mánudagur, apríl 28

Djammhelgi
Helgin var mjög fín, ég og Georg fórum út á föstudaginn og hittum Emelíu, Auði og Mumma á Pizza Hut og fengum þessar ljúffengu pizzur, það var reyndar sami hálfviti núna sem afgreiddi okkur og hafði afgreitt stelpurnar um daginn, þar sem hann tók vitlausa pöntun og fór síðan að þræta fyrir það þegar stelpurnar kvörtuðu. Honum tókst líka að klúðra pöntuninni í þetta skiptið. Algjör hálfviti. Eftir matinn fór Georg heim en við hin fórum fyrst á hverfispubbinn okkar og spiluðum dart og Emelía reyndi aftur fyrir sér á velli fjárhættunnar en tókst ekki eins vel og síðast. Um ellefu leitið fórum við á stað sem heitir Patricia og er bátur niðri við höfnina en rekinn sem veitingarstaður/skemmtistaður. Þar var spilað svona teknódansmússík á neðri hæðinni (eða á maður að segja undir þiljum) og rokk á dekkinu. Var ekkert smá gaman og kannski var það besta við staðinn að hann var opinn lengur en til eitt, meira að segja lengur en til þrjú. Ég reyndar stakk af rúmlega þrjú þar sem mig langaði að ná síðustu lest heim, stelpurnar og Mummi ætluðu samt að vera lengur og gera tilraun við næturbússinn, hef ekkert náð í þær um helgina þannig að ég leiði að því líkur að þær séu ennþá á staðnum og næturbússarnir virkuðu ekki. Vona að þær komist heim bráðum. Síðan gleymdi ég að sjálfsögðu að slökkva á vekjaraklukkunni þannig að hún hringdi snemma á laugardeginum, mjög gott. Loksins þegar ég svo drattaðist á fætur þá fór ég niður í bæ að hitta Önnu en við ætluðum að kaupa afmælisgjöf handa Lindu en veislan var um kvöldið, eða næstum um miðjan dag, byrjaði klukkan sjö! Voru reyndar engir leikir. Þar var samt svaka stuð, slatti af fólki úr öllum áttum en fórum heim um eitt leitið, ég og Anna og ein til viðbótar þar sem þreyta var farin að segja til sín hjá okkur öllum. Georg nennti reyndar ekki með í partýið, fór að hitta Ron og þeir voru að bardúsa eitthvað sniðugt. Það var reyndar mjög gott að fara svona snemma heim, held að ég hafi sofið í 12 tíma og vaknaði þar af leiðandi seint og illa á sunnudeginum, en naut þess að vera í fríi og gerði ekkert, nema baka kryddbrauð.

Í dag á hins vegar Nada mágkona afmæli og er 23 ára! Til hamingju með daginn Nada mín.

fimmtudagur, apríl 24

Sumarkosning
Við hjónin uppfylltum samfélagslega skildu okkar í dag með því að kjósa í tilefni þess að það er víst komið sumar heima. Svíar reyndar halda ekki upp á sumardaginn fyrsta með neinum hætti, þó á þessi dagur mun meira við sem sumardagur hér í Svíþjóð en á Íslandi þar sem sumarið er oft á tíðum alls ekki komið. Enívei, við röltum okkur niður í sendiráð og fengum þar kjörseðla til að fylla út og verða síðan sendir heim. En gleðilegt sumar öll sömul.

Kveðja
Hrönnsla sumarrós

þriðjudagur, apríl 22

Gauta hér með þakkað
Mér lá svo á að komast í kaffi í morgun að ég gleymdi að þakka fyrir mig. Þakka Gauta kærlega fyrir lánið á herberginu og alla fimm gormana í rúmminu, hefðu ekki mátt vera fleiri :-) Þakka síðan Hildi og Þórhalli fyrir frábæra gestrisni, sjáumst vonandi aftur í sumar heima

