föstudagur, janúar 31

Kvöldmatur og biljard
Fórum heim til Jönu sem vinnur með mér og Andreasar kærasta hennar í gærkvöldi þar sem þau buðu okkur í mat. Þar var sötrað rauðvín en röltum síðan niður á JoLo biljardstaðinn fræga sem Auður og Emelía eru alltaf á og tókum nokkra leiki og drukkum smá bjór. Komum ekkert seint heim en ég er ferlega þreytt núna. En það verður sko ekkert slappað af því líklega verður haldið til Uppsala í kvöld í afmælisveislu Sigrúnar og gist þar sem síðasta lest í bæinn fer eitthvað um hálftólf eða eitthvað svoleiðis. Partíið byrjar kl 19 þannig að ætli maður verði ekki að taka lest frá centralnum um sexleitið. Það verður örugglega brjáluð stemmning. En ætli ég reyni svo ekki að koma hingað í vinnuna eitthvað um helgina og reyni að keyra þessi skítasýni aftur manúalt, ætti ekki að taka meira en fimm tíma eða eitthvað svoleiðis. Úje en var nærri búin að gleyma að ég verð víst að fara í dag og láta taka saumana!

fimmtudagur, janúar 30

Þunglynd
Æji hvað ég er eitthvað þunglynd núna, tímakúrfan mín er að stríða mér :o( Fæ neikvæða kúrfu en ég vil fá jákvæða. Verð að leggjast yfir reikningana og prófa að sprauta inn á gasgreininn aftur. Ætli ég hafi gleymt alheimsfasta Einsteins í jöfnuna, það er spurning Pirr pirr Merkilegt þegar maður var í eðlisfræðinni hérna í gamladaga hvað alheimsfastinn virtist oft vera 2. Ég veit! Ég deili fyrri gildunum með 2 og margfalda seinni gildin með 2 og set síðasta gildið í annað veldi!! þá hlýt ég að geta breytt neikvæðri hallatölu í jákvæða!! Hins vegar komst ég að því að ég og Gísli hennar Rakelar erum bara ekkert skild!! Reyndar held ég að gagnagrunnurinn nái ekki nema aftur til 1700 en ég hélt að þetta væri bara ekki til en hins vegar komst ég að því að allir eru víst skildir sjálfum sér. Síðan er komin þung pressa frá Emelíu um að bara kleinur!! Ætli ég fari ekki að bugast undan pressunni bráðum og skelli mér í baksturinn....eða kannski held ég bara áfram að vera þunglynd! Byrja allavega á því að fara og fá mér kaffi!

Saumó
Fór í saumó í gærkvöldi uppi í Täby hjá henni Ásdísi en að honum stóðu saman Ásdís, Sif og Fjóla. Voru þær með svona mexikóska stemmningu með osta tortillias og kjöt tortillias með guacamole og sýrðum rjóma og salsasósu og nachos og læti. Síðan var kaffi og kökur í eftirrétt, ekkert smá gott allt saman!!! En sem betur fer fékk ég far, annars hefði ég svona varla nennt að mæta. Annars fékk ég aðgangsorð á íslendingabókina og fletti upp vinum og kunningjum. Komst að því að við Georg erum eiginlega eins óskild og hægt er, hann og pabbi eru reyndar í sömu kynslóð og eru skildir í áttunda lið, annars er ég ekki enn búin að finna neinn sem er óvænt mjög skildur mér en ég á eftir að skoða málið nánar.

þriðjudagur, janúar 28

Ný klippt og fín
Fór í klippingu í gær (about time) og reyndar lét bara klippa endana og setti í strípur en fann þennan snilldar stað þar sem þetta allt kostar bara 650 kr sem er helmingi ódýrara en aðrir staðir sem ég hef hringt á og kannað verðið en stærsti kosturinn er að stofan er mjög nálægt. Annars hefur lítið gerst síðan í gær, vinnan gengur ágætlega en því miður er gasgreinirinn hraðaákvarðandi stigið hjá mér akkúrat núna þ.s. hann er frekar umsetin og löng biðröð. Erum því miður bara með tvo gasgreina sem virka fyrir analys hluta stofnunarinnar. Annars vona ég að hin sýnin mín komist á massann í dag en hann er líka frekar umsetinn. Þetta var miklu betra áður en við fluttum því þá var ég með gasgreini í láni frá synthes hlutanum (minn eiginn gasgreinir) og það var ekkert smá þægilegt, engar biðraðir. En oftast eru tveir gasgreinar nóg en núna eru frekar margir sem labba þannig að þá óhjákvæmilega myndast biðraðir.
Annars snjóaði pínu áðan en mér sýnist að sá snjór sé strax farinn en það á víst að kólna eitthvað þegar líður á vikuna. Þá er það bara að draga fram úlpuna aftur.

