miðvikudagur, nóvember 24

Alltaf gaman að reyna eitthvað nýtt :) Við erum reglulega með fundi hérna í analyshópnum þar sem bara er verið að spjalla um vandamál sem hafa komið upp, tiltektardaga og ýmislegt annað. Í dag ákváðum við að fara á kaffihús og ræða þar í staðin fyrir að sitja í vinnunni. Jana fékk þá snilldarhugmynd að fara á kaffihús sem heitir iglo og er með svona ljósameðferð, þ.e. við sátum inni í hvítu herbergi í hvítum kirtlum og síðan var rosalega bjart, en samt voru notaðar svona ljósaperur sem gáfu frá sér dagsljós, þ.e. blandað allar bylgjulengdir. Síðan var boðið upp á morgunmat :) Þetta var nú bara ótrúlega næs, ekki frá því að maður hafi orðið frekar glaður og getað hrist af sér morgundoðann.

fimmtudagur, nóvember 18

Loksins er snjórinn kominn :) Er reyndar hálf blautur þannig að spurning hversu lengi hann endist, kemur í ljós. Okkur stelpunum, og reyndar Georgi, en hann var að vinna, var boðið til Henke í kaffi á þriðjudaginn og síðan þegar við komum þangað þá kom í ljós að hann átti afmæli en vill bara aldrei fá pakka þannig að hann segir engum frá því, algjör. Það var mjög skemmtilegt, spiluðum yatzy langt fram eftir kvöldi en Auður og hennar lið vann. Ekki frá því að dagurinn á eftir hafi verið hálf þreyttur, maður er ekki vanur að fara svona seint að sofa. Eða þá að maður sé að verða gamall.

þriðjudagur, nóvember 16

Jæja, hér í sæluríki er glampandi sól en frekar kallt og það á víst að snjóa á fimmtudaginn víííí gaman. Georg kom heim á laugardaginn frá Færeyjum og var mjög fínt að fá hann aftur heim. Hann gaf mér ekkert smá flotta ullarpeysu með hettu og rennd, geggjað flott sem hann hafði keypt í Færeyjum. Annars hef ég bara ekki haft tíma til að blogga, byrjað að koma niðurstöður úr öllum áttum og ég á fullt í fangið með að vinna úr þeim. Það er samt bara gaman. Fór líka á laugardaginn og hitti Auði í Kungliga biblioteket þar sem íslendingarfélagið var með míníráðstefnu um norræna tungu en þema laugardagsins var bókmenntir. Ég reyndar náði bara seinni hlutanum því miður en það var mjög gaman engu að síður. Hlustaði m.a. á Einar Má og Arnald Indriða og síðan voru tvær sænskar konur sem héldu fyrirlestur. Áhugavert og mjög skemmtilegt. En núna verð ég víst að hlaupa, ætla að hitta Georg og borða hádegismat með honum. Sí jú leiter

fimmtudagur, nóvember 11

Jæja, núna eru þeir búnir að finna villta gullfiska á Húsavík :) Það er nú aldeilis. Annars er ég að pirra mig á DHL. Veit ekki hvort það er bara ég sem hef verið að sjá svona fyrirtæki í hyllingum eða hvort þeir eru bara almennt svona lélegir. Hafði einhvernvegin haldið að það tæki uþb sólarhring að senda innan Evrópu, ég er kannski bara svona vitlaus. Við erum búin að vera að nota þá nokkrum sinnum, kannski svona 5 sinnum, aðalega til að fá sýni send frá Íslandi og hingað til Svíþjóðar. Einu sinni hef ég fengið pakkann í hendurnar beint án þess að þurfa að leita að honum! Í hin skiptin hafa pakkarnir farið eitthvað á flakk. Tvisvar þá bönkuðu þeir laust á hurðina okkar (það er læst inn á stofnunina) en þar sem enginn svaraði og þeir gátu ekki notað dyrasímann og þeir urðu móðgaðir þar sem þeim finnst að þeir eiga að hafa lykil hingað og fóru síðan bara bara og það var ekki fyrr en ég hringdi í DHL sem mér var sagt að pakkinn lægi hjá þeim og þeir eru ekki með frysti þannig að ég hef þurft að fara þangað að sækja pakkann. Einu sinni þá skiluðu þeir pakkanum inn á póststofu háskólans og létu lókal bréfberann koma með pakkann! Hélt að þeir ættu að skila sendingunum á adressuna sem stendur á pakkanum! Ekki þá adressu sem er næst þeim! Við fengum náttúrulega þvílíkt panik þar sem við vorum búin að hringja og þeir sögðu að þetta væri ekkert mál, einhver P. Nordberg væri búinn að kvitta fyrir pakkanum! Einhver P. Nordberg!! Afhenda þeir bara böggla hverjum sem er! Sem betur fer er P. Nordberg einhver sem vinnur hjá póstinum hér hjá háskólanum þannig að við fengum seint og síðar meir pakkann í hendurnar. Í sama skipti þá kom pakkinn ekki daginn eftir heldur eftir tvo daga að hann var sendur, því hann fór til Þýskalands fyrst og þar sem þeir stóðu í einhverjum deilum í Þýskalandi var ekki hægt að senda pakkan frá Þýskalandi til Svíþjóðar fyrr en dag nr 2, þannig að það tók tvo daga að senda frá Íslandi til Svíþjóðar! Sem betur fer var nóg þurrís á sýnunum þannig að þau náðu ekkert að bráðna. Síðan núna á mánudaginn voru send sýni frá Íslandi sem áttu að fara til Hamborgar í Þýskalandi. Ok það hlýtur að taka styttri tíma þar sem pakkarnir virðast fara til Þýskalands hvort sem er. En nei, það er nú ekki svo gott. Pakkinn komst á leiðarenda í dag! 3 dögum seinna!! Pakkinn var heilan sólarhring í einhverju vöruhúsi í Cologne í Þýskalandi (ekki spyrja mig hvar það er). Og þeir kalla sig hraðþjónustu heim að dyrum! Við hefðum alveg eins getað pakkað pakkanum inn í plast og hent honum í sjóinn og vonað að straumurinn myndi bera hann til Hamborgar!

