sunnudagur, desember 26

Jæja við erum nú búin að vera í góðu yfirlæti yfir jólin og borða hangikjöt og aðrar kræsingar, erum meira að segja að fara í fleiri jólaboð í kvöld. Þess á milli er maður bara búinn að vera að hanga í náttfötunum, glápa á vídeó, skoða innan á augnlokin og fara í pottinn. Sem sagt nóg að gera.

Annars var ég að skrifa undir samning núna um daginn, jæja það er nú orðið svolítið síðan. En það var leigusamningur, en lítið kríli ætlar að leigja magann á mér í eins og nokkra mánuði til viðbótar :) og búa þar. Ætlar síðan að flytja út í lok júní. Það hefur nú mest farið lítið fyrir krílinu, það hefur ekkert látið á sér bera enda er nú húsnæðið enn frekar stórt fyrir það. Hins vegar held ég að það hafi stolist í orkuforðann minn þar sem ég hef verið mun þreyttari eftir að krílið flutti inn. Síðan ætlum við reyndar að fara í lok janúar og láta kíkja á það, athuga hvort það gangi ekki vel um og svoleiðis :) Maður verður náttúrulega aðeins að hafa auga með því.

föstudagur, desember 24

GLEÐILEG JÓL OG FARSÆLT KOMANDI ÁR!!!

sunnudagur, desember 19

Jæja, nú erum við komin til landsins. Gemsanúmerið fúnkar en ekki rífa öll upp tólin samtímis þar sem að ég held að símalínurnar þoli bara visst mikið álag.

Lifið heil
Hrönn

föstudagur, desember 17

Úff loksins búin að gera flest allt sem ég ætlaði að gera fyrir jól, held ég, held að ég sé búin að týna heilanum mínum, virðist alla vega ekki vera í hausnum.

Á föstudaginn kom Emelía í pizzu og video þar sem Auður var með einhvern bókaklúbb, en við leigðum "The whole ten yards" sem er framhald af "The whole nine yards". Skít sæmó, ekkert til að mæla með, einhver asnalegur mafíósi sem var að terrorisera þá félaga, Bruce Willys og Matthue Perry, sem var svo asnalega gerður, átti líklega að vera fyndinn en var svo innilega hallærislegur að það náði engri átt. Pizzan var hins vegar góð :)

Á laugardaginn var haldi árlegt jólaglögg Íslendinganna og kom uppsala liðið, Arna, Karvel, Sigrún og Snævar, í heimsókn en við stokkhólmsbúar sáum um kræsingar, síðan leit líka Bjössi nágranni við. Var boðið upp á hamborgara og franskar og síðan jólaglögg og heitt súkkulaði og piparkökur og snúða og setið var fram eftir kvöldi og spjallað og haft það notalegt. Síðan fengum við líka stjörnuljós ligga ligga lái :) sem Auður og Emelía voru svo klárar að kaupa. Smá forskot á áramótasæluna. Hins vegar vorum við ekki með neina næturgesti þar sem uppsalafólkið ákvað bara að keyra heim um kvöldið.

Síðan komum við heim á morgun, vííííí! Ætla að reyna að nota frelsis kortið mitt í gemsann en lofa engu um að það virki, en minnir að númerið sé 695-1753. Læt vita seinna hvort eitthvað annað gildi.

þriðjudagur, desember 7

Hérna er allt gott að frétta, búið að vera nóg að gera og allt það :) Í síðustu viku fórum við nokkrar stelpur úr vinnunni á myndina The Terminal sem var nú bara nokkuð góð. Mér finnst Tom Hanks mjög misjafn, fannst hann flottur í Forest Gump og Cast away en ekkert sérstakur í öðrum myndum þannig að hann er yfirleitt ekki mitt fyrsta val þegar á að velja mynd. En í þessari þá var hann bara alveg þrumu góður.

Um helgina vorum við síðan boðin í bústað með Mats og Ullu Olsson sem liggur einhverstaðar nálægt bæ sem heitir Tierp og er um 1 klst og 45 min akstur norður frá Stokkhólmi. En þetta var víst gamall bóndabær sem er með alveg risa stóru skóglendi þannig að Georg og Mats gátu farið á veiðar, fóru á rádýr og héra og einn sem var með fékk víst eitt rádýr. Ég var meira í afslöppun og göngutúrum með Ullu og síðan fórum við öll á jólamarkað í einhverjum smábæ. Síðan sýndi Mats okkur kjallara undir litlu húsi sem stendur við bóndabæinn sem var með einhverjar hvelfingar frá 1400 eða eitthvað svoleiðis og þar voru fullt af leðurblökum sem sváfu. Veit reyndar ekki hvort þær leggjast í dvala á veturna, en þær lifa á skordýrum hérna í Svíþjóð. Ekkert smá litlar og sætar :)

En núna ætla ég að fá mér sharonið mitt :) Ef þið rekist einhverntíman á svoleiðis þá er það mjög gott, lítur út eins og tómatur, appelsínugult á litin og með svona laufblaðadrasli ofan á sér, heitir sharon, reyndar ekki eftir forsetanum/forsetisráðherranum (vona ég), þá endilega prófið það, mjög gott, borðast eins og tómatur.

fimmtudagur, desember 2

Hlakka til......?
Alveg merkilegt hvað maður er stundum að pæla þegar maður er rétt milli svefns og vöku. Það sem ég var að velta fyrir mér í morgun er af hverju í ósköpunum segir maður "ég hlakka til..." en ekki "mig hlakkar til...". Maður segir "mig langar...", "mig vantar..." og svo framvegis. Á hinn boginn segir maður jú "ég syrgi...", "ég hugsa...", og allt það, maður getur svo sem sagt "mig hugsar..." en þá er maður um leið búinn að afsanna síðastnefnda fullyrðingu. Enn fremur segir maður "mér finnst..." Þannig að ef maður er að tala um huglæg efni þá notar maður "ég", ef maður er að tala um langanir og vantanir þá notar maður "mig" en ef maður er að tala um "staðreyndir" þá notar maður "mér". Eða eitthvað svoleiðis. Ætli þetta með "ég hlakka..." hafi nú ekki bara verið ákveðið sem einhver brandari á þingi íslenskukennara og sem byrjaði sem lítill snjóbolti og er orðið að snjófljóði núna. Þeir eru örugglega enn að hlægja að okkur vitleysingunum.

miðvikudagur, desember 1

Jæja það er kannski kominn tími til að maður setji eitthvað inn hérna :) Annars bara lítið að frétta, við Georg fórum í bæinn á laugardaginn í mega jólagjafakaup, náðum að kaupa næstum allar jólagjafirnar, ekkert smá þægilegt. Síðan á sunnudaginn var bara tekið til og jólaskrautið tekið fram þar sem það var víst fyrsti í aðventu og íbúðin skreytt og hlustaði á fullt fullt af jólalögum. Ekki frá því að ég hlakki til jólanna :) Meira hefur eiginlega ekki á daga okkar drifið, bara búin að vera að fara beint heim eftir vinnu og slappa aðeins af. Vinnan gengur annars vel og niðurstöðurnar rúlla inn hver á fætur annarri. Annars er frekar stutt þangað til við komum heim, en við komum 18. des, bara eftir tvær og hálfa viku :) víííí hlakka til.

Síðan á meistari Finnbogi afmæli í dag :) óska honum innilega til hamingju með daginn.