mánudagur, janúar 27

Helgin búin
Þá er komin ný vika eftir rólega helgi. Fórum á laugardagskvöldið til Önnu vinkonu þar sem hún bauð upp á grænmetisrétti enda grænmetisæta sjálf. Fengum í forrét brauð með tómötum og mozarella og í aðalrétt eitthvað baunabuff með steiktum kartöflum og heimatilbúnri salsasósu og svo ávaxtasallat og súkkulaðiköku í eftirrétt. Allt alveg ljómandi gott og meira að segja Georg fannst það gott. Í gærkvöldi horfðum við síðan á sænska hryllingsmynd sem hét "Det okända" (Hið óþekkta) sem var nú eiginlega bara frekar slöpp, fjallaði um nokkra líffræðinga sem fóru norður í land að rannsaka afleiðingar skógarelds og enduðu með því að vera allir með eilíens inni í sér sem tóku yfir líkama þeirra. Snilldarsöguþráður eða þannig. Annars fór helgin bara í þrif og að lesa næsta kaflann í kennslubókinni, eitthvað verður maður víst að lesa þangað til að Potterinn kemur út!

fimmtudagur, janúar 23

Mánudagsvika
Voðalega er vikan búin að líða hratt en mér finnst samt eins og það sé mánudagur ennþá. Gæti verið vegna þess að ég var fram til 10 á þriðjudagskvöldinu að undirbúa fyrirlestur sem ég átti að flytja í gær kl 14-16 í kúrsinum mínum. Vorum þrjú sem áttum að undirbúa fyrirlestur um fyrsta kaflann í kennslubókinni sem við fluttum svo í gær. Það gekk alveg ljómandi vel í grófum dráttum en meira og minna hefur öll vikan farið í þetta. Það var reyndar ágætt að vera með í fyrsta kaflanum því þá er maður búinn, síðan þarf maður bara að lesa hina kaflana og koma með spurningar fyrir þá sem tala um þá. Þannig að ég fór eiginlega bara heim kl 17 í gær og svo snemma í rúmið.

Síðan með þessa blessuðu ráðstefnu þá er hún 12-14 mars og ætluðum að vera yfir helgina líka þar sem maður væri kominn á einn af betri skíðastöðum Svíþjóðar og nota tímann til að fara meira á skíði en nei, allar lestir til Stokkhólms bæði á laugardaginn og sunnudaginn voru fullar, var reyndar hægt að fá sæti í næturlestinni á sunnudagskvöldið en ekki svefnaðstöðu en sitja alla nóttina í 10 tíma lestarferð og mæta svo strax til vinnu er ekkert sérlega heillandi þannig að þetta datt allt upp fyrir. Því maður hefði eiginlega þurft að taka sér þá frí á mánudeginum.

þriðjudagur, janúar 21

Harrý Potter
Já gaman að því að ég forpantaði Harrý Potter á Amazon um daginn þannig að núna getur maður farið að telja niður dagana....... ég held að ég verði að taka mér frí í vinnunni þegar hún kemur út, hún á að vera 25% þykkari en bók 4!!

Skurðaðgerð
Lét fjarlægja 3 st. fæðingarbletti í morgun, tvo af baki og einn á mjöðminni. Það tók ekki langan tíma, u.þ.b. 45 mín. Gaman að því að maður er miklu feitari á mjöðmum en baki þannig að ég er aum í bakinu en finn ekki fyrir neinu á mjöðminni... Góð saga

laugardagur, janúar 18

Monsúnbrúðkaup
Við nokkrar stelpur úr vinnunni vorum með vídeókvöld í gækvöldi heima hjá mér en Georg var að spila tölvuleiki við Ron heima hjá Ron. Horfðum á indverska mynd sem heitir Monsúnbrúðkaupið. Hún er ekkert smá góð og ég mæli eindregið með henni. Annars fór dagurinn í dag bara í það að læra, farið að versla aðeins upp í Mörby centrum og setti læri í marineringu fyrir annað kvöld en þá ætla Emelía og Auður að koma í íslenskt lambalæri.

