laugardagur, apríl 30


Jæja ég bregst við áskorunum, enda fengið kvartanir úr mörgum áttum þannig að hér kemur ein bumbumynd :) er komin rúmar 30 vikur þarna. Posted by Hello

fimmtudagur, apríl 21

Gleðilegt sumar :)

Uss ég ætla alltaf að reyna að vera dugleg að blogga en síðan líða bara dagarnir og ekkert gerist :) Núna hef ég alla vega enga afsökun þar sem tölvan mín hérna í vinnunni er komin aftur í lag en það var verið að uppfæra hana í win xp og núna eru vonandi öll forrit og fítusar farnir að virka. Gallinn er reyndar að öll administrasjón er komin til sérstakrar tölvustofnanar hérna innan háskólans sem þýðir að maður getur ekki gert neitt nýtt, ekki sett inn nein forrit sjálfur, ekki einu sinni prentara. Þannig að það er eins gott að maður er kominn með allt gamla dótið og þurfi ekki að fá neitt meira. Annars er maður bara að verða sáttur við xp-ið, var reyndar hálf pirruð í byrjun en síðan er þetta bara vont en venst :) Annars kemur Georg síðan heim í kvöld þannig að ég er officielt ekki lengur grasekkja.

Fór um helgina í heimsókn til Emelíu og Auðar og sjá hvað þær eru búnar að gera fínt í nýju íbúðinni. Auðvitað fékk maður pönnsur namm....... en um kvöldið var rykinu dustað af grillinu og grillaðar gómsætar kjúklingabringur, líka namm..... en sunnudagurinn fór í massífa tiltekt, þreif meira að segja gluggana :) þannig að nú er víst komið sumar, gluggar hreinir og búin að grilla. Annars var nú haglél rétt áðan í örugglega tvær mín þannig að allt getur víst gerst. Kannski kemur þrumuveður líka.

miðvikudagur, apríl 13

Úff, maður er næstum eftir sig eftir svona langa bloggfærslu síðast, veit ekki hvort þið nenntuð að lesa hana alla ;) Annars gengur lífið sinn vanagang hérna, var með fyrirlestur í gær í vinnunni um verkefnið mitt og hvernig það gengi sem gekk ágætlega, fékk alla vega fullt af spurningum sem voru góðar og prófessorinn var sáttur. Síðan er ég jafnvel bara farin að sjá fyrir endann á verklega hlutanum áður en ég fer í frí. Er vonandi að byrja á síðasta hreinsunarstiginu á sýnunum mínum núna sem ég klára vonandi á föstudaginn ef ekkert kemur upp á, síðan ef það bara að bæta staðli út í og þá ætti ég vonandi að geta farið að keyra eitthvað af sýnunum í lok næstu viku eða byrjun á þarnæstu, þ.e. ef gasgreininn ákveður að halda sér lifandi. Síðan er Georg að fara út á land á morgun og verður í viku, fer á vesturströndina að veiða fisk fyrir safnið, svakalega spennó. Ég verð þá bara grasekkja heima á meðan, ætli maður verði ekki bara mest í vinnunni.

mánudagur, apríl 11

Jæja, ætlaði að vera þvílíkt dugleg að blogga en bara ekkert komist í það sökum anna og leti þess á milli :) Ætlaði nefnilega að segja ykkur frá nýrri lífsreynslu minni, maður er alltaf að prófa eitthvað nýtt. Alla vega var ég í jóga á miðvikudaginn var eins og ég hef gert undanfarna miðvikudaga og þá í miðjum tímanum fór kennarinn að tala um mjög góða jógaæfingu sem væri mjög oft notuð, en það var að skola á sér nefið! Hafiði ekki séð auglýsingar á netinu (sem ég hélt að væri bara djók) þar sem maður er með svona könnu með löngum mjóum stút með hnúð á endanum. En þetta fyllir maður með volgu saltvatni og stingur hnúðnum upp í nefið og hallar sér fram og smá til hliðar og hellir svo, þá fer vatnið inn um eina nösina og út um hina! Og síðan skolar maður hina nösina :) Ég hélt að hún væri að grínast og var mikið að velta fyrir mér að vera bara í salnum og reyna að sleppa við þetta þar sem ég hafði enga trú á að þetta væri vitund gott. En maður á víst að smakka matin áður en maður segir að hann sé vondur þannig að ég lét tilleiðast og stillti mér í röðina. Flestar komu skælbrosandi út af salerninu með ný skolað nef og sögðu að þetta væri nú barasta allt í lagi eða bara gott, en ég verð nú að viðurkenna að ég var ekki par hrifin af þessu, finnst óþægilegt að hella vatni upp í nefið á mér. Þannig að ég efast um að ég eigi eftir að fjárfesta í nefskolunarkönnu.

