sunnudagur, janúar 28

Ég setti inn fullt af nýjum myndum inn í veturinn2006/2007 möppuna hjá Eika og tvö ný myndbönd. Endilega kíkið.

föstudagur, janúar 12

Það rann upp fyrir mér hræðileg staðreynd í gær við hádegisverðarborðið í vinnunni. Ég hef eytt 1/3 af minni ævi í Svíþjóð! Var hér 3 ár í barnæsku og er búin að vera núna 5,5 ár sem gerir samtals 8,5 ár. Það deilt með 28,5 er 0,30! Kræst. Vinnufélagarnir byrjuðu að sjálfsögðu strax að gera grín af mér og sögðu að ég teldist þar af leiðandi eiginlega til Svía. Er búin að sjá það að ég verð bara eiginlega að flytja strax heim áður en illa fer.

miðvikudagur, janúar 3

Gleðileg jól og gott nýtt ár!!
Jæja, ég er mætt í vinnu aftur eftir leti síðustu viku og daga. Við höfum haft það rosalega gott hérna í Sælunni og í raun ekki gert neitt annað en að slappa af og njóta lífsins og jú að sjálfsögðu, borða góðan mat. Við vorum heima þrjú á aðfangadag og borðuðum blómkálssúpu í forrétt og svo elgssteik með meðlæti í aðalrétt, rosalega gott. Eftir það var að sjálfsögðu ráðist á pakkana og nú lét sko Eiríkur ekki sitt eftir liggja í pakkaopnunninni. Það var bara heimtað meira og meira og pappírinn rifinn og tættur og leikið sér aðeins við dótið. En eftir að mjúkir pakkar voru oppnaðir þá var nú fljótlega beðið um nýjan :) Annars þakka ég kærlega fyrir okkur öll, við fengum svo margt fallegt. Á jóladag var brunað upp í sveit og Arna og Karvel heimsótt. Þar var boðið upp á hangikjöt og meððí (rosalega gott) og Eiríkur og Arnar Smári léku sér eins og óðir væru :)

Dagana milli jóla og nýárs vorum við mæðgin heima meðan Georg vann fyrir saltinu og vorum mest bara úti á strönd að sulla og njóta þess að vera í fríi. Á gamlárskvöldi vorum við boðin í ungverska veislu hjá Róberti og Gabríellu, fyrrverandi nágrönnum okkar, þó þau hafi ekki flutt langt. En þar var boðið upp á hvítvínssoðið svínakjöt og hvítkál og annað ljúfmeti. Um níuleitið fórum við út að skjóta aðeins upp svo Eiríkur gæti séð aðeins af herlegheitunum. Honum leist sko ekkert á stjörnuljósin, lét þau bara vera en horfði mjög hugrakkur á raketturnar skjótast upp. Eftir nokkrar rakettur spurði ég hann samt hvort hann vildi fara inn aftur og það vildi hann um leið. Held hann hafi bara verið hálf stjarfur :) En síðan svaf hann af sér aðal lætin um miðnætti. En í dag er aftur komin regla á hlutina og hversdagsleikinn tekur við. Held að Eiki hafi samt verið hálf feginn að komast aftur á leikskólann að hitta vini sína. Alla vega í gærkvöldi þegar við vorum að ræða þetta þá varð hann rosa glaður, rifjuðum upp nöfn allra vinanna og hann var mjög duglegur að segja þau öll.

Einíveis, skal setja (vonandi) fljótlega inn myndir frá jólum og nýari :)

kv
Hrönn