miðvikudagur, janúar 15

Já ég er víst búin að vera frekar slöpp í blogginu en það er allt í lagi. Búið að vera frekar mikið að gera í þessari viku þannig að ég hef ekki haft mikinn tíma til að setjast niður. Byrjaði svo í kúrsi í dag sem Åke prófessorinn minn kennir sem fjallar um hvörf og hvarfganga lífrænna umhverfisefna. Verður þetta samt frekar óvenjulegur kúrs þar sem við sjálf lesum og kynnum kaflana fyrir bekknum og reynum að skapa umræðu og hinir eiga að sjálfsögðu líka að lesa og koma með spurningar. Þannig að eftir spinninn kl hálf sjö verður farið heim í slátur og svo verður lagst yfir bókina þar sem ég á víst að kynna fyrsta kaflann á miðvikudaginn í næstu viku. Gaman að því að svo seint í gærkvöldi fékk ég frekar mikið áhugaverðar niðurstöður úr smá hliðarverkefni sem ég er búin að láta sitja á hakanum frekar lengi og sagði Åke frá því. Síðan í morgun yfir kaffinu spurði hann hvort ég væri þá ekki bara til í að kynna þessar niðurstöður með póster á ráðstefnu núna í mars. Ég hugsaði mér svo sem gott til glóðarinnar því ráðstefnan verður rétt fyrir ofan miðja Svíþjóð við norsku landarmærin og mig hafði langað að fara en ekki haft neitt að kynna þannig að ég nennti ekki að hugsa um það. Svo þegar ég ætlaði svo að skrá mig þá sá ég að maður þarf að skila inn abstract á mánudaginn næsta! Ég sem var ekki einu sinni búin að pæla í þessu almennilega en jæja maður verður víst bara að gera eitthvað um helgina. Tók ég það að mér að taka á móti einhverjum menntaskólanema sem langar að kynna sér heim efnafræðinnar en það verður víst samt að bíða þangað til eftir páska. Fór síðan heim í gær og hrofði á skaupið sem tengdó sendi. Takk fyrir það! Mér fannst það nú alveg með skásta móti, reyndar lág svo sem ekkert í krampa yfir því en mjög gott engu að síður. Skil ekki hvað Skari Skrípó var að kvarta yfir því að geta ekki gert grín að Ingibjörgu Sólrúnu, var allveg slatta skotið á hana.

laugardagur, janúar 11

Rólegt föstudagskvöld
Georg fór bara í heimsókn til kunningja síns til að leika sér í einhverjum tölvuleik þannig að ég fór bara og leigði mér spólu og keypti kebab á Prófessorinum (hverfispubbinn). Leigði Murders by numbers með henni Söndru Bullock og get bara bennt ykkur á það strax að þið þurfið ekkert að vera að hafa fyrir því að leigja hana, alveg þrælslöpp. Dagurinn í dag fór svo bara í afslöppun og smá tiltekt því það verður farið í morgunkaffi í Fruängen á morgun, eldsnemma, mæting um 11. Annars veit ég varla hvort ég þori eitthvað að vera að setja ný blogg á netið án þess að láta prófarkarlesa þau..... ;o)

fimmtudagur, janúar 9

Hverfissvali
Annars voru ég og Anna ekkert smá duglegar núna eftir hádegi, settum saman vermibað og snúningsdæmi í nýja hverfissvalanum okkar (rotarvapour) (svona tæki sem maður notar til að láta leysinn sinn gufa upp í) alveg sjálfar. Sem betur fer skiptum við ekki um vakúmdælu því það er örugglega töluvert meira vesen að setja hana upp. Annars er hann ekkert smá flottur nýji hverfissvalinn, ekkert miðað við draslið sem maður var með heima með vatns vakúm og það heyrist ekkert í honum. Myndi líklega samt ekki skipta miklu máli þar sem pumpan framleiðir hávaða á við loftpressu.