Ný vinnuvika
Jæja þá er maður kominn til baka frá Köben og byrjuð aftur í vinnunni. Köben var alveg frábær, stendur alltaf fyrir sínu. Flugum út snemma á föstudeginum, korter í sjö þannig að við vöknuðum um miðja nótt. Tókum síðan lestina til Lyngby þar sem Hildur og Þórhallur tóku á móti okkur og hentum dótinu okkar inn en fórum síðan niður í bæ, kíktum á Kristjaníu og miðbæinn, Strikið og svoleiðis. Enduðum síðan á steikhúsi þar sem við fengum okkur þessar dýrindis steikur. Georg hins vegar varð ekki saddur eftir sín 400 gr þannig að næst þegar þjónustu stúlkan kom þá sagði hann "en till" og þá kom þessi svaka svipur á stelpuna þannig að Georg varð að endurtaka það tvisvar að hann vildi fá eina í viðbót. En hún hefur greinilega bara neitað að trúa því að þessi maður vildi fá eina steik til viðbótar þannig að hún færði honum te í staðinn hehe, en þegar hún kom með tebollann þá varð hún að bíta það í sig að Georg vildi steik en ekki heitt vatn. Á laugardeginum fór Hildur í vinnuna en ég, Georg og Þórhallur ákváðum að skoða miðbæ Lyngbæar þannig að við röltum niður í bæ, keyptum meiri bjór og osta og síðan haug af bönunum sem við settum súkkulaði í til að taka með í grillveislu sem var um kvöldið hjá íslendingum sem eru líka í DTU. Þar voru haugur af íslendingum og voru grillaðar svínalundir, drukkið bjór og bananarnir í eftirrétt og síðan setið eftir kvöldi og spjallað og svoleiðis. Mjög gaman, fór reyndar að minna á grillveislu á Íslandi þegar fór að líða á kvöldið þar sem það kólnaði skyndilega þannig að við flúðum inn. Sunnudagurinn fór í spókun í bænum og ölsötur á Nyhavn og gerðum aðra tilraun á steikhúsinu um kvöldið. Fór reyndar ekki eins mikið af kjöti niður í þetta skiptið en þetta var mjög gott engu að síður. Flugum síðan heim snemma á mánudeginum og vorum komin heim í íbúð um ellefu leitið. Settumst þá út á svalir í sólbað með bók og létum okkur líða vel, lagði mig aðeins eftir hádegið því maður er ekki vanur að vakna svona snemma. Fór síðan að hitta Emelíu og Auði á JoLo til að fara á pool námskeiðið. Fengum að vita að við eigum víst að taka próf í næsta tíma til að athuga hvort við séum nægilega góðar til að fara á framhalds námskeið úfff. Þá er það bara að æfa sig.

fimmtudagur, apríl 17

Afmælisbarn dagsins
Afmælisbarn dagsins í dag er Soffía megaskvísa sem verður ehem..... ja 21 í dag eða svona um það bil. Alla vega innilega til hamingju Soffía!!

miðvikudagur, apríl 16

Langt síðan síðast
Já ég hef eiginlega bara ekki haft tíma til að setjast fyrir framan tölvuna til að skrifa neitt. Alla vega þá var doktorsvörn hjá okkur á föstudeginum, en Göran hérna var að klára og varði ritgerðina sína glæsilega. Síðan var veisla um kvöldið og var maturinn mjög góður, var svona ítalskt hlaðborð með skinku og salami, pasta, ostum, ólífum og hvítlauk, mjög gott en þetta var svo salt allt saman að ég drakk smá vín með matnum en síðan fór ég bara í vatnið og gosið þar sem ég var bókstaflega að þorna upp all kvöldið. Síðan var dansað eftir matinn og einhver skemmtiatriði sem virðist vera fastur liður í öllum sænskum partýum. Var reyndar mjög fyndið. Þar sem ég kom ekki heim fyrr en hálf fimm og horfði á Stellu í orlofi til hálf sex þá fór ég ekki á fætur fyrr en um tvö leitið daginn eftir, Georg var reyndar mjög sáttur því hann sat bara og lærði. Gerði EKKERT á laugardeginum annað en það að rölta mér út á Prófessor og keypti hamborgara og kebab handa okkur. Er orðin alveg háð þessu kebabi þarna, ekkert smá gott og svo náttúrulega kók og franskar með. Á sunnudeginu skruppum við aðeins í bæinn og röltum okkur um og höfðum það næs, ákváðum þar sem við höfðum fengið smá tímanlega afmælisgjöf að fjárfesta í DVD, fundum þetta fína philips á skíð og ingenting og fórum með það heim og horfðum á gladiator og eitthvað sem við keyptum líka :-) Merkilegt, dvd-ið var ódýrara en vídeóið þegar við keyptum það en samt var þetta ekki dýrt vídeó sem við keyptum. Er reyndar orðið voða sniðugt að maður getur keypt dvd og vídeó í sama tækinu, kostur að geta fækkað fjarstýringunum sem virðast fjölga sér eins og kanínur. Gerum það næst ef vídeóið og dvd-ið deyja samtímis en hverjar eru líkurnar á því.

