þriðjudagur, maí 31

Maður ætti kannski að segja "varúð, óléttutal": En jæja, vendingin í gær gekk bara svona ljómandi vel. Hringdi upp á spítala hálf átta til að athuga hvort þær hefðu tíma að taka á móti mér, sem þær höfðu þannig að við drifum okkur af stað og vorum mætt um átta leitið. Þá var okkur parkerað inni á einni fæðingarstofunni og ein hjúkkan skoðaði mig ásamt lækni og athuguðu með sónar hvort höfuðið (og þar af leiðandi allur líkaminn) væri ekki örugglega enn á vitlausum stað :) síðan var ég sett í mónitor til að athuga hvort ekki væri allt í lagi og eftir það kom heil hersing, tvær hjúkkur og læknirinn. Ég fékk bricanyl í æð til að slaka á leginu og síðan var bara sprautað fullt af geli á magann á mér og læknirinn fann rassinn á krílinu og ýtti undir hann ásamt því að beina hausnum þannig að krílið fór í áfram kohnís. Þetta gekk víst rosa vel, krílið meira að segja hjálpaði bara til, sjálf vendingin tók bara 2-3 mínútur og þetta var ekkert óþægilegt, bara svolítið skrítið. Stundum eru krílin á einhverjum mótþróa þannig að þetta tekst í uþb helming tilfella. Georg horfði líka á og sagði að það hefði verið skondið að sjá krílið snúast svona utan frá. Síðan varð ég bara að sitja í mónitor í klukkutíma á eftir ásamt því að þær tékkuðu með sónar hvort krílið snéri ekki örugglega rétt og fékk eitthvað að borða þar sem ég mátti ekkert borða um morguninn, var orðin slatta svöng. En síðan um 11 leitið var okkur bara gefið grænt ljós og við stungum af heim á leið. Annars er krílið enn í réttum stellingum núna og vona barasta að það haldi sér svoleiðis. Þá er það bara að bíða þangað til krílið ákveður að mæta á svæðið.

Annars fór ég á Star Wars 3 á föstudaginn, bara þokkaleg fannst mér, öllum spurningum var svarað, af hverju Darth Vader (eða "maðurinn sem andar" eins og hann hefur stundum verið kallaður) er í búningnum sínum og allt svoleiðis. Þannig að maður verður eiginlega bara að sjá þessa mynd til að losna við alla lausa enda.

Á laugardaginn fór ég síðan aðeins í bæinn að tillefni þess að ég var búin að fá útborgað og tók smá shopping, Georg til mikillar ánægju :) en síðan um kvöldið komu Róbert og Gabríella í heimsókn og fengu ljúffengan steinbítsrétt. Sunnudagurinn var bara afslöppun, held að ég hafi verið frekar eftir mig eftir sjoppíngið, kortið mitt var líka eitthvað lúið, þannig að það var ekki mikið afrekað.

þriðjudagur, maí 24

Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt eitthvað. Fórum á föstudaginn eftir vinnu til Auðar og Emelíu í búrítos, ekkert smá gott og síðan snakk og nammi og kex og ýmislegt annað í eftirrétt þannig að maður varð alveg afvelta þar sem að sjálfsögðu borðar maður bara það sem er sett fyrir framan mann og hættir ekki fyrr en það er búið :) Veit ekki enn hvernig ég komst upp úr sófanum. Eftir matinn var síðan bara spjallað í rólegheitunum og horft á einn L-World þátt.

Laugardagurinn fór síðan í algjöra afslöppun, þar sem Ísland var ekki með í júró þá nennti ég ekki að horfa á heldur fórum við í búðina og keyptum okkur steik og leigðum spólu. Horfðum á "Alexander" eftir Oliver Stone held ég. Ofsalega fínar umbúðir en innihaldið var eitthvað fátæklegt. En maður verður náttúrulega að fyrirgefa þeim þetta þar sem þetta er framleitt fyrir Bandaríkjamarkað, ekki hægt að búast við miklu (viðurkenni fúslega fordóma mína á þessu sviði). Síðan komust Svíar víst ekki langt í Júró og verða meira að segja með í undankeppninni á næsta ári, held þetta hafi aldrei gerst í sögu Svía í Júró að lenda svona neðarlega, enda voru fyrirsagnirnar í blöðunum daginn eftir all svakalegar þar sem söngvarinn baðst afsökunar á júróvision skandalnum. Ég vissi ekk hvað hann hefði gert eiginlega, datt fyrst í hug að hann hefði tekið upp á því að strippa á sviðinu eða gert eitthvað enn hræðilegra. Náttúrulega ekki honum að kenna að lagið væri svona leiðinlegt. En þetta fór eitthvað illa í sálina hjá Svíum.

