föstudagur, september 29

Ég held að það sé leitun að öðrum vinnustað þar sem vinna eins mikið af sældgætisgrísum :) Sonur einnar sem er að vinna hérna keyrir út ís fyrir SIBA ísframleiðandann og hann hefur stundum dónerað nokkra kassa af pinnaís sem hafa "dottið úr bílnum og skemmst". Í gær kom konan með 25 lítra af kúluís, þ.e. 5 svona stór box av kúluís eins og er í alvöru ísbúðum ásamt vöffluformum, ísskeiðum og boxum þannig að það var þvílíka veislan. Ætli það sé ekki svona um 30 manns sem vinna með mér þannig að það var tæplega líter af ís á mann. Ég held samt að það sé alla vega15-20 lítrar eftir þannig að við fáum ís eftir hádegismatinn og í kaffitímanum næstu vikurnar. Þannig að það er eins gott að geyma megrunina í eins og mánuð í viðbót :)

Í gær fór ég og sótti Eirík á leikskólann og síðan brunuðum við á bílnum niður í bæ til að setja saumavélina í viðgerð og kaupa skó á kútinn. Þegar við vorum komin á réttan stað að ég hélt þá sá ég þetta fína bílastæði og prísaði mig sæla. Dröslaði syninum í kerruna og út með saumavélina og spurðist til vegar og komst þá að því að ég var 2-3 "kvarterum" í burtu. Þannig að ég skellti öðrum endanum af saumavélinni á körfuna undir kerrunni og hélt í hinn endann og arkaði af stað, stýrandi kerrunni með einni hendi. Loks fundum við búðina þegar ég var orðin löðrandi sveitt og móð og gátum skilað inn vélinni. Síðan var skóbúðin bara rétt hjá en þetta er frekar stór barnaskóverslun þannig að þar inni voru ca 10-15 foreldrar og örugglega tvisvar sinnum fleiri smákrakkar þannig að hitinn og lætin voru alveg að gera út af við mann. Á endanum fengum við samt afgreiðslu og ég gat á einhvern ótrúlegan hátt valið haust skó og kuldastígvél á Eirík og borgað. Tók bara 45 mín :) Eftir þetta var ég svo innilega búin á því að ég treysti mér ekki að keyra heim, heldur fundum við kaffihús og ég varð að kaupa mér eitthvað að drekka og kaffi meðan Eiki fékk djús og kex og sátum við þar í smá stund til að jafna okkur. Síðan tókst Eika að heilla afgreiðslu dömuna svo svakalega upp úr skónum að ég bjóst við að ég þyrfti að skilja hann þarna eftir, enda vildi hann ekki fara og daman alveg seld. En eftir uþb korter af kossum og fingurkossum og knús þá tókst mér að draga drenginn út úr kaffihúsinu og fara í bílinn. Sem betur fer sóttum við Georg í vinnuna á leiðinni heim því ég var bara alveg búin eftir þetta ævintýri og fór bara snemma að sofa.

En núna er föstudagur og helgin framundan og bara huggulegheit og þægindi eru skipulögð.

fimmtudagur, september 28

Jæja, ég talaði við lækninn í gær sem sendi Eirík í ofnæmisrannsókn og fékk hjá henni niðurstöðurnar. Alla vega þá svaraði hann jákvætt á hnétur en þó ekkert svakalega sterkt. Einnig svaraði hann jákvætt á egg enda höfum við einu sinni reynt að gefa honum harðsoðið egg og hann vildi ekki sjá það og varð smá rauðflekkóttur eftirá. En hún sagði að maður ætti bara að sjá hversu mikið hann þoldi, enda hefur hann fengið kjötbollur og pönnsur sem innihalda egg og ekki fengið nein viðbrögð. En elduð egg eru betri en hrá og eggjarauðan betri en eggjahvítan. Þannig að hann má ekki sleikja deigið úr hrærivélaskálinni sagði læknirinn og engann heimatilbúinn ís :) En hún sagði líka að mjög líklega vex eggjaofnæmið af honum og bara vonandi líka hnétuofnæmið. En síðan eigum við að fara aftur í tékk eftir hálft ár.

mánudagur, september 18

Uss, ég ætti bara ekkert að vera á labbinu í dag. Dagurinn byrjaði sem dæmigerður mánudagur, ég kom inn á labb með fullan kassa af stöðlum í tilraunaglösum. Og hvað er það fyrsta sem mér tekst að gera, jú náttúrulega að reka olnbogann í kassann og steypa honum á gólfið. Sem betur fer brotnuðu bara tvö rör sem ég varð að hreinsa upp og sem betur fer átti ég nóg af þeim staðli sem brotnaði. En svona er það. Held ég fari bara að skella mér í mat og byrja upp á nýtt eftir hádegi.

Annars er það að frétta að við Eiríkur fórum til læknis á mánudaginn var sem sendi okkur í blóðprufu til að kortleggja ofnæmið hans Eika. Eiríkur stóð sig eins og hetja. Það var ekki hægt að finna æð í fitubolluörmunum þannig að hjúkkan varð að stinga á puttann og mjólka hann í tvö rör. Eika fannst það nú ekki mikið mál, lék sér bara við bílinn sem hann fékk lánaðann og beið þolinmóður. En síðan setti hjúkkan plástur á puttan og það fannst honum ekki sniðugt. Reyndi að þurrka plásturinn í buxurnar og hætti ekki fyrr en plásturinn fauk af. En sem betur fer var hætt að blæða. Síðan fáum við vonandi svör úr testinu eftir kannski viku.

Á föstudaginn komu Ingó og Hilmir í mat þar sem Begga var á Íslandi. Þeir félagar gátu leikið sér saman en það var smá valdabarátta um dótið eins og gefur að skilja. Um helgina skelltum við okkur síðan til Uppsala í sund og kaffi hjá Örnu og Karvel og kútunum þeirra. Við Arna fórum með Eirík og Arnar Smára í sund og þeir félagar skemmtu sér stórvel. Sátu meira að segja saman í tvíburavagninum þeirra og spjölluðu á leiðinni í og úr sundinu.

Leikskólinn gengur vel, Eiríkur var samt svolítið leiður að þurfa að fara í dag, enda mánudagar oft leiðinlegir. En nú ætla ég að skella mér í mat, er að svelta lifandi hérna ;)

miðvikudagur, september 13

Uss ég er alveg að springa á þessu bloggi. En ég nenni bara eiginlega ekki að blogga akkúrat núna, geri það vonandi fljótlega, en ég er búin að setja fullt af myndum af syninum inn á síðuna hans. Albúin "Sumarið 2006" og "Ísland, ágúst 2006". síjúleiteraligeiter