Vikan næstum búin
sem betur fer þar sem hún er búin að vera hálf mygluð. Fór í bæinn í gær um eitt leitið til að fara til læknis og fá meira krem á hendurnar á mér og ætlaði bara rétt að skjótast en þar sem ég þurfti að bíða í 45 mín eftir afgreiðslu í apótekinu og þar sem tíminn virðist ganga miklu hraðar hérna í Stokkhólmi en þegar maður er að snattast heima þá kom ég ekki aftur í vinnuna fyrr en hálf fimm!! Jæja, þá fór sá dagur í vitleysu. Vann aðeins eftir það og fór svo að æfa hálf sjö. Nú verður sko leikfimin tekin með hörku.

þriðjudagur, janúar 7

Reikniklúður
Vona bara að þessir fræðimenn geri ekki sömu mistök og vissir bandarískir geimferðavísindamenn sem krössuðu geimskutlu þar sem viss hluti hópsins reiknaði í tommum en annar hluti reiknaði í SI-kerfinu og gleymdu að leiðrétta á milli. Kannski reikna þeir kostnað í dollurum og hagnað í krónum og gleyma að deila með 80 ;o)

Mánudagur til mæðu
Þokkalegur mánudagur í mér í dag þó að það sé þriðjudagur enda var rauður dagur í gær og legið var heima í leti enda með kvef og hósta :o( frekar fúlt. Það eru margir frekar mæddir í dag í vinnunni enda margir að mæta fyrst í dag eftir jólafríið. Kostur samt við að liggja svona heima er að ég er næstum því búin að lesa allar jólabækurnar, tók eina á laugardaginn (Röddin), eina á sunnudaginn (LoveStar) og í gær byrjaði ég á þriðju og síðustu (Flateyjarráðagáta) en var eiginlega komin með smá leið þannig að ég komst bara yfir nokkrar blaðsíður. Röddin fannst mér ljómandi góð lestning, fattaði sko ekkert hver var morðinginn, LoveStar var hins vegar frekar öðruvísi, var virkilega að pæla í að leggja hana frá mér eftir fyrsta kaflann en ákvað að halda áfram á þrjóskunni einni saman og þegar maður var kominn inn í hana þá var eitthvað við hana sem olli því að ég gat ekki lagt hana frá mér. Ofsalega spes saga en skemmtileg þegar ég lít til baka. Þá er bara að bíða eftir að Harrý Potter 5 komi út en er sem betur fer með nokkrar spennandi bækur í bókahillunni sem ég er ekki búin að lesa þangað til.

fimmtudagur, janúar 2

Gleðilegt nýtt ár
Þá er maður mættur í vinnu aftur á nýju ári. Gamlárskvöld var mjög fínt, Stefán, María og Ron komu í mat til okkar þar sem var á boðstólnum elgur og meðlæti sem var ekkert smá gott!! Fengum svo í eftirrétt rétt sem María gerði með ávöxtum, makkarónukökum, rjóma og súkkulaði, geggjað gott. Sem betur fer skildu þau afganginn eftir þannig að það var ágætt í morgunmat á nýjársdag. Sátum og spjölluðum og fórum svo út rétt fyrir 12 til að skoða flugeldana, sáum reyndar ekki mikið en heyrðum í slatta. Var samt ekkert eins og heima þar sem himininn litast grænn og rauður og blár. Vaknaði svo á nýjársmorgun með brjálaða hálsbólgu og kvef en hitalaus þannig að það var engin afsökun til að fara ekki í vinnu í dag þó ég sé ekki frá því að ég sé enn kvefaðari en í gær. Bít bara í það súra epli og þjáist í hljóði. Í dag er samt hægt að telja á fingrum annarar handar þá sem eru hérna í vinnunni í dag þannig að ætli maður reyni ekki að klára þessa reikninga sem ég er að gera, komi keyrslu af stað á gasgreininum og reyni að koma mér snemma heim. Kannski líka eins gott þar sem bekkjarfélagar hans Georgs koma í heimsókn í kvöld og fá að bragða á m.a. íslensku hangikjöti og fullt af laufabrauði. Eins gott að reyna að koma þessu laufarbrauði út þar sem ég eiginlega fékk algjört antipat á því eftir að hafa eitt 5 tímum í að búa það til :o) Hins vegar verður þetta þriggja daga helgi þar sem þrettándinn (mánudagurinn) er rauður dagur hérna. Ágætt að byrja svona rólega eftir svona langt frí, vinna í tvo daga og fara svo í þriggja daga frí.