miðvikudagur, nóvember 10

Gleymdi að segja að ég kíkti til Önnu Malmvärn á laugardagskvöldið, en hún býr rétt hjá mér, og við borðuðum saman sushi ásamt sambýlismanni hennar og svo fékk ég að sjá kettlingana sem kisan hennar var að eignast. Voru ekki nema 2ja vikna gamlir og ekkert smá sætir :) Búnir að opna augun og eitthvað aðeins byrjaðir að skoða sig um en náðu ekki alveg að halda uppi eyrunum, þau voru aðeins of stór :) Annars er sushi gott mmmmmmm..... veit ekki af hverju í ósköpunum ég var að bíða í 26 ár áður en ég smakkaði það ohhhh........ ansans, nú langar mig í sushi :( Er enn að velta fyrir mér hvort ég eigi að fara að spila eða bara að láta undan letinni og fara heim og horfa á Buffy eða eitthvað :D Síðan eru náttúrulega friends í kvöld. Æji á maður ekki bara allt gott skilið :) ég held það barasta.

Uss, nú er aldeilis eitthvað gruggugt að gerast í gasgreininum mínum, lítur ekki vel út :( en verð víst að bíða þangað til serían af sýnunum er búin til að reyna að keyra einhverja staðla til að skoða hvað er eiginlega að. Annars er Georg ekki heima núna, hann er í Færeyjum og verður þar þangað til á laugardaginn næsta, en hann er þar að veiða hornsíli fyrir verkefnið sitt. Þannig að ég er bara alein heima. Í gær horfði ég síðan á Nóa Albínóa, góð mynd en frekar sorgleg. Annars var ég eitthvað að velta fyrir mér að kíkja kannski að spila biljard á eftir en einhvernvegin á mörkunum að nenna. Sé til.

fimmtudagur, nóvember 4

Já eins og Auður segir, þá er fólk fífl, en það er víst lítið við því að gera. Akkúrat núna í þessu augnarbliki var ég hins vegar að uppgvöta ostahrískökur!! ÓMÆGOD, hef nú alltaf verið hálf á móti hrískökum, ekkert spes gott, reyndar bara ekkert bragð af þeim, en það læddist ofan í körfuna hjá mér síðast þegar ég var að versla hrískökur með ostakryddi og nú er bara nó vei bak. Er næstum alveg eins og ostapopp eða ostasnakk eða eitthvað svoleiðis, og maður getur alveg reynt að plata sjálfan sig að þetta er ekki nærri því eins óholt :) Hrískökur eru jú hollar, ja eða megrandi alla vega. Fullkomið. Versta er að ég á líklega ekki eftir að fá að hafa pakkann í friði þar sem Kaj er nú þegar búinn að stela tveim kökum og Karin einni (herbergisfélagarnir). Jæja, það er víst ekki allt tekið út bara með sældinni.

mánudagur, nóvember 1

Úpps, gleymdi annars að segja að við hjónin prófuðum Jensens á föstudaginn og ómægod það var ekkert smá gott!! Fæ bara vatn í munnin að af hugsa um það og bara frekar ódýrir. Fékk mér einhverja hryggjasteik með bbq sósu og frönskum og Georg fékk sér entrecod með bakaðri og síðan bananasplitt og crepes með ís í eftirrétt amminamminamm..... væri reyndar alveg til í smá meira grænt með kjötinu, fékk bara einn grillaðan tómat, sem var reyndar mjög góður, en ég er bara soddan meðlætismanneskja, ummm steikt brokkólí og gulrætur eða eitthvað svoleiðis..... ahhhh held ég verði að fara að drífa mig í hádegismat. Hins vegar óhætt að segja að Jensens Stokkhólmi gefur frændum sínum í Köben ekkert eftir.

Jæja helgin var þokkalega erfið. Var að keppa í liðakeppni í biljard þar sem ég Eva, Tessan og Carola vorum í liði TRIQ og fyrir utan okkur fjórar voru bara þrjár aðrar stelpur en samtals voru 8 lið, þ.e. 32 keppendur. Keppnin var haldin í Norrtälje sem er u.þ.b. 45 mín keyrsla norður af Stokkhólmi. Okkar liði gekk nú ekkert svakalega vel enda allar nema Eva frekar nýjar í íþróttinni og sumir þarna voru elit spilarar :) Ég er reyndar mjög sátt við laugardaginn þar sem mér fannst ég spila mjög vel, vann þó ekki neitt, en gerði góða hluti. Sunnudagurinn var hins vegar frekar leiðinlegur, þurftum að bíða lengi milli leikja og ég var að gera ferleg mistök þannig að sá dagur var ekkert spes. Annars var þetta mjög gaman og mér fannst ótrúlegt hvað ég var annars róleg yfir að vera að keppa, var reyndar að deyja úr stressi í fyrsta leiknum en síðan bara hvarf stressið og ég bara salla róleg. En eftir að hafa spilað 7 langa leiki um helgina þá er ég alveg komin með minn skammt af biljard, held ég fari ekki mikið að spila þessa vikuna alla vega, dreymdi meira að segja biljard um helgina og vaknaði næstum öskrandi, nei ekki meira! Annars er það bara þreyta og almenn mygla í dag :)