Á mánudeginum komu síðan þessir blessuðu menntaskólastrákar í heimsókn, at last! Þetta voru þrír strákar, Matthias, Jonas og Magnus en eru 19 ára og koma frá Upplands-Bro. Voru ósköp fínir og virkuðu mjög áhugasamir, reyndar minnst sá sem hafði ákveðið að fara í íþróttarháskólan, en það er kannski skiljanlegt. Notuðum morguninn til að tala við flesta hérna á stofnuninni, eru mismunandi hópar hérna sem eru að gera mismunandi hluti og allir sögðu þeim hvað þeir væru að gera. Þeir urðu mjög imponeraðir þegar þeir fengu að hitta stelpuna sem kom með akrýl amíð hneykslið og fannst mjög sniðugt að sjá öll þessi blessuðu tæki sem við notum. Komst reyndar að því að verkleg efnafræði kennsla hjá þeim er mun avanseraðari en það verklegt sem ég fékk að læra, minnir að við fengum að títra einu sinni og eitthvað svoleiðis sem ég reyndar missti af þar sem ég var fótbrotin og þurfti að fara í aðgerð til að skrúfa saman brotin. Enívei, eftri hádegi þá fengu þeir að úrhluta fitu úr hænsnareggjum og hreinsa upp sýnið og gera það tilbúið fyrir keyrslu á GC en þá höfðum við ekki tíma í meira og ég gaf þeim niðurstöðurnar þar sem ég hafði greint sama sýni áður. Þeir virkuðu alla vega sáttir þegar þeir fóru um hálf sjö leitið um kvöldið.

Gærdagurinn var síðan mjög þreyttur, sat á fundi með Åke frá átta til níu þar sem við vorum aðeins að velta fyrir okkur hvernig ég gæti haldið áfram þegar ég væri búin með þetta verkefni og virðist framtíðin vera mjög spennandi. Fór heim um fjögur leitið og dottaði fyrir framan sjónvarpið en fór síðan að hitta Emelíu, Auði og Mumma sem er í heimsókn hjá þeim, Georg ákvað að vera heima að læra. En við fórum í pool og kenndum Mumma allar nýju reglurnar sem við erum búnar að læra og 9-ball og allt. Mjög gaman. Í dag er síðan síðasti dagurinn fyrir páskafrí og síðan förum við til Hildar og Þórhalls á föstudaginn! Jibbí

fimmtudagur, apríl 10

Vídeó í bæjarferð
Vídeókallinn hringdi í gær og sagði að hann hefði bara ekkert fundið að tækinu okkar! Varð nú smá pirruð, fannst að hann hefði getað gert eitthvað við tækið þar sem ég var búin að drösla því alla leið til hans. Kosturinn var reyndar að ég þurfti ekkert að borga. Fór síðan eftir vinnu í gær og sótti tækið og fór með það heim og testaði það og það stemmdi, það var ekkert að tækinu. Samt var alveg fullt að því áður en ég fór með það í viðgerð. Er eiginlega bara sannfærð um að vídeóið vildi bara komast aðeins í bæjarferð, var orðið þreytt á því að sitja bara heima í stofunni og sjá ekkert út. Vonandi að hin heimilistækin fari ekki að taka upp á þessu. Ætli maður verði ekki að byrja á því að fara með sjónvarpið á ströndina í sumar og þvottavélina út í garð og grilla.

miðvikudagur, apríl 9

Fyndinn strákur
Ég veinaði úr hlátri þegar ég las þessa grein hjá Hr. Muzak. Næstum sá þetta alveg fyrir mér.

