði en lyktin, Ó MÆ GOD, þvílík stækja. Það er ekki auðvelt að stinga einum bita upp í sig þó maður viti að bragðið sé ekkert slæmt þar sem hver einasta taug í líkamanum reynir að segja manni að þetta á ekki að fara í munninn. Gaman að því að daginn eftir eru hægðirnar frekar mjúkar.

Og svo eru svíarnir að reyna að halda því fram að hákarlinn okkar sé slæmur!

föstudagur, október 3

Ég komst að því að það er ekki gott að vera lokaður inni í herbergi með tveim öðrum þar sem allir veggir og loft eru klæddir með riðfríu stáli, engir gluggar, ekkert útvarp og maður sér ekkert út. Mér finnst ég vera komin til baka út í heiminn núna. Var á mörkunum að maður væri að verða geðveikur (eða geðveikari).

Veisla dauðans
Við Georg ákváðum að stefna lífi okkar og heilsu í hættu í gærkvöldi þar sem við fórum í surströmming veislu. Þeir sem einhverntíman hafa fundið lyktina af surströmming vita alveg hvað ég er að tala um! og þeir sem ekki hafa fundið lyktina af þessu ættu að leggjast á hné og biðja til Guðs um að ALDREI þurfa að finna lyktina af þessum viðbjóði. Þetta er eins og að stinga hausnum ofan í kamar eða eitthvað svoleiðis! Planið var að taka með svið sem mamma og pabbi voru svo hugguleg að senda en þau festust aðeins í tollinum þar sem sænskir tollverðir álíta víst ekki svið vera mat. En við fáum þau víst í dag þannig að það er bara afsökun fyrir að halda aðra veislu.

Enívei, veislan var mjög skemmtileg, við vorum nokkur sem vorum samferða og stoppuðum í sjoppu og keyptum okkur pylsu á leiðinni þangað. Við hjónin vorum samt ekkert smá dugleg og borðuðum 5 fiska samtals (kannski óþarfi að taka það fram að Georg borðaði fimm fiska og ég ekki neinn, en ég smakkaði í fyrra og er því löglega afsökuð). En með þessu er drukkin bjór og snafs fyrir svona amatöra eins og flest fólk er, en þeir hörðustu uppi í Norrland drekka mjólk og snafs :)

Minnir að einhver hafi verið að segja mér frá manni sem var þá fátækur stúdent og átti kött og ákvað að prófa að gefa kettinum surströmming. Það fór ekki betur en svo að kötturinn strauk að heiman og sást aldrei aftur.