mánudagur, október 24

Jæja nú er litli strumpurinn ekki svo lítill lengur enda orðinn slétt 8 kg og tæpir 65 cm. Síðan fékk hann líka fyrstu sprautuna sína og var ekkert smá duglegur, grét bara í svona 20 sek og síðan var bara allt í lagi. En gott að þetta sé búið alla vega :)

sunnudagur, október 23

Jæja þá sit ég fyrir framan fína lappann minn og blogga þráðlaust. Það þýðir sem sagt að við erum komin aftur til Sæluríkis. Komum heim í gær en það var flogið snemma þannig að Eiríkur greyið var rifinn upp um miðja nótt. Hann var nú þokkalega hress en held þetta hafi verið mest svefngalsi. Annars náði hann að heilla allar flugfreyjurnar upp úr skónnum, þær komu hver á fætur annarri og báðu um að fá að halda á honum og fóru með hann út um allt. Þannig að við sáum hann varla hálfa ferðina. Ætli hann verði ekki bara þvílíkt kvennagull þegar hann verður eldri :) Annars gekk ferðin vel, Eiríkur fékk sér bara smá kríur af og til þannig að hann var nú orðinn frekar þreyttur þegar heim var komið en þá lögðumst við mæðgin bara fyrir og sváfum örugglega í 2 tíma.

Annars er ágætt að vera komin heim aftur, varð reyndar hálf þunglynd þegar við renndum í hlaðið þar sem það er verið að mála blokkina að utan þannig að það er grátt byggingarplast fyrir hverjum glugga sem gerir það að verkum að maður verður hálf innilokaður hérna inni og íbúðin verður enn myrkari. En ég held ekki að Eiríkur kannist neitt við sig, bara búið að drösla honum á enn einn nýjan staðinn.

Síðan verður nóg að gera í vikunni, við förum í skoðun með litla dýrið á mánudaginn og þá fær hann líka fyrstu sprautuna sem hann í raun átti að fá fyrir mánuði síðan (3 mánaða) en við vorum náttúrulega bara á klakanum. Skiptir líklega engu máli, en þetta verður spennandi þar sem hann var síðast viktaður og mældur 2 mánaða gamall og er að verða 4 mánaða eftir viku.

Skelli kannski inn nokkrum myndum seinna frá Íslandsdvölinni og nánari útlistun en núna er verið að svæfa dýrið, gengur hálf brösulega :)

þriðjudagur, október 11

hmmmm já uppdeit, bloggletin er alveg að drepa mann hérna :) drepa mann lifandi eins og sagt er. Alla vega erum við enn á klakanum, og margt á daga okkar borið. Erum búin að fara með snáðann í Borgarfjörðinn (var næstum búin að skrifa "upp í" eins og sönnum Mosfellingi) og heimsækja fólkið á Skálpastöðum og "upp í" Grímsnes í bústað. Annars er það nýjasta nýtt að við erum búin að framlengja dvölina til 22. okt þannig að þið losnið bara ekkert við okkur (í raun erum við búin að afturkalla miðann en þykjumst bara fresta heimferðinni um viku og viku í senn ;) þannig að þið haldið alltaf að við séum að fara og þá verðum við svo svakalega vinsæl, nei segi svona)

Annað nýtt er að Katla sys ofurgella er farin til Bretlands að nema fræði lífsins þar og hún ætlar að leyfa okkur að fylgjast með á öldum netvakans með bloggi sínu sem má finna hér. Endilega kíkið á hana, hún er ferlega skemmtilegur penni og þónokkuð betri í stafsetningu en ég :) Set hana líka í tenglasafnið hér við hliðin á. Jæja, ég verð víst að sækja mömmu í vinnuna, annars er hætt við því að hún verði svolítið fúl.