mánudagur, apríl 7

Vídeótækið fixað
Hvort það var ekki síðustu helgi eða eitthvað, þarna þegar við leigðum þrjár spólur, þá gerðist það. Náðum að horfa á fyrstu tvær, eina Star Treck mynd og síðan mynd sem heitir Kiss the Dragon eða Kiss off the dragon eða eitthvað svoleiðis með honum kínverska þarna bardagagæja sem ég man ekki alveg hvað heitir, jú Jet Li eða eitthvað svoleiðis. Síðan loksins þegar ég ætla að horfa á þriðju myndina, Hrafninn flýgur og sjá hvaða anskotans þungi hnífur þetta er sem allir svíar tala svona mikið um þá klikkar vídeóið, gefst hreinlega upp og neitar að sýna Hrafninn! Sá fyrsta korterið og þá var sagt "þungur hnífur" tvisvar en síðan neitaði vídeótækið að sýna meira, maður sá reyndar best ef maður hraðspólaði áfram. Georg hringdi svo í viðgerðarkall sem sagði að þetta væri dæmigert fyrir skítuga hausa. Veit reyndar ekki hvað hann kallaði hausana. Drattaðist síðan loksins með vídeóið áðan í hreinsun og á þetta að taka 1-2 daga ef þetta er bara venjuleg hreinsun. Ekki seinna vænna svo við getum horft á Stellu í orlofi sem Emelía og Auður lánuðu okkur. Já ég gleymdi að segja það að ég skilaði inn blessuðu prófinu sem ég er búin að vera með í tvær vikur á fimmtudeginum í síðustu viku. Verður forvitnilegt hvað æðstistrumpur á eftir að segja við svörunum.

P.s. Svíar vita ekki hvað makkintos nammi er!

Helgin
Helgin var ekkert smá fín. Fór eftir vinnu á föstudeginum og hitti Emelíu og Auði en við fórum á Flatbökukofann og fengum okkur girnilega flatböku. Fórum svo á poolstaðinn við Mariatorget og æfðum okkur aðeins (3 tíma) þannig að maður var orðinn frekar þreyttur eftir það. Sáum reyndar að við erum orðnar ekkert smá klárar og góðar. En vorum á staðnum til tíu en pabbi átti ekki að koma á centralinn fyrr en rúmlega ellefu þannig að stelpurnar voru svo sætar í sér að setjast inn á krá í nágrenninu og biðu með mér. Var fyrst eiginlega hálfgert grín þegar ég stakk upp á þessari krá þar sem hún virkaði ekkert sérlega spennandi en þegar maður kom inn þá var hún bara ferlega næs og risa stór. Þar var líka svona Black Jack borð en við höfum aldrei spilað fjárhættuspil áður en ég og Auður vorum frekar spenntar fyrir þessu en Emelía var eitthvað að reyna að halda aftur af okkur en Auði tókst að lauma að henni 20 kalli og lét hana spila. Og viti menn, hún bara vann og vann, komst held ég upp í 180 mest en hætti þegar hún var í 100 kr sænskum þannig að hún græddi 80 kr. Spurning hvort hún verði forfallin spilasjúklingur eftri þetta og fer að laumast í spilavítin. Nei ég held ekki. Fór síðan rétt fyrir ellefu út á central og hitti pabba um hálf tólf leitið en þá kom hann meira eða minna farangurslaus þar sem SAS hafði tekist að týna töskunni hans einhversstaðar á leiðinni Tromsö-Osló-Stokkhómur. Þeir lofuðu nú töskunni samt snemma næsta morgun. Á laugardeginum skruppum við pabbi síðan í bæinn, fórum í Östermalms saluhall og keyptum villisvínasteik, reyktan ál (SVAKALEGA GOTT!!!) og annað góðgæti og komum við í Åhlens svo hann gæti keypt sér nærföt og hreinan bol þar sem ekkert virtist bóla á töskunni hans. En þar sem veðrið virtist ekkert ætla að leika við okkur þá nenntum við ekki að labba neitt mikið eða skoða neitt mikið. Vín og sprít safnið verður bara að bíða betri tíma. Fórum bara heim og gæddum okkur á góðgætinu en geymdum kjötið þangað til um kvöldið. Síðan um níuleitið um kvöldið kom loksins taskan hans með harðfiski og lakkrís og öllu. Eins gott. Yrði frekar erfitt ef hún hefði komið eftir að pabbi væri farinn heim :-) Síðan á sunnudeginum fylgdum við Georg pabba út á central svo hann gæti tekið bussinn út á flugvöll. Takk kærlega fyrir helgina pabbi, það var gott að fá þig í heimsókn. Við Georg fórum síðan aðeins niður í bæ og keyptum áfyllingu á sódastrímið og eitthvað svoleiðis. Fórum síðan heim og fengum okkur aðeins meira af góðgætinu sem við pabbi keyptum og smá lakkrís sem kom frá Íslandi. Annars held ég að ég sé að verða eitthvað kvefuð, er alla vega með nefrennsli til jóla en sjáum til hvort það hverfi ekki bara. Verð annars að skjótast niður í bæ á eftir með vídeóið, en þarf að fara að láta hreinsa hausana á því, síðan er pool námskeið í kvöld.