Á föstudaginn voru Emelía og Auður og Mummi, sem er í heimsókn hjá þeim, búin að leigja sendiferðabíl til að fara í IKEA og flytja síðan um helgina, þannig að þær voru búnar að bjóða okkur ef við vildum versla í IKEA þá gætu þær skutlað dótinu okkar heim, sem við þáðum með þökkum, enda ekkert eins leiðinlegt og að drösla þungum pokum og ósamsettum húsgögnum heim með lestinni, tekur nógu mikið á að drösla sér gegnum IKEA. Þannig að við fórum og keyptum rimlarúm með dýnum og kommóðu með skiptiborði og ýmislegt annað smávægilegt sem maður þarf víst að eiga þegar fjölskyldan stækkar. En það er ekkert smá gott að vera búin að þessu, þá erum við bara alveg að verða tilbúin með flest. Vantar ýmislegt smávægilegt reyndar en það getur maður keypt smátt og smátt.

Á laugardaginn var samt ekkert slappað af. Auður og Emelía voru nefnilega að flytja og ég náttúrulega lánaði þeim manninn minn :) nei djók, Georg var búin að segjast getað hjálpað þeim (og ég náttúrulega líka) og Mummi náttúrulega saklaus gestur var líka virkjaður, þannig að við vorum komin til þeirra kl 10 um morguninn. Þá var öllu innbúinu dröslað inn í sendiferðarbílinn, frá helvítis fjórðu hæðinni sem er ekki með lyftu. Ég náttúrulega hjálpaði þvílíkt með að taka poka sem voru með herðatrjám og létta klappsóla og eitthvað svoleiðis :) En sem betur fer er nýja íbúðin á jarðhæð þannig að það tók enga stund að drösla dótinu inn á nýja staðinn. En núna erum við næstum því grannar, þær fengu þvílíkt fína stúdentaíbúð í Bergshamra sem er næsta tunnelbanastöð eftir okkar, meira að segja hægt að fá sér hjólatúr eða göngutúr þangað í góðu veðri, reyndar svolítill spölur. Núna erum við alla vega sömu megin við miðbæinn. Eftir fluttningana var síðan bara pöntuð pizza og lúin bein hvíld. Ég er ekki frá því að ég sé með harðsperrur í kálfunum eftir að hafa labbað allar þessar tröppur. Bara ágætis líkamsrækt.

Um kvöldið fórum við síðan í afmælispartý til Evu poolkennara sem var mjög gaman en rólegt. Þar var náttúrulega farið í leiki eins og í öllum sænskum partýum, en þeir voru nú allt í lagi. Auður og Mummi drifu sig í bæinn eftir partýið en við Emelía vorum aumingjar með hor, ég reyndar með löglega afsökun ;) þannig að við fórum bara heim. Held ég hafi verið komin heim um tvö leitið sem var alveg mátulegt bara.

Sunnudagurinn fór í smá tiltekt og tiltekt á öllu pappadraslinu utan af IKEA húsgögnunum og síðan var stjórnarfundur hjá TRIQ. Var óvenju stuttur og góður fundur, bara rúmir tveir tímar þar sem voru ákveðnar grillveislur og skemmtilegheit ásamt einhverju öðru leiðinlegu. En um kvöldið nenntum við hjónin ekki að elda þannig að við gerðum okkur smá dagamun og fengum okkur sushi á góða sushistaðnum við Tekniska högskolan (geðveikt gott), ég fékk náttúrulega bara grænmetissushi :( en þetta var ekkert smá gott engu að síður, hlakka samt til að geta fengið laxinn og allt hitt góðgætið í venjulega sushiinu. En ég er ekki frá því að maður sé hálf þreyttur eftir helgina, sit fyrir framan tölvuna og er að berja saman kynningu sem ég á að halda á morgun en svona varla nenni því. Þetta er samt allt að koma. Vona bara að ég sofni ekki á foreldranámskeiðinu í kvöld.

mánudagur, apríl 4

Jæja, smá helgarrapport. Fór með Emelíu og Auði til Henke og Yvonne á föstudagskvöldið að borða buritos af því tilefni að Tony var í páskafríi í borginni en ætlaði að fara daginn eftir norður til Umeå en hann er að læra að verða smiður þar. Þar var setið og spjallað fram eftir kvöldi og náttúrulega tekin Yatzy keppni sem við Yvonne unnum léttilega. Strikuðum ekkert út og það síðasta sem við gerðum var að reyna að fá eins háa áhættu og við gátum :o) Bara aldrei lennt í öðru eins. Held að Emelía sé enn soldið fúl yfir að hafa ekki unnið. Laugardagurinn var tekinn með svona þvílíku afslöppunar trompi að ég fór ekki úr náttfötunum allan daginn :) reyndar tók aðeins til og ryksugaði (í náttfötunum). En það er bara svo ógeðslega gott að taka af ot til svona afslöppunardaga og sérstaklega þar sem maður er ekki með samviskubit yfir að þurfa eiginlega að vera að læra eða eitthvað svoleiðis :) Á sunnudaginn brugðum við svo undir okkur betri fótinn og drifum okkur til Uppsala að kíkja á Arnar Smára, og að sjálfsögðu foreldrana líka ;) Ekkert smá sætur snáði, rúmlega eins og hálfs mánaðar gamall og var náttúrulega alveg eins og engill í tilefni heimsóknarinnar, setti spes upp spariskapið og var alveg til í að láta gestina halda á sér. Ekkert smá skrítið að hugsa til þess að eftir tæpa þrjá mánuði verður maður kannski bara kominn sjálfur með svona kríli. Það styttist í þetta.