Á sunnudaginn fóru Georg, Auður og Emelía í labbitúr í kringum Brunnsvíkina sem er stöðuvatn hérna í nágrenninu, ekkert smá dugleg, voru ekki nema 3 tíma þannig að þau hafa labbað rösklega, held að þetta séu 14 km. Ég var nú bara heima á meðan, aðeins að taka til og bakaði vöfflur fyrir göngugarpana þegar þeir komu heim uppgefnir. Síðan kíktu Snævar, Karvel og Arna með Arnar Smára í heimsókn frá Uppsala og Arnar Smári var látinn prufukeyra eitthvað af dótinu sem við erum búin að kaupa fyrir litla krílið okkar, eins og skiptiborðið og brjóstapúðann, þannig að nú getum við verið örugg um að þetta virkar allt :) Annars var bara setið og spjallað enda alltaf gaman að fá fólk í heimókn.

Annars fórum við í skoðun til ljósunnar í dag og allt leit vel út nema prakkarakrílið er enn í sitjandi stöðu, óþekktaranginn, þannig að við eigum tíma í vendingu á mánudaginn næsta. Verður spennandi að sjá hvort það gangi að snúa krílinu, heppnast víst í 50% tilvika en síðan geta þau víst snúið sér til baka ef þau eru þrjóskupúkar. Wish us luck.

mánudagur, maí 16


Í gær var stjórnarfundur hjá biljardklúbbinum og síðan picknick fyrir alla meðlimi niðri á strönd hjá okkur. Var þvílíkt gott veður, hlýtt og fínt. Að sjálfsögðu var grillið tekið með og grillmeistararnir, Henke og Georg, sáu um að kveikja í. Posted by Hello


Sætu stelpurnar saman Posted by Hello


Að sjálfsögðu var spilað kubb Posted by Hello


Auður var eina hetjan sem dýfði aðeins tánnum í vatnið, sagði reyndar að það væri frekar kalt :) Posted by Hello


Þvílíkt gott veður Posted by Hello

föstudagur, maí 13

Héðan er allt gott að frétta, var að koma inn en er búin að sitja úti í sólinni í klukkutíma, reyndar á fundi :) en héldum hann úti því það er svo mikil blíða núna. Vona bara að góða veðrið haldi svona áfram fram yfir helgi svo maður geti verið meira úti og kannski fengið eins og eina freknu eða svo.

þriðjudagur, maí 10

Úff, ekki frá því að maður sé aðeins eftir sig, var á maraþonfundi með prófessornum mínum frá 8:30 til 11:30 til að spjalla um bæði mitt verkefni og ýmislegt annað, hvernig gengi og hvernig framtíðin yrði og allt það. Góður fundur en langur. Erfitt líka þegar maður er búinn að vera með langa helgi (fimmtudag til sunnudags) en væri alveg til í að vera lengur í fríi. Tókum því annars bara frekar rólega um helgina, hittum Ron og Sinaid á fimmtudagskvöldinu og fengum okkur sushi (kann ekki að skrifa nafnið, en það er eins og á söngkonunni) en hún er frá Írlandi og var í heimsókn hjá kappanum í síðustu viku. Á laugardeginum voru þau búin að leigja sér bíl þannig að við kíktum með þeim til Uppsala og Sigtuna í smá bíltúr þar sem var fengið sér kaffi og menningarminnjar skoðaðar. Annars var lítið gert um hlegina annað en að baka gulrótarköku og lesa bækur og sitja úti í góða veðrinu.

Verður ekki mikið annað gert í dag en sitja þennan fund því nú er ég að fara til ljósunnar í "rútín tjékk-up", maður kannski reynir að gera eitthvað af viti þegar ég kem til baka.

mánudagur, maí 9

Þá er kominn nýr kútur í heiminn, Halldór Kári Þórhallsson, sem kom snemma í gærmorgun. Ég óska bara Hildi og Þórhalli innilega til hamingju með litlu fjölskylduna :)

mánudagur, maí 2

Þetta var nú þvílík rólegheitarhelgi, ætluðum til Uppsala á Valborgarhátíðina á laugardaginn en vorum bæði orðin drullu kvefuð þannig að við lögðum eiginlega ekki í það. Þannig að helgin fór bara í smá tiltekt, afslöppun og horfa á heimsmeistaramótið í snóker :) Stevens á móti Murphy í úrslitaleiknum, ohhhh vona að Stevens vinni, hann er kúl. Annars er voða lítið að frétta, vinnan gengur ágætlega, er að keyra sýnin mín á gasgreininum þannig að niðurstöðurnar eru að rúlla inn, á bara þá eftir smá massagreiningar (vonandi) og þá get ég byrjað að skrifa þá grein og farið í frí án þess að vera með samviskubit, en það besta er að grein sem búin er að vera í vinnslu í örugglega eitt og hálft ár er loksins að verða tilbúin og planið er að senda hana inn áður en ég fer í frí :)

Jú, við fórum í sónar á fimmtudaginn :) að kíkja aðeins á krílið sem var ekkert smá frábært, gaman að sjá hvað það er orðið stórt og manneskjulegt, enda er það bara að safna á sig forða og stækka núna. Alla vega þá leit allt vel út, fylgjan var búin að færa sig upp og er ekki fyrir núna og krílið orðið 1.9 kg u.þ.b. sem er yfir meðaltali hérna í Svíþjóð en þeir eru náttúrulega soddan píslar :) held að þetta sé normal fyrir íslenskt kríli.