föstudagur, apríl 4

Strákar taka II
ÚJE var að láta Ioannis fá sýnin mín svo hann geti keyrt þau á TSQ massanum. Fyrst var hann nú frekar kúl á þessu, á nefnilega að skila niðurstöðunum í næstu viku, sagði að þetta væri ekkert mál. Síðan þegar ég kom með bakkann til hans með öllum sýnunum þá sigu nú axlirnar á honum og heyrðist bara "suk, voðalega eru þetta mörg sýni". Ég var reyndar oft búin að segja við hann að þetta væri slatti. Enívei, búin að vera að skrifast aðeins á við þessa blessuðu menntaskólastráka sem stúd mí öp um daginn. Eftir að hafa afsakað sig oft og svoleiðis þá ákváðum við að þeir gætu komið þegar ég væri búin að skila inn þessum blessuðu niðurstöðum. Við ákváðum þá að hittast á mánudeginum í viku 16 eins og maður segir á góðri sænsku og þá verður nú eins gott fyrir þá að mæta því þetta verður alla vega síðasta tækifærið.

fimmtudagur, apríl 3

Snjór um mitt sumar
Nú er illt í efni maður! Allt hvítt þegar við vöknuðum í morgun og pabbi að koma á morgun. Er reyndar enn að snjóa en þetta er samt svona snjór sem bráðnar eiginlega strax, alla vega ef það verður ekki kaldara en þetta en ég held að hitinn hérna er u.þ.b. +1 eða 2. Ég sem hélt að það væri komið sumar, keypti mér pils og allt um daginn!! Þarf að tala við mr. Person og biðja hann um að láta sólina skína aftur. Annars er ég að bíða eftir að gasgreinirinn klári að keyra staðalinn minn svo að ég sé viss um að vera með réttan staðal til að setja út í sýnin mín svo þau verði tilbúin. Í kvöld/á eftir koma víst krakkarnir sem voru með Georg í líffræðinni, 4-5 st. eða svo en Georg ætlar að gera pizzu fyrir þau. Vona að ég nái að koma snemma heim. Á morgun verðu mikið að gera, doktorsvörn kl 13, pool eftir vinnu með stelpunum og vonandi Flatböku kofinn og svo beint upp á central að sækja pabba

miðvikudagur, apríl 2

Blogglaust
Það var ekki hægt að blogga í gær :-( Ég sem ætlaði að segja ykkur svo spennandi sögu en núna er ég búin að gleyma henni. Annars var ég ekki látin hlaupa apríl og gabbaði ekki heldur neinn. Er hálf handalaus akkúrat núna en ég er að bíða eftir að stelpan sem ég tók við verkefninu af sem ég er að gera núna, hringi í mig svo við getum rætt hvernig ég á að spíka sýnin mín, þ.e. bæta við staðli svo ég hafi smá kontról á því hvernig heimturnar eru á massagreininum, en það er það eina sem ég á eftir að gera áður en ég get látið Ioannis þunglynda massasérfræðinginn okkar fá sýnin svo hann geti sett þau á massann. Og þá er það bara að bíða eftir niðurstöðunum svo ég geti reiknað út hvað eggin eru menguð. Síðan kemur pabbi á föstudagskvöldið en hann er núna í Tromsö eða eitthvað svoleiðis á fundi og ætlar að koma við hjá okkur á leiðinni heim yfir helgina og fer heim á sunnudaginn. Ætli ég fari ekki í pool með stelpunum á föstudeginum eftir vinnu og síðan bara beint inn á central að sækja pabba en hann á að lenda 22:20 og verður þá líklega kominn um ellefuleitið á centralinn. Síðan var ég að velta fyrir mér að kíkja á Vin og sprithistoriska museet á laugardaginn en Åke var búinn að mæla með því við okkur. Þar á víst að vera svona lyktarorgel og margt annað sniðugt.